07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Ólafur Thors:

Ég sé, að komin er fram till. um, að skornar séu niður umr. um þetta frv. Það er að vísu svo, að komið hefir fyrir áður, að slík till. væri lögð fram og er ekki mikið við því að segja, úr því að þingsköp gefa heimild til þess. En mér finnst, að þar sem hér er um að ræða 3. umr. málsins og þetta mál er eins og því hefir verið lýst, þ. e. a. s. mjög óvenjulegt í alla staði, og þar sem sá maður af stjórnarandstæðingum, sem stendur næst ríkisstj., telur ákvæði frv. fara í bág við stjórnarskrána, þá sé hart að gengið, að mönnum skuli ekki gefinn kostur á að ræða málið. Ég t. d. hefi ekki talað eitt orð um málið, og hafði ég þó ekki ætlað að láta það fara út úr deildinni án þess að segja nokkur orð, svo að eitthvað af því, sem ég hefi út á frv. að setja, gæti orðið skjalfest í þingtíðindunum, og ég hygg, að svo sé um fleiri sjálfstæðismenn. Aðeins þrír okkar flokksmanna hafa tekið til máls, þeir hv. þm. Snæf., hv. 8. landsk. og hv. 6. þm. Reykv. Því verður ekki neitað, að það er nokkuð nærri gengið málfrelsi þingmanna að skera niður umr., þegar aðeins þrír menn úr andstæðingaflokki frv. hafa tekið til máls. Verð ég því að mótmæla því algerlega, að við séum beittir slíku ofríki og tel það í alla staði óviðeigandi. Veit ég eigi heldur, hvort slíkt ofríki flýtir nokkuð fyrir afgreiðslu mála yfirleitt. Ef stjórnarflokkarnir ætla sér að beita þannig bolmagni til þess að skerða málfrelsi okkar, verða þeir að gera sér ljóst, að þeir kynnu að þurfa að grípa til þess úrræðis í fleiri málum, ef þetta á að vera til þess að stytta þingstörfin. Mér skilst nú, að skilyrði fyrir því, að slíkur niðurskurður á umr. geti yfirleitt farið fram, sé tilgreindur í 37. gr. þingskapanna. Ég þarf ekki að kynna okkar reynda forseta þessi ákvæði, en þeim til leiðbeiningar, sem hér eiga að greiða atkvæði, vil ég leyfa mér að lesa þessa gr. Þar stendur:

„Ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti stungið upp á, að þeim sé hætt, og sker þingdeildin úr því umræðulaust. Sömuleiðis geta 3 þingmenn í efri deild, 6 í neðri deild og 9 í sameinuðu þingi krafizt þess, að greidd séu atkvæði um, hvort umræðum skuli lokið o. s. frv.“

Ég verð að mótmæla því mjög eindregið, að hægt sé að telja, að umr. um þetta mál hafi dregizt úr hófi fram, þegar þess er gætt, hvaða ákvæði felast í frv. og hvað það er óvenjulegt. Ég var ekki viðstaddur, þegar 2. umr. fór fram, en hún tók aðeins 4 klukkustundir, og af þeim tíma töluðu stjórnarliðar í 2 klst. Nú, þegar andstæðingar þessa frv. bera fram rökstudd andmæli, get ég ekki viðurkennt, að það sé neitt í þá átt, að umr. gangi úr hófi fram, þó að tveir þingmenn hafi talað gegn frv. og sá þriðji flutt eina stutta ræðu. Ég teldi því rétt, að úrskurður hæstv. forseta félli á þá leið, að þessi atkvæðagreiðsla geti ekki farið fram, vegna þess að hér séu eigi fyrir hendi þær forsendur, sem 37. gr. þingskapanna gerir ráð fyrir, að slík atkvgr. byggist á. Vil ég beina því til hæstv. forseta að taka þetta til athugunar.