16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að mikill hluti þeirra 22 þús. kjósenda, sem hefðu kosið Sjálfstæðisfl., litu nú til þings og stj. eftir úrræðum í atvinnuörðugleikunum.

Það er eflaust rétt, að kjósendur Sjálfstæðisfl. yfirleitt líta til þings og stj. og hvað er það þá, sem þeir sjá? Fyrst og fremst sjá þeir það, að það er Sjálfstæðisfl., sem hefir borið fram á þinginu þau nytjamál, sem á komandi tímum munu helzt koma landsmönnum til bjargráða. Þeir sjá, að það er Sjálfstæðisfl., sem hefir borið fram frv. til 1. um fiskiráð, frv. til l. um Skuldaskilasjóð útgerðarmanna og frv. til l. um Fiskiveiðasjóð Íslands. Þeir sjá, að Sjálfstæðisfl. hefir borið fram þessi frv. til þess að koma sjávarútveginum til hjálpar.

En hvað er það, sem kjósendur sjá frekar? Þeir sjá, að hv. þm. Ísaf., sem hefir haft frv. til l. um fiskiráð til meðferðar, hefir ásamt meiri hl. hv. sjútn. komið fram með þá tilraun að afgreiða það með rökst. dagskrá. Orðalag og tónn þessarar dagskr. mun vera einsdæmi á þskj., þar sem er árás á einstakan mann og ráðizt með ómaklegum ummælum í garð þeirra manna, sem fyrir þessum málum hafa barizt. Þetta sýnir glöggt fjandskap við sjávarútveginn.

Kjósendur sjá ennfremur, að hv. þm. Ísaf., sem á að hafa kynnt sér málefni sjávarútvegsins sérstaklega, og þá vitanlega viðvíkjandi Skuldaskilasjóði útgerðarmanna, að hann hefir lagzt á móti því máli og talar á þá leið hér í þinginu sem hann þekki ekki málið.

Þeir sjá ennfremur, að hæstv. stj. hefir ekki fengizt til að flytja málið, og þeir sjá loks, að hæstv. fjmrh., sem um þetta mál hefir talað, er sá maðurinn, sem þyngst hefir lagzt á móti þessu máli.

Það er þetta, sem kjósendur sjá. Þeir munu yfirleitt líta til þings og stj. og þeir munu í upphafi kannske hafa getað átt von á að mega vænta góðs þaðan, en eftir þeim undirtektum, sem þessi mál hafa fengið hjá hv. Alþ., munu þeir komast að raun um hið gagnstæða.

En ummæli hæstv. fjmrh. um þessi atriði komu mér til að minnast á það, að borgarar þjóðfélagsins munu á hverjum tíma mega gera þær kröfur til þeirrar stj., er með völdin fer, að hún í ráðstöfunum sínum taki tillit til allra stétta og allra flokka í landinu, alveg án tillits til þess, hverrar pólítískrar skoðunar einstaklingurinn er. Það tillit, sem hverri stj. þannig ber að taka, ber að vera þeim mun ríkara, sem borgarar þjóðfélagsins eiga við erfiðari kjör að búa.

Það mun naumast vera ágreiningur um það, að íslenzka þjóðin á nú, til lands og sjávar, við að búa alveg sérstaka erfiðleika. Hæstv. atvmrh. hefir í sinni ræðu lýst því nokkuð, en mér virtist endinn á hans ræðu vanta, hann hefði átt að minnast á, að það er einmitt stj., sem hefir verið studd af sósíalistum, sem mestan hluta undanfarinna ára hefir farið með völd — stjórn, sem tók við atvinnuvegunum í blóma, þar sem ekki var þjóðnýting, heldur einstaklingsframtak. Sú stj. skildi þannig við, að allt er í rústum.

Þessu hefði hæstv. atvmrh. ekki átt að gleyma, þegar hann talaði um ástæður atvinnuveganna. Ég vil í því sambandi minnast á það, að hæstv. ráðh. sagði, að sjálfstæðismenn hefðu gleymt mikilsverðu atriði í sambandi við fiskveiðasjóðinn — því, hvernig ætti að afla þess fjár, sem þar á að leggja fram. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það er gerð grein fyrir því, hvernig eigi að afla fjárins. En hæstv. atvmrh. ætti að beina þeim tilmælum til hæstv. fjmrh., að hann ætti með þeim tekjuöflunarfrv., sem hann leggur fyrir þingið, að gera grein fyrir því, hvað miklar tekjur hvert þessara frv. muni gefa í ríkissjóð.

Í dag var útbýtt einu tekjuöflunarfrv., en þar er ekki minnzt á, hvað mikilla tekna þetta frv. muni afla ríkissjóði. En erfiðleikarnir, sem eru á öllum atvinnuvegum landsmanna, bæði til lands og sjávar, takmarkanir á möguleikum til sölu allra afurða, leiða vitanlega til þess, að ríkissjóði veitist æ erfiðara að standa í skilum út á við.

Svipaða erfiðleika og við eigum nú við að stríða hafa aðrar þjóðir einnig átt við að etja. Til þess að leysa þann vanda, sem þannig hefir steðjað að, hafa ýmsar aðrar þjóðir séð þann eina kost vænstan að reyna að sameina starfskrafta þjóðarinnar, til þess þannig sameinaðir að lyfta þjóðinni yfir örðugleikana. Sú viðleitni til sameiginlegra átaka hefir að vísu verið framkvæmd á nokkuð mismunandi hátt í ýmsum löndum. En hvort sem sú tilraun kemur fram í þjóðstjórn eða á annan hátt, þá er hitt vitað, að í því felst tilraun til þess, a. m. k. um stundar sakir, að draga úr pólitískri flokkadeilu til þess að þeir kraftar þjóðfélagsins, sem líklegastir mega teljast til þess að lyfta þjóðinni yfir örðugleikana, megi sameinaðir, en ekki sundraðir vinna að því. Erfiðleikar atvinnuvega vorra til lands og sjávar eru viðurkenndir. — Yfirfærsluörðugleikar og þverrandi geta íslenzka ríkisins til skilvísrar greiðslu er staðreynd. Það mætti því gera ráð fyrir, að flokkar þeir, sem nú styðja núv. hæstv. ríkisstj., ekki sízt þar sem hún styðst við minni hl. kjósenda, hefðu í einhverju viljað leita samvinnu og samstarfs pólitískra andstöðuflokka, til þess að reyna sameinaðir að sigrast á vaxandi örðugleikum þeim, er nú steðja að.

En það hefir síður en svo orðið sú raunin á. Þvert á móti. Skipun hinnar svo nefndu skipulagsnefndar er þess órækur vottur, að þar er höfð alveg gagnstæð aðferð.

Í þá n. eru valdir menn, sem aðeins tilheyra tveimur pólitískum flokkum. Menn, sem hafa enga hæfileika né þekkingu umfram svo marga aðra, en eru hinsvegar barðsnúnir og heiftúðugir pólitískir fylgismenn núv. stj. Enda eru þeir valdir eingöngu vegna þess.

Hv. þm. Snæf. hefir nú þegar í ræðu sinni skýrt frá, hvers vegna þessi n. sé skipuð, sem sé til þess að koma á þjóðnýtingu allra atvinnuvega, en drepa niður allt einstaklingsframtak og einkarekstur. N. er aðeins flokksnefnd rauðu flokkanna. Til viðbótar því, sem hv. þm. Snæf. hefir sagt um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og um nefndarskipunina, vil ég aðeins benda á, að samkv. 1. gr. frv. er n. gefið vald til þess að heimta skýrslur af einstaklingum, munnlega eða bréflega, um öll þau atriði, er n. telur við þurfa. Þetta vald, sem n. með þessu ákvæði er gefið, er svo víðtækt og ótakmarkað að augsýnilegt er, að það hlýtur að leiða til þess, að borgararnir verði í mörgum tilfellum að færast undan að veita umbeðnar upplýsingar. Í þeim lögum þar sem lögð er skylda á borgarana til þess að gefa upplýsingar, eins og t. d. um vitnaskylduna, eru sett ýmiskonar undantekningarákvæði, til þess að vernda borgarana gegn því að þurfa að skýra frá ýmsu, sem ef opinbert verður, getur skaðað þeirra atvinnurekstur. Engar slíkar hömlur eru settar hér. Ef n. telur, að hún hafi þörf fyrir þessar upplýsingar, skal viðkomandi, að viðlögðum allt að 100 kr. dagsektum, vera skyldur til að veita umbeðnar upplýsingar. Einstaklingurinn getur ekki borið það fyrir sig, að atriðið sé einkamál hans, eða að það sé öðrum óviðkomandi og því starfi, sem n. vinnur að. N. úrskurðar það sjálf. Borgarinn er sviptur þeim sjálfsagða rétti að geta leitað úrskurðar dómstólanna þar um. N. er gefið alræðisvaldið.

En ef nú einstaklingurinn samt sem áður neitar að veita þessar umbeðnu upplýsingar, þá getur n. skyldað hann, að viðlögðum allt að 100 kr. dagsektum, til að verða við fyrirmælum n.

Það kemur ekki fram í frv., hvort n. er gefið vald til þess að úrskurða einstaklinginn í 100 kr. dagsektir. Ef það væri, þá er það einsdæmi, því að mér er ekki kunnugt um, að neinn maður geti úrskurðað annan í sektir, nema þeir sem gefið er dómsvald. En ef það er tilætlunin, að n. eigi að leita til lögreglustjóra og kæra út af því, ef viðkomandi einstaklingur gefur ekki upplýsingar, þá hygg ég, að það geti orðið tafsamt fyrir n., ef hún í öllum tilfellum á að höfða mál gegn þeim, sem ekki vilja gefa upplýsingar og sekta þá, til þess að þeir verði við tilmælum n. Ef svo færi nú samt sem áður, að einhverjum yrði það á að gefa ekki að öllu leyti réttar upplýsingar, þá á viðkomandi maður að dæmast fyrir meinsæri. Það eru refsiákvæðin samkv. þessu frv.

Ég skal gjarnan taka það fram, að ef hér væri um pólitískt hlutlausa n. að ræða, sem óskaði upplýsinga til þess að framkvæma vísindalegar rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þá væri allt öðru máli að gegna. En þegar þess er gætt, að sjálfur formaður þessarar nefndar viðhefur jafnvel hér innan þings, á meðan atkvgr. stendur yfir, hótanir gagnvart þeim mönnum, sem vilja greiða atkv. í samræmi við sannfæringu sína, þá er nokkuð ljóst, hvernig þessi hv. þm. mundi nota það vald utan þings, sem hann samkv. þessu frv. fengi. Það er þess vegna alveg víst, að þetta vald yrði misnotað til ofsóknar atvinnuvegum pólitískra andstæðinga, og árangurinn af starfi nefndarinnar yrði birtur í blöðum þessara flokka með þeim sérkennilega blæ hlutdrægni og persónulegrar ofsóknar, sem kemur á allt, sem sagt er frá í þeim málgögnum.

En af því, hvernig þessi nefnd er skipuð og af því, hvert er höfuðverkefni hennar, má öllum vera það ljóst, að nefndarskipunin er síður en svo tilraun til þess að sameina þá krafta, er nú mættu þykja til þess hæfastir að koma þjóðinni yfir þá örðugleika, sem hún á við að stríða.

Skipun nefndarinnar er að mínu áliti krepptur hnefi framan í þá flokka, sem ekki aðhyllast kenningar Karls Marx og ekki vilja láta svipta sig öllu athafnafrelsi og enn hafa trú á því, að menn með einstaklingsframtaki séu vænlegri til sigurs í lífsbaráttunni en handjárnaðir skuldaþrælar einokunar og harðstjórnar. Þessi nefndarskipun er því í mínum augum fullkomin staðfesting á því, að núv. hæstv. stj. ætli með því að koma hér á þjóðnýtingu atvinnuveganna, að eyðileggja þær sjálfstæðu atvinnugreinar, sem vér nú rekum og aðeins verða reknar meðan einstaklingsframtakið og athafnafrelsið nýtur sín.

Hæstv. forsrh. hefir bæði í blöðum og hér á Alþ., eins og hæstv. fjmrh. gerir einnig nú, neitað því, að n. ætti að undirbúa þjóðnýtingu atvinnuveganna. Þessa fullyrðingu hæstv. ráðh. tel ég gersamlega tilgangslausa. Bæði er það, að núv. stjórnarblað, Alþýðublaðið, hefir skýrt frá þessu, og hæstv. atvmrh. hefir í ræðu hér á Alþ. staðfest þetta. Mun vissulega öllum ljóst, að sá ráðh., sem hefir skipað nefndina, og gefið henni erindisbréf, muni vita betur um þann tilgang, sem n. á að hafa, heldur en sá ráðh., sem ekki hefir komið nálægt skipun nefndarinnar.

En það er fleira, sem sannar þetta, ef ekki beint, þá óbeint. Kjósendurnir líta til Alþingis, segir hæstv. fjmrh. Og hvað sjá þeir þar? Þeir sjá, að stj. hrúgar inn í þingið frv. um einokun á ótal vöruteg., sem hér yrði of langt mál að telja upp, og fleira í þjóðnýtingaráttina. Jafnframt gerir hún till. um gífurlega hækkun á sköttum og tollum. Ég tel, að sú stj., sem þannig vill ganga inn á verzlunarrekstur landsmanna og taka í sínar hendur ótölulegan fjölda af vöruteg., en banna jafnframt öllum öðrum alla verzlun með þær vörur, sú stj. muni engu síður vilja taka í ríkisins hendur annan þann atvinnurekstur, sem landsmenn nú reka á eigin ábyrgð og áhættu.

Hæstv. forsrh. og fjmrh. ættu því ekki að vera að gorta neitt af því, að þeir hafi einhverja sérstöðu í þessum efnum. Þeir eru vitanlega samsekir hæstv. atvmrh. í því að vilja þjóðnýta atvinnuvegi landsmanna og hafa sannað það með flutningi ýmsra stjórnarfrv. um einkasölu á fjölmörgum vöruteg. Og ekkert hik virðist vera á þessu einkasöluæði, þó að upplýst sé, að með því séu um 4000 manns sviptir atvinnu og þó að mótmæli berist mjög viða að gegn þessari herferð stj. og Alþ.

Slík er framkoma hæstv. stj. Aðeins til þess að geta orðið við því ákvæði í 4 ára áætlun Alþýðufl., að ríkið taki í sínar hendur alla utanríkisverzlun, verður Framsóknarfl. á Alþ. að svínbeygja sig fyrir öllum slíkum kröfum þess flokks. Við kosningarnar í vor lýsti Framsóknarflokkurinn því yfir, að hann myndi vilja vernda frelsi einstaklingsins og vernda lýðræðið. Hvorutveggja hefir hann svikið. Löggjafarstarfið á núv. Alþ. mótast af ofbeldi og skoðanakúgunarvaldi Aþýðuflokksleiðtoganna og undirlægjuhætti þingflokks Framsóknarflokksins. Mörg af þeim frv., sem stj. ber fram eða lætur bera fram og meðferð þeirra á Alþ. bera þessa ljósan vott. Hv. þm. Snæf. hefir minnzt á frv. um vinnumiðlun, en ég skal drepa á frv. um verkamannabústaði. Það er vitað, að það er aðeins borið fram til þess að reyna að eyðileggja þá tilraun, sem sjálfstæðir verkamenn hér í Rvík hafa gert til þess að byggja yfir sig og njóta þeirrar aðstöðu, sem lögin veita þeim. Eins er frv. til l. um síldarverksmiðjur ríkisins aðeins flutt til þess eins, að koma meiri hl. núv. stj. verksmiðjunnar frá völdum. Það er og vitað, að frv. til l. um útvarpsrekstur ríkisins er borið fram í þeim eina tilgangi að koma vissum mönnum frá starfi sínu við útvarpið.

Ég veit ekki, hvað lengi landsmenn yfirleitt una slíkum aðförum; flokksmenn stj. virðast una vel handjárnum. Það má minna á það, að áður fyrr voru skuldugir þrælar danskrar einokunar bundnir við staur og hýddir. Nú er slík aðferð ekki lengur viðhöfð. En í staðinn hyggst Alþýðufl. með aðstoð Framsóknarfl. að hefta landsmenn í fjötra íslenzkrar einokunar, kúgunar og pólitískrar hlutdrægni, og í stað hýðingar verða menn nú féflettir.

Sjálfstæðisfl. stendur einn gegn slíkum aðferðum. Hann hefir ekki eins og Framsóknarfl. svikið loforð sín, þó óréttmæt kosningalög varni því, að hann geti hamlað því, að löggjöf sósíalista verði samþ. En eins og það er víst, að Sjálfstæðisfl. mun framvegis sem hingað til berjast fyrir lýðræði og lýðfrelsi og gegn allri kúgun í hverri mynd sem hún birtist, þá er það eins víst, að svik rauðu flokkanna við allar lýðræðishugsjónir, misnotkun hins pólitíska valds, skoðanakúgun þeirra, hlutdrægni og ofbeldi mun verða sú pólitíska svipa, er á sínum tíma neyðir þá til reikningsskapar frammi fyrir kjósendum.