29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

5. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. færði þau rök fyrir því, að nauðsynlegt væri að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, að það kæmi svo ranglátlega niður. Það væri aðeins nokkur hluti bændanna, sem greiddi það, sá hluti þeirra, sem seldi afurðir sínar á erlendum markaði. Ég er nú hræddur um, að þau séu fá byggðarlögin, sem ekki selja eitthvað af búsafurðum sínum til útlanda, svo þessi ástæða verður að teljast harla veigalítil.

Sé hér um að ræða ósamræmi á milli bændastéttarinnar í þessum efnum, þá ætti að vera auðvelt að leiðrétta það nú í sambandi við l. um sölu sláturfjárafurða, sem nú eru á leiðinni gegnum þingið. Þó að því svo kunni að vera, að einhverjir bændur greiði eitthvað meira af útflutningsgjaldinu en aðrir, þá er það engin ástæða til þess að ganga á móti því réttlætismáli sjávarútvegsins, að fella einnig niður útflutningsgjaldið af sjávarafurðum. Hvernig sem á mál þetta er litið, þá er það ekki frambærilegt að halda því fram, að það eigi að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum fyrir þær sakir einar, að einn bóndinn borgi kannske eitthvað lítið meira en annar. Hitt er annað mál, að útflutningsgjald, hvort sem er af sjávarafurðum eða landbúnaðarafurðum, er sá gjaldstofn, sem ætti að fella niður, því að það mun nær einsdæmi, að nokkur þjóð taki jafnhátt gjald af útfluttum afurðum sínum eins og við Íslendingar.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu í dag, þegar hann var að svara hv. frsm. minni hl., að þessi niðurfelling á útflutningsgjaldinu, sem farið er fram á í frv., gæti ekki orðið grundvöllur undir almenna niðurfellingu þessa gjalds, því að þetta væri borið fram sem réttlætismál bænda innbyrðis. Eins og ég hefi sýnt fram á áður, þá er þessi ástæða einskis virði og ekki frambærileg. Verðlagið á kjötinu er með löggjöf verið að jafna á milli bænda, og þá innan handar að jafna þetta smávægilega gjald líka. Það þarf aðeins að vilna þeim eitthvað í, sem selja kjöt sitt á erlendum markaði.

Því verður nú ekki með rökum á móti mælt, að með því að fella niður útflutningsgjald það, sem hér ræðir um, þá er verið að stiga fyrsta sporið til þess að fella gjald þetta almennt niður, og vilji hæstv. stj. og fylgismenn hennar taka rökréttum afleiðingum af þessu spori, þá eru þær annað tveggja, að útflutningsgjaldinu verði varið til einhverra umbóta sjávarútveginum til hagsbóta, eða þá að öðrum kosti að það verði fellt niður með öllu, eins og hér er lagt til með gjaldið af landbúnaðarafurðunum.

Eins og kunnugt er, þá hafa síldarafurðir lengi átt erfitt uppdráttar til þess að njóta jafnréttis við aðrar vörur að því er útflutningsgjald snertir. Það mátti lengi vel ekki heyrast hér á Alþ., að sama útflutningsgjald væri af síld og öðrum sjávarafurðum, og gekk núv. stjórnarflokkur bezt fram í því að viðhalda þessu ranglæti. Það var ekki fyrr en á þessu þingi, að hann kúventi í málinu, en það gerði hann ekki sakir þess, að honum fyndist hér um réttlætismál að ræða, heldur sakir þess, að hann varð að slá aftur af hinni fyrri afstöðu sinni vegna pólitískra hrossakaupa við jafnaðarmenn, til þess að geta náð að nokkru leyti völdum í landinu. Af þessum ástæðum sinnti hann þeim kröfum, sem hann var búinn að daufheyrast við lengi. Þó er það svo, að þetta má ekki ná til allra síldarafurða, því að ennþá á að greiða 7% útflutningsgjald af síldarmjöli. Í það ranglæti býst ég við að Framsóknarfl. haldi dauðahaldi, þar til það getur orðið pólitískur ávinningur fyrir hann að slá aftur af því.

Þá er til smekkbætis lagt til af stj. að rjúfa það samkomulag, sem gert var milli allra flokka á þinginu 1925, að sá gjaldauki, sem þá var lagður á, skyldi skiptast jafnt á milli ræktunarsjóðs og strandvarnanna. En nú segir stj., að landbúnaðurinn eigi ekki að greiða lengur í þennan sjóð, en þó eigi gjaldið, sem hér eftir verður samkv. því eingöngu af sjávarafurðum, að renna í ræktunarsjóðinn, en ekkert til strandvarna. Þetta dæmi er gott sýnishorn um sanngirni og réttlæti hæstv. stj. í garð sjávarútvegsins.