06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

26. mál, vinnumiðlun

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði síðast í ræðu sinni. Það var ekkert annað en orðagjálfur, sem hann hefir annaðhvort fundið upp sjálfur eða lært af einhverjum flokksbróður sínum, og hefir það ekki við hin minnstu rök að styðjast.

Út af fyrirspurn hans um það, hvort ríkisstj. ætli sér að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofu í öllum kaupstöðum landsins, skal ég segja það, að ég er ekki viðbúinn að svara því núna. Að gera ráð fyrir því, ef frv. verður að l., að það hafi nokkurn verulegan kostnað í för með sér utan Rvíkur, er einungis grýla, sem þessi hv. þm. býr sér til. Ef hann hefir lesið 3. gr., en þar stendur: „Laun stjórnarmanna skulu ákveðin af hlutaðeigandi bæjarstjórn með samþykki atvinnumálaráðherra“, þá mun honum skiljast, að kostnaðurinn getur aldrei orðið verulegur, því ekki munu bæjarstj. fara að ausa fé að óþörfu. Um mannahald utan Rvíkur er varla að ræða. En það er auðvitað annað mál hér í Rvík, enda kostar sú skrifstofa, sem er hér, mikið fé.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það, að skipa oddamanninn, væri sama og að skipa stj. alla. Ég skal nú ekki bera brigður á það. Ég vil benda á það, að það er óvíst, hver verður atvmrh. í framtíðinni. Og ennfremur vil ég benda á það, að fjölmargar n., sem hafa hliðstæð verkefni með höndum, eru skipaðar á þennan hátt, og hefir hv. 1. þm. Reykv. eða aðrir ekki haft neitt við það að athuga. Ég veit ekki betur en að skólan. og skattan. séu skipaðar á þennan hátt. Í Rvík er t. d. niðurjöfnunarn. skipuð eftir þessari reglu. Þar er skattstjórinn oddamaður. Ég gæti rakið fleiri dæmi, en ég hirði ekki um að gera það.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf. um það, hvort fella ætti niður styrk til „Fulltrúaráðsins“, ef frv. yrði að l. Ég álít, að það væri rétt, því þá er ekki lengur verkefni fyrir þá skrifstofu hér. Ég er ekki viðbúinn að svara því, hvort sérstök vinnumiðlunarskrifstofa verður sett á stofn fyrir kvenfólk. En ef það verður, þá mun kostnaðurinn ekki verða neitt stórkostlegur við það. Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira núna.