17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

5. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Út af þeirri breyt. viðvíkjandi fiskbeinum, sem hefir verið gerð á frv. síðan það fór héðan úr d. síðast, vil ég segja það, að ég álít, að það sé ekki hægt að skilja þessa viðaukatill. öðruvísi en þeir hafa gert, hv. þm. Borgf. og hv. þm. Vestm., þannig, að þegar útflutningsgjald er greitt, og á þeim höfnum, sem vörugjald er tekið af vörum, sem fluttar eru um hafnir, beri að draga þetta frá. Annars kemur mér þetta þannig fyrir sjónir, að ef innlendur kaupandi er að vörunni, þá greiði hann ekki útflutningsgjöld, heldur aðeins hafnargjöld á hverjum stað. En ef kaupandinn er útlendur þá virðist þetta vera þannig, að hann eigi að borga 3 kr. á hver 100 kg., að frádregnum hafnar- og bæjargjöldum á þeim stöðum, þar sem þau eru leyfð. Það er aðeins einn staður á landinu, sem þetta verkar verulega fyrir og það eru Vestmannaeyjar. (PO: Og Akranes). Ekki á svipaðan hátt og í Vestmannaeyjum, því að þar eru þau helmingi hærri en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu.

Ég hefi ákaflega mikla tilhneigingu til þess að flytja brtt. við þetta frv., en af því að það er orðið svo áliðið þingtímans, er tæplega gerlegt að fara að eiga mikið við frv. Ég mun því greiða atkv. með frv. eins og það nú er, þó að ég sé óánægður með það.