10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

Kosningar

Ólafur Thors:

Ég vildi gjarnan, að það kæmi skýrt í ljós áður en kosning fer fram, hvort það er álit stjórnarflokkanna, að það beri að aðhyllast þá grundvallarreglu, að hver þingflokkur hafi fulltrúa fyrir sig í nefndinni, án tillits til þess, hvort hann hefir atkvæðamagn til þess að koma þar að manni. Og hvort þeirri reglu beri að fylgja á meðan þingflokkar eru ekki fleiri en fulltrúar þeir, sem skipa á í nefndina.

Ég get ekki neitað því, að afstaða Sjálfstfl. í þessu máli veltur á því, hvort þetta á að vera grundvallarregla við þessa nefndarkosningu framvegis. Ég óska, að stjórnarflokkarnir láti í ljós álit sitt á þessu. Það er auðvitað, að ef sú ástæða er viðurkennd, þá er eðlilegt, að Sjálfstfl., sem á að afhenda annað sæti sitt samkvæmt þessari sanngirniskröfu, vilji að fleiri dæmi um það en hann sjálfur, og bindandi ákvörðun sé tekin um það.