29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Það er sáralítið, sem ég hefi að svara því, sem komið hefir fram í umr. Það er aðeins eitt atriði í sambandi við þær, sem ég vil taka skýrt fram. Ég hefi gert hv. frsm. og hæstv. ráðh. tilboð, og ef þeir þiggja það, þá eiga þeir kost á að fá staðfestingu fyrir því, að sinn skilningur sé réttur; ef þeir ekki þiggja það, þá viðurkenna þeir, að þeir hafi ekki rétt fyrir sér. Þeirra rök fyrir brtt. eru þau, að þar sem ég sé formaður fél. ísl. botnvörpueigenda, þá muni ég beita mér fyrir því, að togaraeigendur neiti að greiða þetta gjald öðruvísi en eftir dómi. Ég skal þá lýsa því yfir, að ef þeir taka till. sína aftur, þá skal ég ábyrgjast, að allir togaraeigendur greiði útflutningsgjaldið meðan málsókn stendur yfir og þangað til dómur er felldur um það, hvor réttara hafi fyrir sér, en auðvitað með endurgreiðsluskyldu fyrir ríkissjóð, ef skilningur hæstv. ráðh. telst rangur, en engri endurgreiðsluskyldu, ef ég hefi á röngu að standa. Mér sýnist, að það geti nú verið mælikvarði á það, hvor réttara hefir fyrir sér, hvort þeir þora að taka aftur brtt. og treysta á ákvæði frv. óbreytt eða þeir láta brtt. halda áfram.

Ég hefi í annari ræðu minni sýnt fram á það, að með brtt. meiri hl. fjhn. við 3. gr. frv. er það ótvírætt viðurkennt, að samkv. l. er sá fiskur, sem veiddur er utan við landhelgi og aldrei kemur inn fyrir landhelgi, undanþeginn gjaldskyldu, enda er það með 3. gr., eins og hún er í frv., útilokað með öllu, að heimilt sé að taka þetta gjald, þar sem sagt er berum orðum að af afla, sem veiddur er utan landhelgi, megi taka útflutningsgjald, ef hann er saltaður, verkaður eða fluttur milli skipa innan landhelgi eða á höfnum. Þetta er svo greinilegt, að ég tel það vansa fyrir hv. þm. V.-Ísf., en ekki hæstv. ráðh., að kannast ekki við það, að 3. gr. frv. eins og hún er, nær ekki því, sem ætlazt var til, enda þótt hann skilji þetta, eins og hann hefir sýnt með sinni brtt. Mér er það alveg óskiljanlegt, að hann skuli láta spilla sér þannig siðferðislega af nauðsyn hæstv. ráðh. í þessu máli.