09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Ég get fyrst lýst yfir því, að þótt hinn stighækkandi skattur væri enn hækkaður töluvert, þá myndi ég fylgja frv. Það er því sjálfsagður hlutur, að eins og nú er fylgi ég því. Ég mun ekki koma með brtt. í hækkunarátt, en ekki er það fjarri mér að gera það.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi halda því fram, að tekju- og eignarskatturinn samkv. frv. yrði sérskattur á Rvík. Þessu hefir verið svarað af hv. þm. V.-Ísf., en ég vil aðeins benda hv. 3. þm. Reykv. á að lesa þá skýrslu, sem prentuð er í Alþt. frá 1932, bls. 942 og áfram, þar sem hann getur séð skattskyldar eignir hinna einstöku hreppa og sýslufélaga ásamt skattskyldum tekjum. Beri hann síðan saman mat eigna í þessum skýrslum, mun hann sjá, að það er ekkert undarlegt, þótt það kjördæmi, sem á 60 millj. af öllum eignunum og hefir 35 millj. tekjur af öllum tekjunum fái mestan skatt á sig. Miðað við fólksfjöldann koma 1200 kr. tekjur á mann, en víða annarsstaðar ekki nema 400-600 kr. Af þeirri ástæðu, að hér eru mestar tekjurnar og mestar eignirnar, hlýtur mestur hluti hins hækkaða skatts að koma niður á Rvík, eins og það á líka að vera, vegna þess að það á að miða við greiðslugetu manna, eins og hv. þm. réttilega sagði. Það er því algerlega rangt hjá honum, að um sérskatt sé að ræða, vegna þess að hann lagði til grundvallar rangar forsendur.

Ég á hér tvær litlar brtt. Önnur er við brtt. frá hæstv. fjmrh., þar sem hann leggur til, að eftirgjöf, sem félög fái vegna taps, nái til 3 ára, en ég legg til, að ekki skuli miðað við nema 2 síðustu árin. Ég tel alveg nægilegt, að þetta verki einungis tvö ár aftur í tímann, enda er það léttara, þægilegra og skemmtilegra á allan hátt. Hin brtt. fjallar um það, að ég get ekki fallizt á það, sem hv. þm. V.-Ísf. minntist á, að farið sé að leyfa Reykvíkingum hærri persónufrádrátt en öðrum landsmönnum. Þetta nær ekki nokkurri átt. Ég skal fúslega viðurkenna, að hér er e. t. v. dýrara að lifa en annarsstaðar á landinu, því hér eru aðrar lífsþarfir, en það sýnir sig, að þrátt fyrir það er sótzt eftir að flytjast hingað. Og að fara svo að veita mönnum fyrir slíkt ívilnun í skatti, það nær ekki nokkurri einustu átt. Ég hefi því komið fram með brtt. um það, að frádrátturinn sé jafn hjá öllum landsmönnum, hvar sem þeir nú eru búsettir á landinu, og eins og hann var í l. frá 1921. Það hefir sýnt sig, að þessi frádráttur er nægilegur til þess að lifa af og framfæra fjölskyldu á úti um sveitir landsins, og er þá ekki ástæða til að vera að hækka hann. Þó gæti það komið til mála, ef einhverjum þætti ég fara þarna of langt niður, að ég gæti gengið að því að hækka persónufrádráttinn fyrir alla jafnt, en alls ekki með því móti, að einstaklingum í einu lögsagnarumdæmi sé veitt leyfi til þess að hafa meiri frádrátt en öðrum (ÁÁ: Hvað kostar mjólkurlítrinn í sveitinni?) 25 aura. (ÁÁ: Og hér í Rvík?) 40 aura, en hann er enn dýrari sumstaðar annarsstaðar á landinu. Hér er líka kaupgjaldið 1,35 kr. pr. kl.stund. En hvað reynist, þegar farið er að reikna út kaup bóndans? Í sveitunum hafa menn bæði lengri vinnutíma og lægra kaup. Af þessum ástæðum hefi ég borið þessar brtt. fram. Vona ég, að menn sjái, að við eigum ekki hér á Alþ. að stuðla að því, að gefa einstökum mönnum og einstökum landshlutum sérréttindi, en það er gert með því að hafa frádráttinn misjafnan.