20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

22. mál, verkamannabústaðir

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. virtist í ræðu sinni áðan vera eitthvað sár til mín út af ummælum, sem ég hefði viðhaft í hans garð. Hann taldi, að ég hefði veifað framan í sig handjárnum. Ég geri ráð fyrir því, að hann hafi eflaust hlustað á ræðu mína, en hann hefir þá ekki tekið jafnvel eftir henni. Ég talaði ekki um nein handjárn á honum; ég talaði aðeins um handjárn rauðliðanna. Á öðrum stað í ræðu minni talaði ég um, að hann væri utanflokka, og það hlýtur að vera rökrétt ályktað, að úr því ég taldi hann utanflokka, þá geta handjárnaummælin ekki hafa náð til hans. Ég dróttaði ekki neinn út af fyrir sig til hans. Það eina rauða flagg, sem ég veifaði til hans, var afstaða hv. þm. sjálfs til þessa máls, því ef afstaða hans er krufin til mergjar, þá verður hún eins og lítil sundurtætt rauð dula, sem á ekkert skylt við handjárn. Ég tel ekki, að hans röksemdir styðjist við almenna dómgreind, og get því ekki tekið þær fyrir góða og gilda vöru.

Ég minntist ekki í minni ræðu á það, er hv. 2. þm. Reykv. lét draga upp 40 til 50 rauða fána á reisuhátíð verkamannabústaðanna, en hv. þm. var að svara mér því, að hann taldi þennan atburð ekki sannfæra sig um það, að þarna væri á ferðinni nein pólítík, og sú stj., sem þar hefði ráðið, þyrfti ekki að vera neitt pólitísk, þó flaggað hefði verið með rauðu við þetta tækifæri. Ég veit, að ef hv. þm. talaði af heilum hug, þá væri honum það vitanlega ljóst, að alstaðar þar, sem sósíalistar nota þennan fána, þá er það til að auglýsa þeirra pólitísku skoðanir. Hv. þm. er það e. t. v. minnisstætt síðan hann var ráðh., að þau tilfelli komu fyrir, bæði á Siglufirði og víðar, að skorinn var niður þýzki hakakrossfáninn. Þetta var ekki gert af því, að þeir, sem þetta frömdu, væru neinir fjandmenn hinna, sem höfðu dregið fánann upp, heldur þeirrar pólitísku stefnu, sem fáninn átti að bera vitni um. Alveg eins hljótum við að líta á þá fána, sem dregnir voru við hún á þessum byggingum, að þeir þýða það, að þar ráði sósíalistar og eigi að ráða, og vitanlegt er, að þó hv. 2. þm. Reykv. segi, að þeir hafi ekki verið dregnir upp eftir boði stj. félagsins, heldur eftir beiðni meiri hl. verkamannanna, þá er það aðeins lítilfjörleg afsökun hjá hv. þm., sem enginn getur tekið mark á. Hann hefir haldið því fram, að hann hafi verið ópólitískur í þessu máli, og hefir svo reynt að finna einhverja ástæðu. Ég veit, að hv. þm. V.-Ísf. er svo greindur maður, að hann veit, að hv. 2. þm. Reykv. hefir hér farið aðeins með tylliafsökun, og að þessar rauðu dulur á verkamannabústöðunum þennan dag áttu aðeins að vera og voru ímynd pólitískrar afstöðu þeirra, sem þarna stjórnuðu. Ég hefi nú nefnt þetta aðeins sem dæmi. Þessi rök hjá hv. þm. V.-Ísf. eru ekki slík, að ég veit vel, að hann finnur það sjálfur, hve veigalítil þau eru.

Þá var hv. þm. að óska eftir því, að ég vildi vinna með sömu samvizkusemi að þingstörfum í framtíðinni eins og hann hefði þurft að gera í þau 10 ár, sem hann hefði nú setið á þingi. Ég hefði nú óskað, að hann hefði orðað þetta dálítið öðruvísi, ekki sem hann hefði þurft að vinna með, heldur þeirri samvizkusemi, sem hann hefði unnið með. Ég tel það aðalkostinn við samvizkusemina, að hún sé sprottin af innri þörf, en ekki knúin fram af ytri nauðsyn. Það má vera, að hv. þm. hafi meint þetta, og ef hann hefir þannig óskað mér heilla af heilum hug, þá er mér vitanlega skylt að þakka það. Án þess að ég hafi kunnugleika á afstöðu hans til stj., þá verð ég að efa, að það sé af tómri samvizkusemi, að hann álítur þessi lög réttlát í garð Byggingarfélags sjálfstæðra verkamanna; ég efa, að hann finni það ekki, að þau eru ekki sanngjörn. Hann hlýtur að vita, að með þessu frv. eru sósíalistar að tryggja sér pólitísk yfirráð yfir þessum félagsskap, sem þeir ætla að nota í sína þjónustu og knýja til þess að fylgja sér að málum, og þó segja megi, að félaginu sé stjórnað ópólitískt, þá er það vitað, að hin óbeinu áhrif af því, að stjórnina skipa mjög einlitir pólitískir menn, eru engu þýðingarminni en hin beinu áhrif. Sú meðvitund, að fyrir slíku félagi standi maður eins og hv. 2. þm. Reykv., hún ein hefir mikil áhrif á þá menn, sem eiga að njóta þessa félagsskapar. Ég veit, að hv. þm. skilur það, ef hann vill, að þó að félagið sé kallað ópólitískt og eigi að vera það, og þó það sé viðurkennt, að fullkomin samvizkusemi eigi að vera ráðandi hvað það snertir, þá veit hv. þm. það og skilur, að það er nokkurt atriði fyrir mann sem hefir aðra pólitíska skoðun en hv. 2. þm. Reykv., að gefa sig undir stjórn svo valdafíkins og einráðs manns sem hann er, sem vitanlega reynir að smala öllum, sem hann heldur, að hann geti haft áhrif á, undir sína stjórn. Og frá þessu sjónarmiði hlýtur hv. þm. V.-Ísf. að skilja, að það er ekki ástæðulaust, þó við sjálfstæðismenn hér á Alþingi viljum reyna að hjálpa flokksbræðrum okkar utan þings og óskum, að þeir, sem hafa óbundin atkv., líti með sanngirni á þeirra málstað. Sósíalistar hafa pólitískar ástæður til þess að berjast fyrir þessu frv. Framsóknarmenn fylgja því, ekki fyrir það, að þeir viti ekki, að það er ranglátt, heldur af því, að þeir eru skuldbundnir til þess vegna samninga um stjórnarsamvinnuna. Það er því skiljanleg aðstaða framsóknarmanna og jafnaðarmanna, en það er því miður ekki skiljanlegt, að hv. þm. V.-Ísf., sem hefir lýst því yfir, að hann sé utanflokka, og ennfremur að hann láti samvizkuna ráða og sannfæringuna, að hann skuli þó ætla að greiða atkv. með ofbeldinu. Og hv. þm. þarf ekki að undrast yfir því, þó sjálfstæðismenn beini orðum sínum til hans, þar sem hann er eini maðurinn í stuðningsliði stj., sem ekki er fyrirfram í handjárnum stjórnarinnar. Og því síður er það svo, að hann geti tekið það illa upp, þó einn og annar sjálfstæðismaður hafi von um það, að hann láti það ráða framkomu sinni í málinu, sem hann álítur réttast. Hv. þm. var að vitna í það, að hann hefði greitt atkv. eftir sannfæringu sinni um kosningalögin, sem breytt var á síðasta þingi. Ég skildi ekki, þegar hann sagði þetta, hvað það kom þessu máli við, en síðan hefir mér verið bent á það, að hann muni hafa átt við, að þar sem ég væri einn af þeim, sem hlutu uppbótarsæti vegna þeirra lagabreyt., sem gerðar voru í þessu máli, þá sitji sízt á mér að vera að deila á hann, þar sem ég ætti honum að þakka, að ég hefði komizt inn í þingið. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir meint þetta, en ef svo er, þá vil ég benda honum á það, að þó þau lög stefni nokkuð í rétta átt frá því, sem áður var, þá eru þau nú samt sem áður varla annað en spéspegill af réttlætinu. Hv. þm. V.-Ísf. veit, að þau l. fela ekki í sér fullkomið réttlæti. Hann veit, að ef svo væri, þá mundi hlutfallið milli þingflokkanna vera annað en það er nú, þá mundu ekki sósíalistar og Framsókn hafa meiri hl. í þinginu. Ég er ekki að vanþakklát hans hlut í kosningalögunum. Hvaða áhrif hann hefir haft á þau, vil ég ekki dæma um. Ég þóttist ekki í ræðu minni viðhafa nein móðgandi ummæli í garð þessa hv. þm., en ég get tekið undir með hv. þm. Vestm., að mér verður það á að gera meiri kröfur til þessa hv. þm. en annara stuðningsmanna stj., og hefi því nú orðið fyrir vonbrigðum, eins og aðrir, sem trúðu því, að hv. þm. V.-Ísf. léti skynsemi sína og samvizku ráða í þessu máli, en í þess stað hefir hann fyrir einhverra hluta sakir snúizt til fylgis við hinn verri málstað.