01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég verð að láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að hv. form. sjútvn. skuli vera jafn lítilþægur fyrir hönd sjávarútvegsins og kom fram í ræðu hans, að gera sig ánægðan með frv. eins og það liggur fyrir. Auðvitað eru því takmörk sett, hvað skerða megi tekjur ríkissjóðs. En hér á að velja milli sjómanna og bænda, hvort bændur eiga að fá allt útflutningsgjaldið fellt niður, eða hvort eigi að jafna þessu svo, að báðir aðilar fái nokkuð. Og þar sem aðeins er farið fram á ½% lækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, virðist það mjög sanngjarnt; og hér er ekki um að ræða að skerða tekjur ríkissjóðs, heldur að samræma gjöldin milli atvinnuveganna. Ég bendi á þetta til þess að hv. formanni sjútvn. sé alveg ljóst, þegar gengið verður til atkv., að hann á að segja til um, hvort hann metur meira hag útgerðarmanna og sjómanna eða hag bænda. Það raskar ekkert fjárhagsaðstöðu ríkissjóðs. Ég vil hinsvegar segja, að ég get greitt atkv. með brtt. hv. þm. Ak. á þskj. 265, með þeirri vissu, að nái frv. á þskj. 280 og 281 lögfestingu, sé mjög þægilegt að lagfæra það. Annars geri ég mér að öðru óreyndu fulla von um, að þessi þörfu frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég skal ekki trúa, að stjórnarliðið - hver einn og einasti - gangi samfylkt móti þessu nauðsynjamáli sjávarútvegsins.

Mig undrar, að hæstv. atvmrh. skuli ekki hafa flutt frv., og mig undrar líka, að hv. sjútvn. skuli ekki hafa staðið óskipt um þau, en mig rekur í rogastanz, af allt stjórnarliðið er óskipt á móti hagsmunum sjávarútvegsins, svo að þessi frv. nái ekki fram að ganga á þessu þingi.

Frv. er flutt með það fyrir augum, að það sé þjóðarnauðsyn, að þau nái lögfestingu, og hún fæst ekki uppfyllt, ef þetta dregst um eitt ár.