06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Emil Jónsson:

Ég hefi lítinn þátt tekið í þessum umr., enda þótt nokkur ástæða hefði verið til þess, þar sem ég á sjálfur sæti í hinni svo kölluðu „Rauðku“, sem gengur hér ljósum logum. Ástæðan fyrir því er aðallega sú, að umr. hafa snúizt meira um ýmislegt annað en greinar frv., sem fyrir liggur, svo sem tilefnið til skipunar nefndar þessarar og hvernig mönnum hún er skipuð. Tilgangurinn með skipun n. hefir verið langstærsta og mesta ágreiningsatriðið, og skal ég ekki fara neitt út í það nú. En því vil ég lýsa yfir, að eftir því sem ég þekki til nefndarmannanna, þá eru þeir fullkomlega færir um að inna af hendi það starf, sem nefndinni er ætlað að vinna. — Því hefir verið haldið fram af hv. þm. Snæf. o. fl., að þar sem nefndarmennirnir væru svo mjög pólitískir sem þeir hafa viljað vera láta, þá hljóti n. að vinna pólitískt, vera aðeins pólitísk n. Þetta er rangt, því að það er vitað, að menn geta unnið ópólitískt, enda þótt þeir séu pólitískir sjálfir. Hitt hefir og verið bent á, að þeir menn, sem hafa sterka pólitíska aðstöðu í stórum stjórnmálaflokkum, hafa meiri tök á að koma till. sínum fram en hinir, sem ekki hafa neinn pólitískan lit.

Hv. þm. Snæf. nefndi þrjú frv., sem frá n. hefðu komið: frv. um skipulagning fólksflutninga á landi, frv. um opinberan rekstur og frv. um ferðamannaskrifstofu. Þegar nú þess er gætt, að n. var ekki skipuð fyrr en 24. ágúst, og hefir því ekki haft nema lítinn tíma til umráða, þá er tæplega ástæða til þess að ætla, að hún sé nú þegar búin að koma fram með mikil nýmæli. Þessi þrjú mál sem þegar hafa komið frá henni, eru öll þörf, en þurftu ekki mikilla rannsókna. Um frv. um skipulagning fólksflutninga á landi hefir lítill ágreiningur orðið í þ., svo mjög hafa menn verið á einn máli um það, að bæta þyrfti úr því ástandi, sem er um fólksflutninga á landi hjá okkur, enda er það svo þar sem ég þekki bezt til, sem er um flutninga á milli Hafnarfjarðar og Rvíkur, að þeir, sem þá atvinnu stunda þar, stefna sinni fjárhagslegu getu í hreinan voða. Þar keppa þrjú firmu, sem reyna að ná sem mestu hvert frá öðru og nota til þess ýms ráð, m. a. að láta bílana læðast af stað litlu áður en hinn ákveðni brottferðartími er kominn, hverja á undan öðrum.

Um ferðamannaskrifstofuna hefir minna verið rætt. Að erlendum ferðamönnum sé látinn í té sá fróðleikur um land og þjóð, sem mögulegt er með góðu móti, er og verður að teljast nauðsynlegt, og jafnframt, að komið sé í veg fyrir það, að okrað sé á ferðamönnum langt umfram það, sem forsvaranlegt getur talizt.

Þá er frv. um eftirlit með opinberum rekstri. Ég vil nú biðja hv. þm. Snæf. að benda á, hvar í því felst pólitískur litur. Þar er beinlínis ákveðið, að í ráðin skuli kosið með hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi. Það ætti kannske að skipa í þau eintómum sjálfstæðismönnum, eins og t. d. í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum. Það myndi þessi hv. þm. ekki kalla pólitískt litað.

Þá hefir n. sent frá sér frv. um tryggingar, sem teljast verður þjóðnytjamál. Það má vel vera, að það komist ekki fram á þessu þingi, en það er víst, að það kemst þá fram síðar, og það áður en langt líður.

Það, sem minnst hefir verið um rætt, er um skýrslusöfnunina sjálfa. Frv. gerir ráð fyrir því, að n. megi heimta skýrslur, munnlegar eða bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum og stjórnendum félaga og stofnana, um þau atriði, sem hún telur þörf á í starfi sínu. Það verður þá fyrst að gera sér ljóst, hverskonar skýrslur þetta eru, sem skipulagsnefndin á að fá heimild til þess að krefjast. Skýrslur þessar eru aðallega tvennskonar. Annarsvegar skýrslur um framleiðsluhætti landsmanna og afkomu atvinnuveganna, en hinsvegar skýrslur um iðnað og iðnrekstur. Nú vill svo til, skýrslur um sjávarútveg og landbúnað eru til, en að því er viðvíkur iðnaðinum, þá eru þessar skýrslur ekki til. Eitt það fyrsta, sem n. gerði, var að taka upp úr verzlunarskýrslunum það, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu af þeim iðnaðarvörum, sem inn eru fluttar. Hvaða vörutegundir hér væru framleiddar og hvaða hráefni væru notuð vissi n. ekki, og því tók hún það til bragðs að senda út fyrirspurnir til iðnrekenda um það, hvaða vörur hér væru framleiddar, hvaða hráefni væru notuð og hve margir menn hefðu atvinnu við framleiðsluna. Þetta eru þær fyrirspurnir, sem hv. þm. Snæf. hafði einhversstaðar náð í og var að lesa upp áðan.

Svör við fyrirspurnum þessum hafa fá borizt ennþá, og til þess munu liggja eðlilegar ástæður. Ég hefi heyrt, að háttv. þm. Snæf. hafi tekið þá rögg á sig að hringja út og austur til iðnrekanda og biðja þá um að svara ekki fyrirspurnum þessum. Nú vil ég leyfa mér að spyrja háttv. þm. Snæf., hvað satt sé í þessu. Sé þetta rétt, þá er ég ekki viss um, nema ég greiði beinlínis atkvæði á móti frv., ef sjálfstæðismenn eigu að taka sæti í nefndinni. Hvað ég geri í þessu efni fer nokkuð eftir svari háttv. þm. Snæf. við þeirri spurningu, sem ég hefi til hans beint.

Til þess nú að sýna fram á, hvað nefndin hafði við að styðjast, þegar hún sendi út þessar umræddu spurningar, vil ég fyrst benda á till. sem samþ. var á iðnþinginu í fyrrasumar og hljóðar svo: „Iðnþingið skorar á stjórn landssambands iðnaðarmanna að fá lögunum um framleiðsluskýrslur breytt þannig, að iðnaðarmenn séu skyldaðir að senda hagstofunni slíkar skýrslur og undirbúi hagstofan eyðublöð undir þær.“ Þessa óska iðnaðarmenn sjálfir. Stjórn landssambandsins, sem ég á sæti í, sendi svo ályktun þessa til hagstofunnar með ósk um, að hún beitti sér fyrir því, að frv. um þetta efni yrði lagt fyrir Alþingi það, sem nú situr. Eins og kunnugt er, þá gerði hagstofustjóri þetta, og er frv. nú orðið að lögum. Fyrsta gr. þeirra laga hljóðar svo: „Iðnfyrirtæki þau, sem eru tryggingarskyld samkv. lögum nr. 72. 8. sept. 1931, um slysatryggingar, eru skyld að láta hagstofunni árlega í té skýrslu um magn og verð framleiðslu sinnar, um notkun hráefna og aðstoðarefni, um tölu og samanlagðan vinnutíma verkamanna og starfsmanna ásamt útborguðu vinnukaupi, svo og aðrar upplýsingar um fyrirtækið samkv. eyðublöðum, sem hagstofan semur í samráði við iðnráð Reykjavíkur“. Í þessari lagagrein er allt það upptalið og heimilað, sem skipulagsnefnd atvinnumála hefir sent út í fyrirspurnarformi. Það hefir því ekki verið spurt um neitt það, sem iðnfyrirtækin eru ekki að lögum skyld að gefa upp til hagstofunnar.

Þegar samþ. var að senda út þessar umræddu fyrirspurnir, fór skrifstofustjóri nefndarinnar á fund hagstofustjóra og ráðfærði sig við hann um það, hvernig spurningarnar ættu að vera. Hagstofustjóri vildi eitthvað breyta spurningarskemanu frá því, sem nefndin hafði gengið frá þeim, og var ekkert við því að segja. En hitt var með öllu ókleift, að bíða eftir því, að hagstofan safnaði skýrslunum og sendi heildarskýrslu. Það hefði dregizt allt of lengi, jafnvel ár eða meira. Þess vegna varð n. að hverfa að því ráði, að senda spurningarnar út sjálf.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að n. hafi ekki hegðað sér eins illa og háttv. þm. Snæf. vildi vera láta. En hvernig hefir hann nú hegðað sér, þessi háttv. þm? Hann hefir hringt út um allar jarðir til atvinnurekendanna og beðið þá um að gefa ekki þær skýrslur, sem hann sjálfur var með að lögfesta. Ef það er ekki tvöfeldni og undirhyggja, þá veit ég ekki, hvað slíkt er.

Eins og ég hefi tekið fram, þá liggja fyrir skýrslur um framleiðslumagn landbúnaðar- og sjávarútvegs, en vanta að því er iðnaðinn snertir, og þess vegna eru fram komnar spurningar um hráefnið, en upplýsingar um það er nefndinni nauðsynlegt að fá, til þess að hún geti gert sínar till.

Ég tók það fram áðan og vil endurtaka það enn, að ég er í vafa um, að ég fylgi frv. eins og það er nú orðið, og veitur þar nokkuð á svari hv. þm. Snæf. Hvort hann ætlar að halda uppteknum hætti um vinnubrögð, eða hvort hann ætlar að bæta ráð sitt. Annars virðast mér sjálfstæðismenn hafa sýnt nefndinni þá andúð, að ekki sé neins góðs að vænta af samstarfi við þá.

Þá kem ég að því atriði, hvers vegna þeir hafa sýnt þessa andúð. Hv. þm. Snæf. sagði í fyrstu ræðu sinni, að nefndinni væri ætlað það hlutverk að finna veilurnar í atvinnurekstri pólitískra andstæðinga. Þetta er rétt. En henni er ekki einungis ætlað það eitt, heldur á hún líka að finna veilurnar í öllum atvinnurekstri, sem hún hefir afskipti af, ef þær eru einhverjar. Henni er hreint og beint skylt að benda á þær veilur, sem hún finnur hjá hverjum sem er, jafnt framsóknarmönnum sem jafnaðarmönnum. Annars er eins og hv. þm. Snæf. viti um einhverjar veilur hjá flokksmönnum sínum, sem ekki sé hollt, að komi fram í dagsljósið, en það er einmitt það, sem nefndin vill fá fram, veilurnar í alvinnurekstrinum, til þess að geta gert tillögur til umbóta á þeim. Sé nú þetta hin sanna orsök andúðarinnar, sem nefndin hefir fengið hér í deildinni, þá er sýnt, að það er óhollt að fá sjálfstæðismenn inn í nefndina, úr þeirra flokki eru líka flestir atvinnurekendurnir, sem sérstaklega eru á móti öllum afskiptum hins opinbera af atvinnurekstri yfirleitt og á móti ýmsum umbótum, sem tíminn krefur.

Það hefir verið talað um, að ákvæði frv. þessa brytu í bág við 62. gr. stjskr., um friðhelgi eignarréttarins, og að þar væri ekki aðeins átt við hin veraldlegu verðmæti, heldur og líka hin andlegu. Hvort hv. þm. Snæf. telur þau verðmæti, sem hér er um að ræða, þ. e. veilurnar í atvinnurekstri einstaklinganna, undir andleg eða líkamleg verðmæti, veit ég ekki, en hitt veit ég, að það þarf að kippa í lag ýmsu, sem aflaga fer í þessum málum.