08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það sýnist mega vera áhyggjuefni öllum þeim, sem með bæjar- og sveitarmálefni fara í landinu, að fram er komið frv. á Alþingi, sem gengur svo mjög á þann eina tekjustofn, sem þessir aðilar hafa, eins og það frv., sem hér liggur nú fyrir. Hæstv. fjmrh. sagði að vísu, að það væri rangt að segja, að með þessu frv. væri sérstaklega gengið á tekjustofn bæjar- og sveitarsjóða, því að það væri augljóst mál, að hvergi væri tekjur að hafa handa ríkissjóði annarsstaðar en af tekjum landsmanna yfirleitt, og því gilti nokkuð einu, að því er mér skildist, hvar væri borið niður.

Þetta er ekki rétt, enda kom það í ljós síðar í ræðu hæstv. fjmrh., að hann veit sjálfur og viðurkennir, að svo er ekki. Hann sagði, að stighækkun skattstigans í þessu frv. á hærri tekjum væri ekki eins mikil og verið hefði, og væri það með sérstöku tilliti til þess, að bæjar- og sveitarfélög, sérstaklega Rvíkurbær, legðu útsvör á eftir mjög stighækkandi skala. Það væri óþarfi fyrir hæstv. ráðh. að taka tillit til þessa, ef ekki væri svo, að með hækkun tekjuskatts gengi ríkissjóður á tekjustofna bæjar og sveitarfélaga. Hitt játa ég vitanlega með hæstv. ráðh., að hvernig sem skattar eru á lagðir, eru þeir teknir af tekjum skattþegnanna. Af öðru er ekki hægt að gjalda heldur en framleiðslu hvers árs, nema um lánsfé frá öðrum þjóðum sé að ræða. Þetta má því vera mikið áhyggjuefni þeim, sem fara með málefni sveita og bæja, ekki sízt þeim, sem fara með málefni Rvíkur, þar sem 7/10 af öllum beinum sköttum til ríkissjóðs koma frá Rvíkingum. Og þó má e. t. v. segja, að það geti verið annarsstaðar ennþá meira áhyggjuefni, því svo mun ástatt í ýmsum sveitar- og bæjarfél., að þau þurfa ennþá dýpra í vasa gjaldenda sinna heldur en Rvíkurbær.

Mér finnst því alls ekki viðunandi, að Alþ. geri þá breyt. á skattalöggjöfinni, sem hér er farið fram á, að því órannsökuðu, hvað miklir beinir skattar hvíla alls á skattþegnum þessa lands, sérstaklega í kaupstöðunum. Við rannsókn mundi að mínu áliti koma í ljós, að þeir væru þegar orðnir óhæfilega háir. Ég vil skora fastlega á hv. fjhn., sem fær vafalaust þetta mál til athugunar, að gefa hv. þd. yfirlit yfir það, þegar hún skilar áliti sínu, hvernig skattgreiðslum manna í kaupstöðum landsins yrði háttað, að þessu frv. samþykktu, þegar bæði er tekið tillit til tekju- og eignarskatts og útsvara. Ég er viss um, að þá myndi mörgum hv. þdm. blöskra og verða sammála þeim mönnum, sem haldið hafa fram, að ekki sé þess að vænta, að auknar tekjur fáist óendanlega af þessum gjaldstofni.

Mér þykir það líka ískyggilegt við þetta frv., að þótt með því eigi að lögfesta hækkun á tekju- og eignarskatti til frambúðar, þá er um leið opnuð leið til breyt. á hverju þingi, þar sem ætlazt er til, að um leið og frv. er samþ. sé stj. heimilað að bæta 10% við skattinn á árinu 1935. Það verður þá alveg eins hægt að hækka skattinn um 20% á næsta þingi o. s. frv. o. s. frv., allt eftir því, hvað þingmeirihlutanum dettur í hug í hvert skipti. Þetta skapar óþolandi og óviðunandi óvissu, skattþegnar verða að vita frá ári til árs, hvað þeir mega búast við að þurfa að greiða. Með svo stórfelldri skatthækkun sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, ætti að vera útilokað, að þessu þurfi að haga eftir ákvörðun þingmeirihlutans í hvert skipti.

Ég vænti þess svo, að hv. n. verði við þeirri ósk minni, að láta d. í té upplýsingar um skattgreiðslur manna í heild í kaupstöðum landsins, þegar hún skilar áliti sínu.