21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Guðmundsson:

Ég lít svo á, að öll ágreiningsatriði þessa máls snerti nú orðið aðeins sölusvæði Rvíkur, en taki ekki mjög til annara landshluta. Ég mun því ekki gera þau atriði að umtalsefni hér.

Ég vildi hinsvegar vekja athygli á villu í 3. brtt. á þskj. 553, þar sem stendur „samkv. 2. gr. 2. málsl.“ Hér mun eiga að standa „Málsgrein“, en ekki „málslið“. Ennfremur vildi ég spyrja að því, hvort líka sé um prentvillu að ræða í 1. og 2. málsgr. 3. brtt., þar sem stendur „i kaupstað eða kaupstöðum“. Mér hefir dottið í hug, að þarna ætti að standa „kauptúnum“, en ekki „kaupstöðum“, og vildi gjarnan fá skýringu á þessu.

Þá veit ég ekki, hvort það er með vilja gert að fella niður orðið „viðurkennd“ á undan „mjólkurbú“, en þess er krafizt í frv. annarsstaðar, að mjólkurbúin séu viðurkennd. Orð þetta mun því hafa fallið niður af vangá.

Loks á ég mjög erfitt með að skilja 3. málsgr. 3. brtt. á þskj. 553, og væri æskilegt að heyra á henni nánari skýringar. Annars er frv. þetta allt eitthvert hið mesta torf, sem ég hefi lesið. Orðalagið er allt svo óskýrt og óhöndulegt, að ekki veitti af að semja það allt upp að nýju, ekki til að gera á því efnisbreyt., heldur til þess að fá á það skýrt og gott mál, enda verður frv. án efa breytt í Nd.

Ég er hissa á því, að hv. 4. landsk. skuli leggjast svo mjög á móti 4. brtt., um það, að bílstjóri, sem flytur vísvitandi óleyfilega mjólk inn á sölusvæði, skuli sæta ábyrgð eða sektum. Mér finnst þetta vera svo sjálfsagt, að ekki þurfi um það að deila. Hinsvegar er orðalag brtt. fremur álappalegt þar sem talað er um „ábyrgð og sektir“. Sá maður, sem brotlegur gerist á þennan hátt, sætir auðvitað engri annari ábyrgð en sektum, en þeim finnst mér hann líka vera vel kominn að fyrir vísvitandi lagabrot.

Annars skal ég taka það fram, að ég er samþykkur grundvallarhugsun frv. En þar sem hér er um lítið annað en heimild að ræða, veltur allt á því, hvernig lögin verða framkvæmd. Takist sú framkvæmd vel, geta lögin orðið til mikilla bóta, en hinsvegar til spillis, ef þeim er beitt með hlutdrægni.