19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

7. mál, gengisviðauki

Magnús Jónsson:

Ég hefi gert ágreining í n. um það, að mér hefði fundist eðlilegast, að lög þessi hefðu verið samþ. óbreytt frá því, sem þau voru. Mér finnst það á engan hátt rétt, meðan verið er að hækka skatta og tolla og fjölga þeim, skuli kaffi- og sykurtollurinn vera tekinn út úr og lækkaður svo verulega. Það má kannske kalla þessar vörur nauðsynjavörur, en þó er það nú svo, að þetta eru vörur, sem hver maður getur a. m. k. minnkað við sig sér að skaðlausu, fremur en matvæli eða klæði. Menn geta dregið úr notkun þessarar vöru, aðeins ef þeir vilja leggja það á sig. Og þegar t. d. benzíntollurinn er tvöfaldaður, tollur á vöru, sem er ein nauðsynlegasta vara fyrir framleiðsluna, þá sé ég ekki ástæðu til að fella niður gengisviðauka á þessum tolli. Ég held, að réttara væri að létta einhverjum sköttum af hinni þrautpíndu framleiðslu. Ég skyldi að vísu vera með þessari lækkun, ef hægt væri að lækka skatt, og tolla yfirleitt, en ég tel ekki forsvaranlegt að lækka þennan toll meðan allar aðrar álögur hækka. Þessi lækkun nemur heldur engu smáræði fyrir ríkissjóð. Tollur þessi hefir numið um 1 millj. króna á ári, og nú á hann að lækka um 20%, eða 200 þús. kr. Ég get því alls ekki talið þessa lækkun forsvaranlega.