22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Ólafur Thors:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af þeim ummælum, sem hv. þm. Ísaf. beindi til mín. Hann vildi gefa mér heilræði um það, hvernig ég ætti að hegða mér sem formaður Sjálfstfl. og taka mér ekki hv. sessunaut minn, 6. þm. Reykv., til fyrirmyndar. Ég ætla ekki að fara að skrifta neitt hér í d., hvernig ég lít á mína formennsku í Sjálfstfl. og hvað vakti fyrir mínum flokksbræðrum, þegar þeir kusu mig. Ég veit, að flokksbræður mínir ætlast til þess, að ég athugi vandlega allt, sem frá þeim kemur, og velji það til fordæmis, sem bezt er hjá hverjum einum. Og hvað það snertir, hvernig eigi að hirta lítilmótlegan og ekki mjög ráðvandan þm., þá fæ ég ekki betra fordæmi en að hlusta á hv. 6. þm. Reykv., þegar hann talar til hv. þm. Ísaf. Ég mun því taka hann mér til fyrirmyndar, þegar mér sýnist, eins og ég mun taka aðra flokksbræður mína mér til fyrirmyndar án þess að leita leyfis hjá hv. þm. Ísaf.

Að öðru leyti þarf ég engu að svara hv. þm. Ísaf., því hann deildi samtímis út af því sama á hv. sessunaut minn, og því hefir hann þegar svarað. Ef ég færi að svara líka, yrði ég að endurtaka það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu, en það yrði ekki til annars en að lengja umr.

Hv. 2. þm. Árn. skýrði frá sinni afstöðu til málsins, sem byggðist á fullkominni sanngirni og réttum skilningi á þessu máli. Hann gat um það, að sér þætti nokkur ljóður á þessu ráði, ef satt væri, að loforð hefðu verið gefin sjómönnum um ákveðna úthlutun á þessari uppbót. En mér skilst, að ekki hafi verið hægt að gefa slík loforð fyrirfram. Í fyrsta lagi gat enginn vitað það, þegar menn voru skráðir í skiprúm í byrjun vertíðar, hvort nokkru yrði úthlutað, og enn síður eftir hvaða reglum. Að útgerðarmenn fyrir sitt leyti óskuðu eftir ákveðinni skiptingu, getur ekki bundið löggjafann til þess að framkvæma slíka skiptingu, og það er víst, að Alþingi verður blátt áfram hlægilegt í meðvitund alþjóðar, ef það þrátt fyrir mjög takmarkaðan fjárhag ríkissjóðs, leggur nú í fyrsta skipti út á þá braut að endurgreiða toll, vegna þess að afkoma sjómanna er sérstaklega rýr, og gerir það þá eftir þeim reglum, að sá, sem mest bar úr býtum, skuli fá mest, en sá, sem minnst þénaði, fái minnst. Sóma síns vegna getur Alþ. ekki gert þetta.