13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.] Mál þetta hefir verið alllengi fyrir landbn. og niðurstaða hefir orðið sú, að n. hefir ekki getað orðið alveg samferða um frv. Að mínu áliti er þó ekki víst nema n. verði það áður en lýkur. Meiri hl. n. vill samþ. frv. óbreytt, a. m. k. við þessa umr., en telur gefa komið til greina athugun fyrir 3. umr. um einstök smáatriði í samræmi við rannsókn í þessu máli, sem framkvæmd er af n. hér í bænum.

Meiri hl. landbn. hefir gert grein fyrir sögu þessa máls í nál. sínu, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um hana. Málið hefir verið lengi á döfinni og nær saga þess langt aftur í tímann. Tilraunir hafa verið gerðar til skipulagningar á mjólkursölunni, en þar hafa ekki tekizt. Hafa það verið sundurlaus átök aðilanna, þar sem einn hefir rifið það niður, sem annar hefir byggt upp. Erfiðleikarnir á lausn málsins hafa vitanlega verið andstæðir hagsmunir framleiðenda annarsvegar og neytenda hér í Rvík og Hafnarfirði hinsvegar. Þar við hefir svo bætzt andstaða milli framleiðenda sjálfra. Það er hægt að skipta framleiðendum í nokkra flokka eftir hagsmunaafstöðu þeirra. Einn sá flokkur eru framleiðendur hér í bænum, sem skiptast í tvo hópa, þá, sem framleiða mjólk með afnotum af ræktuðu landi, og hina, sem nota aðkeypt hey, innlent og útlent, og kjarnfóður. Þessir aðilar hafa ekki nema að nokkru leyti sameiginlegra hagsmuna að gæta. Stjórnin lítur svo á, að þeir, sem framleiða hér mjólk af ræktuðu landi innan lögsagnarumdæmisins og með eigin vinnu, hafi mestan rétt til markaðarins, og á því er það byggt, að þeir skuli fá undanþágu frá verðjöfnunargjaldi. Aftur er álitið, að þeir séu réttlægstir, sem framleiða af aðkeyptu fóðri, bæði heyi og kjarnfóðri. Það er hægt að hugsa sér, að sú framleiðsla gæti aukizt svo mjög, að hún fullnægði þörfinni hér, og væru þá hinir aðrir framleiðendur sviptir sinni atvinnu, sem verður að teljast alveg óviðunandi.

Þá er annar flokkur framleiðenda, sem býr í nágrenni Rvíkur í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þeir hafa næst bezta aðstöðu. Þeir hafa haft í raun og veru samtök með sér í mörg ár, að vísu að ýmsu leyti gölluð, en markmiðið hefir þó verið að gera mjólkina að útgengilegri vöru með því að meðhöndla hana eftir fyllstu kröfum tímans, sem framleiðendur hér í bænum hafa aftur á móti ekki gert. Inn í þetta ræktunarhverfi í nágrenni Rvíkur hefir komið sá fleygur að útgerðarfyrirtæki hér í Rvík hefir hafið þar stóriðju í mjólkurframleiðslu fyrir reikning einnar fjölskyldu, að vísu mjög myndarlega iðju, en þó með þeim galla, að framleiðsla fyrirtækisins svarar til að útrýma afurðum ekki færri en 80 meðalbænda, að því er Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri hefir reiknað út. Stóriðja þessi hefir glæsilegar hliðar hvað ræktun snertir og alla vinnslu mjólkurinnar og stendur í því efni langt framar Reykjavíkuriðjunni, en hefir þjóðfélagslega séð þennan stóra galla, að svipta margt fólk atvinnu. Þetta bú kemst inn undir ramma þessara l., en hinsvegar er auðséð, að ekki er æskilegt, að fleiri slík bú myndist til þess að rýra möguleika almennings. Næst fyrir utan þennan annan hring framleiðenda er þriðja línan, bændur á Suðurlandsundirlendinu og að nokkru leyti í Borgarfirði. Það var vegna þessara héraða, sem Jón Þorláksson beitti sér fyrir járnbraut frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði hér á árunum, og aðalrökin fyrir þeirri braut voru þau, að í þessum héruðum væri svo ódýrt að framleiða mjólk. Hann benti á þá miklu ræktunarmöguleika, sem þar væru, en hinsvegar mikinn markað hér og að það væri ekkert nema vegur, sem vantaði. Járnbraut er að vísu ekki komin enn, en Flóaáveitan er síðan fullgerð og vegir hafa verið lagðir og bifreiðar teknar í notkun, tvö mjólkurbú hafa þar verið reist og mjólkurframleiðslan vex ár frá ári. Þrátt fyrir þessar framfarir hefir þó ekki það takmark náðst enn, sem Jón Þorláksson ætlaði sér að ná með járnbrautinni. Aðstaðan fyrir bændur austan fjalls er erfið enn á einn og annan hátt, m. a. fyrir aðgerðir þeirra manna, sem nær búa markaðinum hér. Hafa neytendur í Rvík því sáralítil not ræktunarinnar í Flóanum, nema aðstaðan sé bætt eins og ætlað er með þessu frv.

Þá mætti segja, að hin fjórða röð framleiðandanna út frá Rvík væru Borgfirðingar, sem ekki senda hingað mjólk daglega, en fá kannske aðstöðu til þess bráðlega og standa þá betur að vígi en bændur austanfjalls. Þó er sýnt, að með aukinni ræktun og bættum samgöngum getur nálega allt Suðurlandsundirlendið, austur að Eyjafjöllum, náð til Rvíkurmarkaðarins. Þegar aðstaða þessara héraða, sem hafa hin góðu ræktunarskilyrði, batnar hvað samgöngur og skipulag snertir, þá fá þeir aðstöðu, sem jafnast við aðstöðu þeirra framleiðenda, sem nær búa markaðinum, en hafa verri ræktunarskilyrði; þá hrífst hér mjólkurstríð. Það er aðeins tímaspursmál, hvenær það kemur, ef málið verður ekki skipulagt. Það er aðeins tímaspursmál, hvenær framleiðendur austan fjalls og Borgfirðingar taka til sinna ráða. Ég get ekki betur séð, þegar samgöngurnar batna, en að bændurnir, sem framleiða nú mjólkina fyrir 11 og l2 aura, geti hafin hér mjólkurstríð, sem yrði ægilegt fyrir framleiðendur hér í Rvík og grennd, sem leitt gæti meira að segja til þess, að öll framleiðsla hér eyðilegðist. Bændurnir fyrir austan hafa greiðan aðgang að markaðinum hér 8 mánuði ársins, er samgöngurnar batna. Og þeir gætu með sínum lága framleiðslukostnaði og bættu sölufyrirkomulagi lækkað mjólkurverðið að miklum mun. Hvernig færi þá fyrir framleiðendum hér í Rvík og grennd? Hvernig færu þeir að með sinn mikla framleiðslukostnað? Hvernig færi Thor Jensen? Af þessu mundi leiða svo stórfellda röskun á atvinnulífi þessa fjölda manna, að margir þeirra gætu orðið eignalausir. Það er ekki gott að sjá, hve lengi þetta stríð stæði eða hvernig því lyki, en afleiðingarnar yrðu alvarlegar.

Með mjólkursölulögunum á að koma á skynsamlegu fyrirkomulagi á framleiðslunni og sölu hennar bæði nær og fjær. Á hinn bóginn er þetta skipulag ekki eingöngu miðað við hagsmuni framleiðenda, heldur einnig neytenda. Með þeirri tilraun, sem hér er gerð, eru í fyrsta skipti gerðar ráðstafanir til þess, að kaupendur mjólkurinnar hafi eitthvað að segja, þó framleiðendur hafi meiri hl. í þeirri n., sem á að fara með málið. Þetta samstarf framleiðenda og neytenda er án efa spor í rétta átt, og ég held, að það sé ekki nein tilviljun, að það er stigið einmitt nú. Að vísu var í fyrra gerð virðingarverð tilraun í hv. Nd. til þess að koma á slíkri samvinnu sem þessari milli hinna tveggja aðila, en því frv. var spillt hér í hv. Ed. og niðurstaðan varð sú, að kosin var n. til að rannsaka málið. Nm. voru ókunnugir málinu og höfðu ekki aðstöðu til að þekkja rök þess. Að nokkru leyti voru þó bráðabirgðalögin reist á niðurstöðum þessarar n., en fyrst og fremst á þeim grundvelli, að báðir aðilar leysi málið. Á þeim grundvelli verður þetta mál annaðhvort að standa eða falla. Það þýðir hvorki að byggja á hreinum framleiðendagrundvelli eða á hreinum neytendagrundvelli; það þýðir ekki að ætla að byggja lausn málsins á sérhagsmunum einstakra stétta. Þetta spor sýnir, að málið er að þokast á hærri sjónarhæð, og ég hygg, að það sé ástæða til að láta ánægju í ljós yfir því, hve hæstv. forsrh. hefir vel tekizt að nálgast það takmark að gera báða aðila ánægða og miðla málum milli þeirra. Þó það tækist að vísu ekki til fulls strax, þá er fyllsta ástæða til að viðurkenna, að það tókst vonum betur, og má því ætla, að það samkomulag geti orðið grundvöllur hins bætta skipulags, hinn nýi samvinnugrundvöllur, sem hæstv. landbrh, byggði bráðabirgðalögin á. Það er ennfremur full ástæða til að vona, að málsvarar gömlu aðferðarinnar, fulltrúar sérhagsmunanna, fái ekki að fleyga málið og vinna því tjón, eins og þeir gerðu við mjólkurlagafrv. í fyrra eftir að það hafði komizt gegnum á umr. í þinginu.