09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Jón Baldvinason [óyfirl.]:

Það er ekki hægt að neita því, að þær hömlur, sem hafa verið á innflutningi nú um langt skeið, eru hvumleiðar og hafa ýmsa ókosti í för með sér, og það hefir verið mjög mikil andstaða hér á landi gegn þeim, og þá fyrst og fremst af hálfu kaupmannastéttarinnar. En þegar allar þjóðir eru búnar að taka upp þessa haftastefnu, þá sé ég ekki, hvernig við ættum að komast hjá því. Svo er annað í sambandi við okkar eigin afkomu, og það er um sölu afurða okkar til Suðurlanda. Af þeim þjóðum erum við neyddir til að kaupa vörur, þó að þær séu dýrari heldur en að kaupa þær frá öðrum þjóðum. Það má segja, að það þýði það, að við fáum minna fyrir fiskinn með þessu móti, en við verðum að vinna það til, því að þá væri kaupgetan engin við útlönd, ef við fengjum ekkert fyrir fiskinn. Þess vegna erum við neyddir til að halda þessum hömlum. Það erfiða ástand, sem er um sölu okkar afurða og að hafa til gjaldeyri til þess að kaupa fyrir vörur til atvinnurekstrar okkar og borga af skuldum, gerir það að verkum, að við getum ekki staðið frjálsir að þessum hlutum, og þar sem þessi haftastefna er líka svo mikið uppi í heiminum. En ég get þó fyllilega játað þá ókosti, sem þessi innflutningshöft hafa í för með sér.