01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki lengja mikið umr., en aðeins svara nokkuð því, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. Hann heldur því enn fram af miklum móði, að vafasamt sé, að það, sem farið er fram á með frv.. geti staðizt, vegna þess, að í því feldist svik við þá, sem treystu á þessi undanþáguákvæði, sem hér er nú deilt um. Ég sagði áðan, að þetta hefði verið borið undir lögfræðingana í stjórnarráðinu, þegar ráðgazt var um það, hvaða leið skyldi hér farin. Og ég vil svo benda á það, að í meiri hl. fjhn., sem leggur til, að máli þessu verði hrundið áfram, á sæti einn lögfræðingur, og ég á bágt með að trúa því, að ef hann hefir álitið þetta svo hættulegt sem hv. þm. talar um, að hann hafi þá ekki séð ástæðu til þess að vara við því í þessari d. - Út af því, að hér sé um svik að ræða gagnvart þeim, sem treystu á undanþáguákvæðin, vil ég benda á það, eins og ég hefi reyndar gert áður, að svo er ekki, vegna þess, að í raun og veru var undanþágan gerð að engu fyrir fyrirtækin sjálf með lagabreyt. 1931. Fram að þeirri lagabreyt. voru þessar undanþágur fyrir fyrirtæki, sem stofnsett voru fyrir 1. jan. 1927. Þá var um að ræða afarmikil hlunnindi fyrir þessi eldri fyrirtæki, og þannig var þetta upphaflega hugsað. En ef þetta, sem farið er fram á með þessu frv., eru svik við þau félög, sem treystu á undanþáguákvæðin eins og þau eru nú, hvað má þá segja um það, sem gert var á þingi 1931, þegar þau fyrirtæki, sem stofnsett voru fyrir 1. jan. 1927, voru svipt þeim sérstöku hlunnindum, sem þau höfðu eftir þessari löggjöf? Þau hefðu þá eftir þessu getað treyst á það, að þessi miklu hlunnindi fyrir þau yrðu óskert til ársloka 1935. En þau eru raunverulega ekki óskert, vegna þess, að um leið og þessi hlunnindi eru gerð almenn, eru það ekki hlunnindi nema að mjög litlu leyti, af því að fyrirtækin hafa þá orðið jafna aðstöðu. Það, sem gefur einstökum fyrirtækjum hlunnindaaðstöðu, er það, að greiða lægri tolla heldur en önnur fyrirtæki, sem starfa í sömu grein. Þau hafa þá aðstöðu til að taka til sín þennan mismun á þeim tollum, sem það þarf að greiða, og þeim, sem önnur fyrirtæki þurfa að greiða. Þess vegna lít ég svo á, að það, sem hér er um að ræða, geti ekki talizt til brigðmælgi, því þó staðið hefði í l., að þessar almennu undanþágur skyldu gilda til ársloka 1935, þá var það ekki neinn samningur, heldur l., sem Alþingi hlýtur að geta breytt. - Annars býst ég ekki við því, þó haldið verði áfram að pexa um þetta atriði, að á því fáist nokkur úrskurður.

Um það, að þessi hækkun, sem hér er farið fram á, að gerð sé á öltollinum, hafi í för með sér svo mikla neyzluminnkun, að hækkunin valdi ekki neinum tekjuauka til ríkissjóðs, vil ég segja það, að það, sem fram hefir komið um þetta hjá andstæðingum frv., er ekki á fullum rökum reist. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það sem einhverja fjarstæðu hjá mér, að vilja hafa það sem sérstakt sjónarmið, að þessi vara væri ekki eins hátt tolluð eins og ýms önnur vara, sem væri álíka nauðsynleg. Hann vildi segja, að alls ekki ætti að taka þetta sjónarmið til greina, heldur það eitt, hvað varan gæti gefið í tolla, hvað mikið mætti hækka tollana til þess að hún héldi áfram að seljast. Eftir þessari kenningu hv. þm. ætti að leggja mest á þær vörur, sem menn gætu ómögulega án verið, því það væri öruggasta leiðin til þess að pína tollana út, og það er hið eina sjónarmið, sem þessi hv. þm. hefir. En ég álít, að hér þurfi að taka tvö sjónarmið til greina, það fyrra, að skipa tollunum niður á vörur eftir því, hvort þær eru þarfar eða óþarfar, og það síðara, hverjar líkur eru til, að varan gefi þann toll, sem hún raunverulega á að gefa eftir áætlun. Fyrra sjónarmiðið mælir ákveðið með því, að hækkaður sé tollur á vörum, en um síðara sjónarmiðið getur náttúrlega enginn okkar sagt með vissu, hvort muni verða til þess að draga úr neyzlu eða ekki, en ég þykist hafa fært fullar líkur fyrir því, að þessi 51/3 eyr., sem á að bæta á hverja ölflösku, þurfi ekki að koma sem hækkun á verði, heldur sem lækkun í smásöluálagningu, og að nokkru á fyrirtækinu sjálfu, sem hér á hlut að máli.

Ég hefi nú fært fram þau rök, sem ég vil láta fram koma, og býst því ekki við að taka til máls meira.