30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Hv. 1. þm. S.-M. sagðist ekki þurfa að svara efnishliðinni í ræðu minni, það hefði hæstv. forsrh. gert. Ég ætla, að það sé nú nokkuð oft, sem hv. 1. þm. S.-M. sér ekki ástæðu til að fara út í efnishlið málsins, sem hann er að ræða um.

Hv. 1. þm. S.-M. má ekki misskilja það, þótt ég segði, að hann væri sítalandi hér á þingi. Hv. þm. mun vera ekki óefnilegur maður, en hann er ungur hér á þingi, eins og ég sagði, og þegar hann eldist, mun hann áreiðanlega tala minna — og betur. Það er leiðinlegt, þegar þessi hv. þm. sprettur upp í hverju máli til þess að segja okkur eldri þingbræðrum sínum hluti, sem við höfum vitað í jafnvel mörg ár. Eins er mér sagt, að þessi hv. þm. hegði sér á flokksfundum þeirra framsóknarmanna. Hv. þm. er það, sem kallað er málskrafsmaður, og fer of oft með það, sem í daglegu tali er kallað kjaftháttur. Vil ég því gefa hv. þm. mínar föðurlegu áminningar að því er þetta snertir, í þeirri von, að hann sjái nú að sér og hverfi af þessari málskrafsbraut, sem hann er á.

Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, að það væri bersýnilegt af gögnum þessa máls, að Slippfélagið vildi tryggja sér réttindi, sem það hefði ekki öðlazt. En eins og ég þegar hefi sannað, er það fullkominn misskilningur. Það bendir allt til þess, að Slippfélagið hafi frá fyrstu tíð lagt þennan skilning í samninginn, og mér er óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. forsrh. vænir fyrrv. borgarstjóra hér um það, að hann hafi ekki haldið því fram fyrir hönd bæjarins, sem hann átti að gera, þegar borgarstjóri segir það líka, að hann hafi við undirskrift samningsins tekið fram, hvaða skilning bæri að leggja í ákvæði hans. Það er sjaldgæft að heyra hæstv. forsrh. væna menn um annað eins og þetta. Það hlýtur að vera gert að óathuguðu mál. Að svo komnu trúi ég ekki öðru um hæstv. forsrh.

Ég veit, að umr. um þetta mál eru þegar orðnar nokkuð langar, enda mun efnishlið þess að mestu vera fullrædd. Þó vil ég segja það, að samkeppnin, sem félag þetta á yfir höfði sér, er ekki svo lítil. Það á í fyrsta lagi á hættu, að annað eða önnur slík fyrirtæki rísi upp og taki frá því atvinnuna. Í öðru lagi á það í samkeppni við erlend fyrirtæki, sem hingað til hafa gleypt alla þessa atvinnu, og í þriðja lagi á það yfir sér harða samkeppni um smíðavinnuna við innlend fyrirtæki, vegna þess að sé hún of dýr hjá félaginu, láta skipaeigendur vinna hana annarsstaðar, því enginn nauður rekur að jafnaði til, að sú vinna sé unnin einmitt meðan skipin eru í Slippnum. Mér finnst því undarlegt, þegar búið er að hjálpa þessu fyrirtæki, sem viðurkennt er að vera þjóðþrifafyrirtæki, að Alþingi skuli nú ekki vilja veita því þessa litlu hjálp. Annars skil ég ekki, hvern er verið að vernda með því að setja félaginu þessi óaðgengilegu skilyrði. Ekki er verið að vernda okkur útgerðarmenn; það hefi ég skýrt áður. Það eina, sem hefst upp úr slíku skilyrði, er að gera félaginu skaða alveg að ástæðu- og nauðsynjalausu.