15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég þarf í raun og veru ekki að gera stórvægilegar aths. út af þeim brtt., sem hér liggja fyrir í hv. d., sumpart af því að hv. 3. þm. Reykv., sem er fyrsti flm. þeirrar brtt., sem við 4 fjhnm. flytjum á þskj. 432, hefir gert grein fyrir þeim brtt., svo að ég hefi engu þar við að bæta, og sumpart af hinu, að þær umr., sem hafa orðið um aðrar brtt., sem fyrir liggja, hafa ekki gefið mér mikið tilefni til aths. Þó vil ég með fáum orðum minnast á sumar þeirra eða kannske flestar, aðeins til þess að taka fram, hvaða afstöðu a. m. k. ég og hv. 3. þm. Reykv. höfum til þeirra tillagna.

Um till. hv. þm. Hafnf. á þskj. 421, þ. e. a. s. 2. till. hans, vil ég segja það, að ég hygg, að um hana megi segja það sama og um till. hv. þm. Snæf., að sjálfsagt er hvorug þeirra í rauninni réttlát. Og það er af því, sem hæstv. fjmrh. talaði um í sinni ræðu, að það er dýrara að afla sér sömu lífsþæginda hér í Rvík heldur en annarsstaðar. Það er sérstök ástæða til að taka Rvík eina út úr í því sambandi. Samt sem áður, þótt þessar brtt. bæti ekki úr réttlætinu, þá miða þær báðar, bæði brtt. hv. þm. Hafnf. og brtt. hv. þm. Snæf., að því að létta af skattborgurunum þeim óhæfilega þunga, sem á þá er lagður með þessum l. Út frá því sjónarmiði mun ég greiða atkv. með báðum þessum brtt., en eingöngu út frá því sjónarmiði. Um hina brtt. hv. þm. Hafnf., á þskj. 426, get ég að mestu leyti tekið undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um hana. Hún er allt annars eðlis og geróskyld þeim till., sem hann ásamt mér flutti hér við 2. umr. þessa máls. Fyrir okkur vakti þá það, að tryggja hagsmuni sveitar- og bæjarfél. með skiptingu þeirra tekna, sem af frv. leiða eins og það liggur fyrir, því að með hækkun tekju- og eignarskattsins var svo mjög gengið á rétt sveitar- og bæjarfél. um tekjuöflun þeim til handa með útsvörum. Þetta var gert í viðurkenningu þess sannleika, að áður en skatturinn er hækkaður, er þegar komið í ljós, að bæjar- og sveitarfél. geta blátt áfram ekki uppfyllt tekjuþörf sína með útsvarsálagningu. Það er því augljós sannleiki, að þegar búið er enn á ný að hækka tekju- og eignarskattinn, þá bresta þær stoðir gersamlega undan sveitar- og bæjarfél. En með brtt. hv. þm. Hafnf. er hinsvegar farið fram á, að eftir að ríkið er búið að rýja skattþegnana á þann hátt, sem frv. mælir fyrir, til sinna þarfa, þá mega hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfél., ef þau óska þess, beita þessari tekjuöflun bæjar- eða sveitarsjóðum til handa. Þessi leið ræður enga bót á því meini, sem við ætluðum að bæta og er eingöngu önnur leið til útsvarsálagningar fyrir hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfél. en nú er farin. Ég sé ekki, að sveitar- eða bæjarfélögin fái á nokkurn hátt bætta aðstöðu með álagning beinna skatta, þó að þessi till. verði samþ. Mér sýnist að því er Rvík áhrærir, að breyt. engin vera önnur en sú, að ef nokkur hluti þeirrar fjárhæðar, sem annars er aflað með útsvörum, er tekin á þennan hátt, þá sé, að svo miklu leyti sem tekjur koma inn með þessu móti, hinum hærri tekjum heldur ívilnað. Og það er af því, að stiginn, sem niðurjöfnunarn. hér í Rvík fer eftir við úthlutun útsvara, er hærri á háum tekjum heldur en stiginn, sem lagður er til grundvallar í frv. Ég held því, að hér sé alveg skotið framhjá markinu, að hér sé á engan hátt bætt aðstaða bæjar- og sveitarsjóða. Það er engu um þokað, að öðru leyti en því, að nokkur hluti útsvaranna er tekinn með annari aðferð, sem a. m. k. hér í Rvík hlífir háum tekjum meira en áður. Þess vegna greiði ég atkv. á móti þessari till. Hv. þm. Hafnf. taldi henni það til gildis, að hún hefði verið þrauthugsuð af fleirum en sér, og vitnaði í það, að hæstv. núv. atvmrh. hefði einu sinni borið fram svipaða till. Það er nú auðvitað enginn hæstiréttur fyrir okkur suma hér í d., þó hæstv. atvmrh. hafi einhverntíma borið svipað fram, meðan hann bar enga ábyrgð á stjórnartaumunum. Og ég vil benda hv. þm. Hafnf. á það, að þessi till. hæstv. núv. atvmrh. var um 50% álagningu á tekju- og eignarskatt, sem leggja átti á eftir öðrum og lægri skattstiga heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil ennfremur segja það út af hugleiðingum hv. þm. Hafnf. út af þessari till. hans, að ég held, að hann fari villur vegar, þegar hann telur, að með þessu móti geti hann girt fyrir, að bæjarfél. gangi lengra inn á þá braut heldur en þegar er komið, að leggja á vörugjöld, sem ekki eru annað en útflutningsgjald af framleiðsluvörum og tollur af neysluvörum. Og það er af því, að reynslan hefir sýnt, að beinu skattarnir eru orðnir svo háir áður en þessi hækkun kemur til, að bæirnir hafa neyðzt til að fara inn á þessa braut, m. a. Rvík, undir forustu hæstv. núv. fjmrh., sem þá var formaður niðurjöfnunarn. Hv. þm. mega því ekki lifa í þeim hillingum, að þetta gjald geti komið í staðinn fyrir vörugjald; hér er aðeins um að ræða breyt. á aðferð, og það sáralitla breyt., við beitingu beinna skatta.

Um þær brtt., sem hv. 2. þm. Reykv. flytur á þskj. 404, þarf ég lítið að segja, því ég er honum sammála um flest, sem hann sagði. Merkilegust er fyrsta till., sem er við 10. gr. Hún hnígur að því að nema burt agnúa, sem var á brtt. þeirri, er fjhn. öll flutti við 2. umr. og hné að mjög merkilegri leiðréttingu á einu veigamesta atriði allrar þessarar löggjafar, þ. e. a. s. gerði atvinnurekendum þessa lands kleift að létta að nokkru leyti af sér afleiðingum hins misjafna atvinnuárferðis. Sá agnúi var á till. n., að þetta ætti ekki að koma til framkvæmda fyrr en varasjóður fyrirtækjanna væri uppétinn. Það er mjög veigamikill galli, sem hv. þm. fer nú fram á, að leiðréttur sé. Enda þótt sá böggull fylgi skammrifi, að hann vill ekki láta þennan jöfnuð ná nema til þriggja samliggjandi ára, tel ég till. samt til mikilla bóta og mun greiða henni atkv. ásamt öðrum brtt. á sama þskj.

Um brtt. hv. þm. Snæf. á þskj. 438 hefi ég þegar talað í sambandi við till. hv. þm. Hafnf. á þskj. 431. Ég tel þessa till. út af fyrir sig ekki réttláta, en hún er að því leyti til bóta, að hún léttir á vissum skattborgurum það ok, sem á þá er lagt með þessum 1., og mun ég því greiða henni atkv. Sömuleiðis mun ég greiða atkv. brtt. sama hv. þm. á þskj. 441. Hann svarar væntanlega sjálfur þeirri staðhæfingu hæstv. fjmrh., að till. sé óþörf vegna þess að í framkvæmdinni hafi þetta verið eins og till. gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðh. veit vafalaust sjálfur, að þetta er ekki rétt hjá honum, og um það eru til óyggjandi gögn, sem hv. þm. væntanlega leggur fram.

Um brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 402 er ég í raun og veru búinn að ræða í sambandi við till. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 404. Þar sem ég er algerlega meðmæltur brtt. hv. 2. þm. Reykv. og þar sem till. hæstv. fjmrh. hnígur alveg í öfuga átt, þá liggur í hlutarins eðli, að ég er henni mótfallinn.

Viðvíkjandi hinni brtt. hæstv. fjmrh., á þskj. 451, er það að segja, að ég tel réttlátt og í raun og veru nauðsynlegt, að skattanefndir geri skattþegnum aðvart, ef þær breyta framtali þeirra. Það er hinn minnsti réttur, sem skattþegn getur farið fram á undir slíkum kringumstæðum. Og ég veit til þess, að skattan. hafa stundum breytt framtali án þess að gera hlutaðeigenda aðvart, og breytt því skakkt, þannig að leiðrétting hefði fengizt, ef lögbundin hefði verið sú skylda, að gera hlutaðeiganda aðvart. Ég er því mótfallinn þessari till.

Um brtt. hv. þm. N.-M. og hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 415 er það að segja, að ég er þeim andvígur, af þeim ástæðum, sem áður hafa komið fram, að það er ekki sanngjarnt, að persónufrádráttur sé hinn sami, hvar sem skattþegninn er búsettur á landinu.

Þá hefi ég lokið þeim aths., sem ég þarf að viðhafa í sambandi við einstakar brtt., sem hér liggja fyrir. En af því að þetta er síðasta umr. málsins hér í d., þá þykir mér rétt að vekja athygli á því áður en ég lýk máli mínu, að bæði hér í d. og blöðum landsins hafa verið gerðar mjög harðvítugar og margítrekaðar tilraunir til þess að telja mönnum trú um, að ég hafi farið með blekkingar í þeim tölum og skýrslum, sem ég hefi fært fram máli mínu til sönnunar. Hæstv. fjmrh. hefir sjálfur gengið fremstur í þeim fullyrðingum, og hann hefir látið sér lítilsigldari menn segja það í nafnlausum greinum, sem hann hefir ekki treyst sér til að bera fram undir sínu eigin nafni. Allt hefir þetta hnigið að því að telja blaðlesendum og áheyrendum trú um, að mínar tölur og ályktanir séu byggðar á fölskum forsendum og séu því tómar blekkingar. (Fjmrh.: Hvenær hefi ég sagt það?). Ég er nú hér með hið merkilega blað „Tímann“ fyrir framan mig. Þar eru greinar eftir hæstv. fjmrh. sjálfan; það er nú það skárra af þeim óþverra, sem þar er fram borinn. Ein þeirra heitir „Tekjuskatturinn og Ólafur Thors“ og birtist 16. okt. Þar stendur m. a.: „Ómögulegt virðist að fá Ólaf til þess að ræða eða rita um þessi mál blekkingarlaust ... Síðar segir svo, þegar birt hefir verið tafla hæstv. ráðh.: „Í töflu þessari er yfirlitið um hundraðstöluhækkunina miðað við skatt á lagðan með 40% álagi eins og gert var árið 1933, m. a. fyrir atbeina Ólafs Thors, og eins og gert verður í ár. Það tel ég hiklaust núverandi ástand ...“ Öll greinin er ádeila á mig og allt, sem ég hefi sagt um þetta mál, út frá þeirri forsendu, að ég hafi gert vísvitandi tilraun til þess að blekkja menn með röngum tölum. Ekki fer betur fyrir þeim, sem fara að reikna eins og ég í þessu efni. Þeir fá e. t. v. ennþá verri dóm af ennþá verri mönnum heldur en hæstv. fjmrh. er þó, og í því sambandi vil ég lesa kafla úr nafnlausri grein, sem birtist 7. nóv.: „Í síðasta tölublaði „Framsóknar“ er ráðizt á tekju- og eignarskattsfrv. stj. mjög á sama hátt og gert hefir verið af Morgunblaðinu og Ólafi Thors og samskonar málfærslu beitt. Birtir blaðið „töflu“, sem ætlað er að sýna mismuninn á skattgreiðslunni eða skatthækkunina, sem í vændum sé. Um töflu þessa er það að segja, að hún er byggð á sama rammskakka grundvelli og útreikningar Ólafs Thors, sem marghraktir hafa verið hér í blaðinu. Skattbreyt. er miðuð við skattlögin frá 1921 og 40% álagsins, eða hinnar raunverulegu skattgreiðslu, hvergi getið í þessu sambandi“. Þetta er aðeins lítið sýnishorn af þeim umr., sem verið hafa um þetta mál af hendi hæstv. fjmrh. og hans málsvara. Og eins og menn veita athygli er öll ádeilan á mig út af því, að ég hefi byggt mína útreikninga og tölur á samanburði á ákvæðum skattlaganna frá 1921 og frv. stj. eins og það liggur hér fyrir. Slíkt hefir verið talin fíflsskapur og blekkingartilraunir. Svo er náttúrlega sagt frá í þessu sama blaði, hvernig hæstv. fjmrh. hafi með sinni alkunnu speki gert mig að athlægi hér í d. (Fjmrh.: Ég held, að hv. þm. hafi hlotið að gera það sjálfur). Ekki er þess getið í „Tímanum“. Það þykir víst mannalegra að láta hæstv. ráðh. vera þann mikla bardagamann, sem alla beygir með rökum sínum og málsnilld. Ókunnugum er ætlað að trúa því, þó þm. viti betur.

Ég hefi áður sýnt fram á, að allur minn málaflutningur er réttur, og fært fyrir því rök, sem aldrei hafa verið hrakin, af því að það er ekki hægt að hrekja þau. En nú langar mig einungis að leggja eina spurningu fyrir hæstv. fjmrh. í þessu sambandi, og ef hann svarar henni undanbragðalaust og hispurslaust, vænti ég, að hann þar með felli fullkominn Salomonsdóm í þessu máli. Mig langar til að spyrja hann, þann mann, sem semur og leggur fyrir Alþ. fjárlagafrv., sem á að sýna rétta mynd af því, hverra tekna megi vænta af hinum mismunandi gjaldstofnum, sem ríkissjóður hefir heimild til að innheimta af sínar tekjur, hvort hann hefir áætlað tekjur af tekjuskattinum eftir l. frá 1921 eins og ég, eða eftir þeim l. að viðbættum 40% álaginu eins og ráðh. nú gerir. Hafi hæstv. ráðh. reiknað tekjurnar, sem ríkissjóði er ætlað að hafa af þessum gjaldstofni, eftir l. frá 1921, þá er hann mér sammála, en þá er líka allt þvættingur, sem hann og peð hans hafa sagt í þessu máli. En hafi hann ekki gert það verður að viðurkenna, að hann hefir frá öndverðu gert skekkju, en ekki byrjað að fara með óhróður og ósannar sagnir í þessu máli, þegar hann þurfti að verja sig og koma sér úr þeirri gildru, sem ég var búinn að koma honum í. Það er nú bezt, að hæstv. ráðh., sem allt af getur talað þegar hann vill, svari þessu, og ég vona, að hann verði fljótur að rannsaka það, hvort það er ég, sem hefi farið með blekkingar í þessu máli, eða hvort það er hann sjálfur. Ég bið menn að vita því athygli, að hann hefir nú aðstöðu til að vera dómari um, ekki einungis hvað ég álít og kann að vera rétt út af fyrir sig, heldur einnig, hvað hann sjálfur áleit áður en hann komst í þann geðofsa, sem ég kom honum í við 1. umr. þessa máls.

Ætla ég svo að tylla mér niður meðan ég hlusta á úrskurð hins mikla fjármálaspekings.