10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

26. mál, vinnumiðlun

Garðar Þorsteinsson [óyfirl]:

Ég held, að enginn hafi þurft annað en hlusta á ræðu hv. síðasta ræðumanns til að sannfærast um það, að mál þetta er flutt pólitískt. Það skín í gegnum ræðu hans óttinn við það, ef einhverjir aðrir en eindregnir fylgismenn Sósíalistaflokksins hafa úthlutun vinnunnar með höndum. Þessum hv. þm. hlýtur að vera það fullljóst, að úthlutun bæjarvinnunnar í Rvík fer að engu leyti eftir pólitískum skoðunum. Ég efast um, að hv. þm. geti bent á eitt einasta dæmi um að mönnum hafi verið bægt frá vinnu hjá bænum vegna pólitískra skoðana. Það er a. m. k. undarlegt, að verkamannafélögin skyldu rjúka til og stofna sína eigin ráðningarskrifstofu, aðeins af því, að bæjarstjórn hafði ákveðið að setja upp slíka skrifstofu, og þetta gerðist áður en skrifstofa bæjarins tók til starfa. Virðist manni, að vel hefði þetta mátt bíða þar til nokkur reynsla hefði verið komin á um starf þeirrar skrifstofu, m. a. í því atriði, hvort hún starfaði hlutdrægt eða ekki. Virðist mér órétt að ráðast á þá menn, sem eiga að veita skrifstofunni forstöðu; má vel minnast þess, er Alþýðublaðið hér fyrir skemmstu rauk upp með skammir og svívirðingar um þann mann, sem veita átti skrifstofunni forstöðu, einungis af þeim ástæðum að hann var form. Varðarfél. Hefði ég viljað mega vænta þess, að hv. síðasti ræðumaður sem þm. og lögfræðingur geymdi að kveða upp dóma, þar til skrifstofan væri tekin til starfa, og maðurinn sýndi sig í starfinu. Fyrirfram hefir maður ástæðu til að ætla, að frv. þetta sé ekki flutt til þess að vinna málefninu gagn, heldur framkomið af pólitískum ástæðum.

Ég hefi álitið sem meginreglu við úthlutun vinnunnar, að þeir, sem kosta skrifstofuna og kaupa vinnuna, eigi að ráða mestu. Mér finnst, að bæjarfél. fái ekki samkv. frv. þessu nægileg ráð yfir skrifstofunni. Það er alveg rangt hjá hæstv. atvmrh. og hv. síðasta ræðumanni að ekki megi samkv. frv. þvinga fram slíka skrifstofu án óska viðkomandi bæjarstjórna. Í 1. gr. frv. felst einmitt ákvæði um það, að vinnumiðlunarskrifstofu skuli setja á stofn, ef ráðh. sjálfur telur þess þörf, og verður þá bæjarsjóður að kosta skrifstofuna að sínu leyti, þó hún sé stofnuð og starfi í óþökk bæjarstjórnarinnar.

Í 2. gr. frv. (8. lið), þar sem ákveðið er hlutverk skrifstofunnar, segir, að hún „skuli inna af höndum þau störf, sem henni kunna að vera falin með lögum eða reglugerðum“. Þetta ákvæði felur í sér, að starf skrifstofunnar fer ekki eftir ákvörðunum hlutaðeigandi bæjastj. því ekki gefa þær út lög eða reglugerðir, það verður aðeins gert af Alþ. eða ríkisstj. Má því eftir þessu fela skrifstofunni ýms verk, sem bæjarstjórn óskar ekki eftir og unnin verða því á kostnað bæjarsjóðs í greinilegri óþökk bæjarbúa. Er það því algerlega á valdi ráðh., hver verk skrifstofunni verður falið að vinna. Þá er og ákveðið í 2. gr. (4. lið), að skrifstofan skuli fylgjast með atvinnuháttum og safna skýrslum, er óvíst, hvort þessi liður takmarkast við viðkomandi bæjarfélag, eða hvort ráðh. getur falið skrifstofunni, ef honum býður svo við að horfa, að rannsaka atvinnuhætti í öðrum kaupstöðum, héruðum eða jafnvel í öðrum löndum. Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni, að stofnanir þessar þyrftu ekki að verða svo mjög dýrar, þar sem það væri á valdi bæjarstjórna að ákveða laun stjórnarmanna, og bæjarstjórn ákvæði framlag til skrifstofunnar. Við þetta er það að athuga, að stjórn skrifstofunnar ákveður starfsmannahald og launakjör, og er því síður en svo, að bæjarstjórn viti, hve mikill kostnaður getur orðið í sambandi við þessa skrifstofu.

Ég fyrir mitt leyti tel engan vafa á, að frv. þetta er fram komið til höfuðs þeirri tilraun, sem bæjarstjórn Rvíkur hefir gert, og sósíalistarnir hafa enn sem komið er enga ástæðu til að vefengja hlutlaust starf þeirrar skrifstofu. Eru líkur til, að ráðh. þeirra eigi eftir að sitja lengur í stjórn, og virðist því ærinn tími til að koma síðar með frv. þessa efnis, til lagfæringar, ef þeim þætti svo þurfa, þegar reynsla er fengin um starf skrifstofu bæjarins.