26.11.1934
Sameinað þing: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Guðmundsson:

Jafnvel þótt það sé réttur stjórnarandstæðinga við framhald 1. umr. fjárlfrv. að ræða um allt, sem þeim þykir miður vera í fari ríkisstj., þá mun ég lítið eða ekki nota þann rétt, heldur aðallega ræða um það frv., sem hér er til meðferðar, það er að segja fjárlagafrv. fyrir árið 1935, með hliðsjón af þeim umr., sem þegar hafa farið fram.

Það hefir verið bent á, að fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, geri ráð fyrir meiri gjöldum en nokkurt annað slíkt frv., sem nokkru sinni hefir verið lagt fyrir Alþingi. Gjöldin samkv. því nema undir 14 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að frumvarpið, sem var lagt fyrir þingið í fyrra, gerði ráð fyrir 11,5 millj. kr. Það hefir líka verið bent á, að vegna þessarar hækkunar gjaldanna er meiri tekjuhalli á fjárlagafrv. en nokkru sinni fyrr og að stjórnin fer þar af leiðandi fram á meiri skatthækkun en nokkru sinni fyrr.

Það hefir einnig verið bent á það, og það er viðurkennt af öllum, jafnvel hæstv. stj., að ástand aðalatvinnuvega landsins, landbúnaðar og sjávarútvegs, sé alveg óvenjulega örðugt. Því má bæta við um hina atvinnuvegi vora, að verzlunin er lömuð af höftum, innlendum og erlendum, iðnaðurinn er ekki nema lítill veikur vísir og siglingar innanlands og til og frá útlöndum verður að styrkja með framlagi úr ríkissjóði.

Einmitt þegar svona stendur á kemur hæstv. stj. með mjög svo auknar kröfur um framlög til ríkissjóðs, þegar við sjálfstæðismenn flytjum mjög hóflegar lækkunartillögur og röksýnum fjármálastefnu stjórnarinnar, ætlar hæstv. fjmrh. að ærast og leyfir sér hvað eftir annað að tala um hræsni, loddaraleik og skrípaleik af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Ég mun nú reyna að ræða þetta mál öfga- og stóryrðalaust, enda lít ég svo á, að sá tónn og sá æsingur, sem hæstv. fjmrh. viðhafði, eigi alls ekki við í opinberum umr. um hin alvarlegustu vandamál.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni síðastl. föstudag, að fjármála- eða skattastefna stj. væri sú, að auka kaupgetuna sem mest, með því að taka af þeim, sem mikið hafa, og láta það í hendur þeirra, sem lítið hafa, þó þannig, að kaupgetan beinist ekki að erlendum kaupum. En hverjir eru það hér á landi nú, sem hafa miklar tekjur? Ekki eru það bændurnir. Það er viðurkennt í þessum umr. Ekki eru það þeir, sem við sjávarútveg fást. Það er líka viðurkennt í þessum umr. Ætli það séu Kaupmennirnir eða kaupfélögin, sem ekki mega flytja inn eða út nema hluta af því, sem landsmenn telja sig þarfnast. Ég held ekki. Vaða iðnaðarmenn í peningum? Ég hygg, að þeir líti ekki svo á. Hvaðan ætlar þá hæstv. ráðh. að taka þetta fé? Heldur hann, að hann geti fengið það allt hjá þeim mönnum, sem taka laun hjá því opinbera, eða einstökum mönnum?

Þá tók ekki betra við þegar hæstv. fjmrh. fór að lýsa fjármálastefnu Sjálfstfl. Hann sagði, að sá flokkur vildi draga sem mest úr atvinnu í landinu, eða „slá niður kaupgetuna“, eins og hann orðaði það. Annað veifið sagði hann, að sjálfstæðismenn tímdu ekki að borga skatta, hitt veifið sagði hann, að þeir vildu fá fram stórkostlegar gjaldaaukningar og láta svo allt koma fram, sem halla á þjóðarbúskapnum. Mig minnir, að hann segði, að hallinn ætti að verða eftir till. okkar sjálfstæðismanna 3½ millj. kr. 1935.

Ég er þess fullviss, að þó að hæstv. ráðh. reyni að klína því á Sjálfstfl., að hann séu hirðulaus um afkomu ríkissjóðs, þá vinnur hann ekkert á með því. Sá flokkur er búinn að sýna það þá tíma, sem hann hefir haft stjórn landsins á höndum. Sá flokkur, sem á 3 stjórnarárum hefir lækkað skuldir ríkissjóðs úr 18 millj. kr. niður í 11 millj. kr. og þó haldið uppi verklegum framkvæmdum í allverulegum stíl, en haft til þess minni tekjur í ríkissjóð en oft síðan, hann þarf ekki að bræðast sleggjudóm hæstv. fjmrh., sem ennþá er nýgræðingur í þessum málum og hingað til hefir ekki verið talinn annað en vikapiltur þess manns, sem af minnstu viti hefir stjórnað málefnum þessa lands.

Þá er það hlægileg fjarstæða, að Sjálfstfl. vilji „slá niður kaupgetuna“, eða m. ö. o. hafa atvinnu á landinu sem minnsta. Þetta er hlægilegt af því, að meðal þess tæps helmings kjósenda landsins, sem fylla þennan flokk, eru einmitt þeir athafnamennirnir, sem mesta atvinnu hafa veitt, þeir mennirnir, sem mest hafa framkvæmt.

En úr því að hæstv. ráðh. minntist á stefnu Sjáfstfl. í fjármálum ríkissjóðs, þá er rétt, að ég skýri hana í stórum dráttum.

Sjálfstfl. hefir jafnan lagt mikla áherzlu á það, að ríkisbúskapurinn væri hallalaus, og að forðazt væri að safna skuldum, sem ríkissjóður á að standa straum af, nema til fyrirtækja, sem ætla má, að beri sig sjálf. Skattana vill hann ekki hafa hærri en svo, að framtak einstaklingsins njóti sín, en það gerir það ekki, ef skattar eru svo háir, að til lítils er að vinna, þó eitthvað græðist. Sjálfstæðismenn eru með öllu ótrauðir að taka á sig þunga skatta, ef þeim er réttlátlega skipt og fénu varið hyggilega. En það verður á hverjum tíma að taka tillit til, hvernig er ástatt um atvinnuvegina. Í þessu sambandi er rétt að benda á, að tekjuskattur hér á landi er nú orðinn miklu hærri en í nokkru öðru landi, sem ég þekki til, jafnvel þar, sem sósíalistar eru við stjórn.

Hér á landi ganga framsóknarmenn miklu lengra í þessum efnum en erlendir sósíalistar. Svipað má segja um einkasölurnar. Í Danmörku hefir t. d. lengi verið sósíalistastjórn, en ég þekki ekki þar eina einustu vörutegund, sem ríkið hefir tekið einkasölu á. Það er því ekki að undra, þótt við sjálfstæðismenn stingum við fótum, þegar framsóknarmennirnir hér taka einkasölu á hverri vörutegundinni eftir aðra og stefna þannig hröðum skrefum í þjóðnýtingaráttina. Og meira að segja lýsa því yfir, að ríkið eigi að verzla með það, sem eitthvað er upp úr að hafa, þ. e. a. s. þjóðnýta alla verzlunina.

Í sambandi við þetta vil ég einnig benda á og leiða athygli að því, að öll gjöld ríkissjóðs verða að greiðast annaðhvort af afrakstri atvinnuvega landsmanna eða af eign, sem þeir hafa sparað saman áður, eða með lántöku. Fleiri leiðir til skattgreiðslu eru ekki til. Lánaleiðina er ekki tilætlunin að fara, enda hefir verið gengið lengra á þeirri óhappabraut en hæfilegt er. Að leggja á landsmenn svo háa skatta eða heimta af þeim svo há gjöld í ríkissjóðinn, að taka verði af samanspöruðum eignum landsmanna, leiðir að síðustu til nákvæmlega sömu niðurstöðu og lánaleiðin, þ. e. til algerðs hruns, því að jafnvel þótt það megi hugsa sér að láta skattana bitna aðallega á þeim, sem standa upp úr fjárhagslega, þá kemur fyrr eða síðar að því, að þar er enginn öðrum hærri. Þá leggjast skattarnir á lítilmagnana með öllum sínum þunga, því að þá eru allir orðnir lítilmagnar. — Þarf þá ekki að rekja þá sögu lengur, enda hygg ég, að það sé almennt viðurkennt, að skattastefna, sem beinist að því að gera alla að öreigum, sé hámark heimskunnar. Geri ríkið þetta, tekur það að sér hlutverk svallarans eða eyðsluseggsins.

Ég geng þess vegna út frá því, að sú skattastefna ein sé heilbrigð, sem byggist á því, að ekki sé heimtað meira framlag af þegnunum til opinberra þarfa en sem nemur afrakstri atvinnuvega landsmanna og ef til vill vöxtum af samanspöruðu fé. En með því að nær allt eða a. m. k. mjög mikill hluti hins samansparaða fjár landsmanna er fast í atvinnutækjum, sem ekki bera sig, kemur það tiltölulega lítið til greina í þessu sambandi. Atvinnuvegir landsmanna verða því að bera uppi skattana, ef á viti á að byggja, og þá vaknar sú spurning, hvort atvinnuvegir vorir séu nú svo á vegi staddir, að þeir þoli þá gífurlegu skattahækkun, sem ríkisstj. krefst nú.

Ég hygg, að engum blandist hugur um, að ástand atvinnuveganna er nú þannig, að þeir þola ekki mikla skattaauka. — Vísa ég um það til þess, sem þegar er komið fram í þessum umr. og þykist ekki þurfa að færa að því frekari rök. —Þetta ástand virðist mér hrópa til okkar, sem nú sitjum á þingi, hárri röddu um það, að stilla kröfum í hóf, og þó einkum um það, sem leiðir af sér kaup á erlendum vörum. En stillir þá ríkisstj. kröfum sínum í hóf nú? Það gerir hún alls ekki. Það er eins og hún sé blind fyrir því ástandi, sem nú er. Hvað ætlar hún að gera, ef atvinnuvegirnir hrynja í rústir? Hvaðan ætlar hún þá að fá fé? Sennilega svarar hún því, að þá taki við þjóðnýtingin, enda sýnist nú kappsamlega að henni unnið, en þeir munu verða óþægilega margir, sem telja, að hún sé ekki bjargráð.

Það mun hæstv. stjórn áreiðanlega reka sig á: Ég benti á, að aðalatvinnuvegir landsins þurfa á beinum fjárstuðningi að halda af hálfu ríkissjóðs. Nú er ríkissjóðurinn ekkert annað en framlag atvinnuveganna og annara landsmanna, sem beint eða óbeint verða að lifa á atvinnuvegunum. Atvinnuvegirnir eru beint og óbeint aðalmjólkurkýr ríkissjóðsins. Þessi mjólkurkýr er sem stendur horuð og nytlág, og eigi hún að geta fullnægt sínu verkefni, því, að mjólka ríkissjóðnum, má ekki gera of háar kröfur til hennar í bili, meðan ástandið batnar ekki. Að ætla sér að láta ríkissjóðinn fleytifyllast meira en nokkru sinni fyrr fyrir beinan og óbeinan atbeina atvinnuveganna, samtímis og atvinnuvegirnir þarfnast stuðnings úr ríkissjóði, er og verður svikamylla, sem ekki getur gengið til lengdar.

Ég tók eftir því í ræðu þeirri, sem hæstv. fjmrh. flutti hér um fjárlagafrv. við fyrri hluta þessarar umr., að honum óx alls ekki í augum gjaldaupphæð frumvarpsins. Hann lét skína í gegn, að það væri ekki ógurlegt, þó að hann vildi fá um 14 millj. kr., því að árið 1932 hefðu gjöld ríkissjóðs verið 13,9 millj. kr. og 1933 um 14,7 millj. kr. En það skjátlast honum. Fyrst og fremst er nú það að athuga, að reynslan hefir jafnan sýnt, að gjaldahlið fjárl. hefir hækkað í meðferð þingsins, enda er það ekki nema eðlilegt, því að þingið vill hafa ofurlítið hönd í bagga með fjárveitingum úr ríkissjóði. Þannig má benda á, að þetta fjárlagafrv. hækkar gjaldamegin um 200 þús. kr. hér um bil, ef till. meiri hl. fjvn. verða samþ. Og hver veit, hvað gjöldin eiga eftir að hækka þess utan vegna till. einstakra þm. við 2. umr. og 3. umr.

Í öðru lagi fer ástandið stöðugt versnandi, og í þriðja lagi má hæstv. fjmrh. ekki vera svo mikið barn að halda, að á heilu ári komi ekki fram miklar óvæntar greiðslur. Svo hefir þetta jafnan verið, og svo verður það enn. Ég vil benda á, að slíkar greiðslur hafa oft numið milljónum og sjaldan eða aldrei undir 1 millj. kr. Þessar greiðslur koma jafnvel þótt reynt sé að áætla rétt, þær koma fyrir rás nýrra viðburða, sem enginn getur séð fyrir. Það hefir oft verið reynt fyrr að búa til réttar áætlanir, en rás viðburðanna hefir jafnan truflað þær að meira eða minna leyti. Ég sé t. d. ekki, að í fjárlagafrv. nú sé tekið neitt til greiðslu á þeirri milljón, sem síldareinkasalan sáluga væntanlega eftirlætur ríkissjóði til greiðslu, og eitthvað þarf þó væntanlega að greiða af þessu á næsta ári. — Svona getur verið og áreiðanlega er ýmislegt fleira. Það er því áreiðanlegt, að þegar landsreikn. 1935 kemur, þá verður gjaldaupphæð hans miklu hærri en gjaldaupphæð þess frv., sem hæstv. stj. hefir lagt fyrir þingið.

Fjvn. þingsins hefir nú nýlega lokið störfum í bili, og nú hefir það komið fyrir, sem sjaldgæft er, að nefndin hefir klofnað. Í meiri hl. eru framsóknarmennirnir 3 og Alþfl.mennirnir 2, en í minni hlutanum eru 4 sjálfstæðismenn. Flokksmenn stj. hafa yfirleitt algerlega fallizt á stefnu stj., og enda gengið feti framar, þar sem þeir leggja til, að gjaldabálkur fjárl. hækki um 200 þús. kr. Við sjálfstæðismennirnir í n. höfum aftur á móti komið með lækkunartill., sem samtals nema milli 6 og í hundr. þús. kr. Þessar till. hafa verið teknar til umr. hér af hæstv. atvmrh. og ekki verið tekið blíðlega. Er það óvenjuleg aðferð, að gera slíkt áður en flm. hafa haft nokkurt tækifæri til þess að mæla fyrir sínum till. og rökstyðja þær.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. við fyrri hluta þessarar umr. og í ræðu hæstv. atvmrh. á föstudaginn var, að stj. hefði talið mikla þörf á að auka framlög til verklegra framkvæmda vegna væntanlegs atvinnuleysis á næsta ári. Nú er það fjarri mér að neita því, að atvinnuleysi hljóti að vaxa, ef lítið er um verklegar framkvæmdir. Og ég viðurkenni það vitaskuld, að verkamenn eiga nákvæmlega sömu kröfu gagnvart ríkisvaldinu og aðrir landsmenn, um að gætt sé hagsmuna þeirra. En mér virðist hæstv. stj. alveg hafa gleymt því, þegar hún var að meta atvinnuhorfurnar næsta ár, að það er talið fullvíst, að á því ári verði hafið langstærsta framkvæmdafyrirtæki, sem nokkru sinni hefir verið af hendi leyst á landi hér, og á ég þar við Sogsvirkjunina. Borgarstjórinn hér í bænum er nú erlendis til þess að taka lán til þessarar virkjunar, og er nú allur undirbúningur undir byrjun verksins á enda, að því er ég bezt veit, og lán fáanleg með viðunandi kjörum á fleiri en einum stað.

Þetta mannvirki, Sogsvirkjunin, mun kosta um 6 millj. kr., og eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið, munu verkalaun við þessa framkvæmd nema allt að 2 millj. kr. Verkið á að vinna á þrem árum, 1933, 1936 og 1937. Þetta þýðir, að verkalaun, sem fyrirtæki þetta greiðir til jafnaðar árlega, verða varla undir 600 þús. kr. Hér er því um stórfellda atvinnuaukningu að ræða, svo stórkostlega, að hún nemur meiru en ætlað er til viðhalds þjóðvega á öllu landinu og nær tvöfalt meiru en ætlað er til nýrra vega, en vegirnir eru einmitt þær framkvæmdir hins opinbera, sem ég hygg gefa mesta vinnu. Ég fæ því ekki séð, að útlitið með atvinnu verkamanna á næsta ári sé slæmt. Þvert á móti sýnist mér vera von meiri vinnu en venja er til, jafnvel þótt atvinnuvegirnir dragi eitthvað saman seglin, sem við má búast. Undir þessum kringumstæðum fæ ég ekki betur séð en að Reykjavík og nærsveitir hennar verði vel settar um atvinnu, en einmitt í Reykjavík hefir bróðurhlutinn af atvinnubótafénu farið.

En svo er annað í þessu sambandi, sem verður að minna á, og það er landbúnaðurinn. Ríkisvaldinu ber vissulega skylda til þess að gera ekki ráðstafanir, sem miða til þess að draga frá honum vinnukraftinn svo að til vandræða horfi. En á því er einmitt mjög mikil hætta, ef saman fara stórmiklar framkvæmdir bæði hjá ríkissjóði og öðrum. Ég lít svo á, að þegar miklar framkvæmdir eru hjá bæjar- eða sveitarfélögum eða einstökum mönnum, þá eigi ríkissjóður að draga inn seglin. Ríkissjóðurinn á að vera sá, sem skapar jafnvægið í framboði og eftirspurn vinnu frá ári til árs, því að ella koma sveiflur, sem bæði atvinnuvegum og verkamönnum eru til bölvunar. Sé þetta ekki gert, skiptast á atvinnuleysisár og atvinnunægtaár. Landbúnaðurinn þarf á aðkeyptum vinnukrafti að halda á sumrin, en hvar á hann að fá hann, ef ríki, bæjar- og sveitarfélög og aðrir atvinnuvegir hlaupa með miklum krafti í kapp við hann, bjóðandi kaup, sem landbúnaðarframleiðslan getur ekki keppt við vegna afurðaverðsins.

Þessi atriði, sem ég nú hefi bent á, virðast mér meginatriði, þungamiðja alls þessa máls. En þessu sýnist mér hæstv. stj. hafa skellt skollaeyrum við. Þær skoðanir, sem ég hér hefi haldið fram, er mér óhætt að segja, að eru skoðanir Sjálfstfl. í þessum málum. Stjórnmálaflokkarnir virðast vera á þveröfugri skoðun, en ég er sannfærður um, að þeir eru á villigötum, og ég er reiðubúinn að taka upp frekari umr. um þetta hvenær sem er og hvar sem er. Í þeim tíma, sem mér er ætlaður nú, get ég ekki rökstutt þetta frekar, en vera má, að ég gangi nokkru nánar inn á þetta við 2. umr.

Að athuguðu öllu því, sem ég hefi sagt, vænti ég, að mínir háttv. tilheyrendur nær og fjær sjái nauðsynina á lækkun gjaldanna og telji, að till. okkar minnihlutamanna séu á rökum reistar. En ég gæti ímyndað mér, að einhverjir, sem fjærri búa Reykjavík, mundu segja sem svo: Það er gott og blessað, að Reykjavík og nágrenni nýtur góðs af hinum miklu framkvæmdum við Sogið, en ekki nýtur allt landið góðs af því, og hvernig er þá séð fyrir aukinni atvinnu hjá okkur? Við þessu er því að svara, að eftir till. okkar minnihlutamanna á atvinnubótaféð að vera jafnhátt og það er nú áætlað í fjárl. yfirstandandi árs, eða 300 þús. kr. Reykjavík hefir hingað til fengið helming eða meira af þessu fé, en vegna Sogsvirkjunarinnar hlýtur framlagið til hennar að geta minnkað mikið, og þá verður líka miklu meira til útbýtingar í öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þá skal ég og nefna það, að gert er ráð fyrir miklum auknum vegagerðum, einmitt af því að þær skapa mikla atvinnu, en tiltölulega lítið þarf til þeirra að kaupa frá útlöndum. — Í sambandi við vegina minnist ég þess, að í ræðu hæstv. atvmrh. var hann með slettur til okkar minnihlutamanna fjvn. um það, að okkur mundi hafa langað til að skera niður vegaféð, en ekki þorað það vegna kjósendanna. Þetta eru ósæmilegar getsakir, og skora ég á þennan ráðh. að rökstyðja þessi ummæli sín eða taka þau aftur, sem sæmst væri. Hæstv. stj. ætti annars að tala sem minnst um vegaféð, eða a. m. k. skiptingu þess milli kjördæmanna, því að það mun verða sýnt fram á í umr. þessa máls, hve geysileg hlutdrægni kemur fram í þeirri skiptingu.

Ég tók svo eftir, að hæstv. atvmrh. segði í ræðu sinni um þetta mál um daginn, að eftir till. stj. hefðu framlögin til verklegra framkvæmda verið hækkuð um rúmlega 1 millj. kr. frá því, sem er í fjárl. yfirstandandi árs, og mátti jafnvel skilja á orðum hans, að sú upphæð færi öll til verkamanna í landinu. En það er nú eitthvað annað. Ég geri ráð fyrir, að það muni ekki vera mjög fjarri sanni, að helmingur þessa fjár fari til útlanda fyrir efni, því að mikið af þessu eru framkvæmdir, sem mikið útlent efni þarf til, svo sem húsbyggingar, símalagningar o. fl. Fer það alveg í bága við þá stefnu, sem stj. annars þykist fylgja, er hún með þessu vill auka kaupin frá útlöndum, og þetta er þveröfugt við það, sem fjmrh. sagði í ræðu sinni um aukning kaupgetunnar án þess að hún beindist að erlendum kaupum. En till. okkar sjálfstæðismanna eru einmitt miðaðar við það, að fella niður nú um sinn þær framkvæmdir, sem kosta mikinn aukinn innflutning, með sérstöku tilliti til, að á döfinni er framkvæmd stórfelldasta fyrirtækisins, sem hér hefir verið unnið. Það, sem við leggjum til að fella burt, nemur fyrir verkamenn miklu minna en aukningin af Sogsvirkjuninni, og þó að okkar till. verði samþ., þá eru samt auknar framkvæmdir ríkisins frá því, sem verið hefir, og að meðtalinni Sogsvirkjuninni er aukningin ákaflega mikil, svo mikil, að það eru ekki líkur til, að svo miklu sé hægt að halda uppi að staðaldri, og þá er betra að fara hægara og reyna að hafa meiri jöfnuð á. Það verður öllum fyrir beztu. Ég er líka sannfærður um, þótt hæstv. stj. vilji kannske ekki viðurkenna það, að hún sér það, að það má ekki, eins og nú er ástatt, heimta meiri framlög af landsmönnum til opinberra þarfa en hægt er að komast af með, og þegar það er vegið og metið, þá ber auðvitað að taka tillit til hinnar gífurlegu atvinnuaukningar, sem Sogsvirkjunin veitir. Ég vísa þess vegna algerlega á bug öllum aðdróttunum úr garði hæstv. stj. um það, að till. okkar minnihlutamanna fjvn. séu vanhugsaðar eða af illum vilja sprottnar.

Ég læt svo úttalað um þetta mál í bili, en ætla í fáeinar mínútur að snúa máli mínu til hæstv. forsrh.

Á flokksþingi framsóknarmanna í marz í fyrravetur flutti hæstv. forsrh. erindi, sem hann nefndi „Dómsmál og réttarfar“. Þetta erindi var síðan prentað í Tímanum 9. júní í sumar, eða hæfilega löngu fyrir kosningar til þess að það væri komið út um allt land á undan þeim. Um sama leyti skoraði hann á mig að mæta sér á fundum í kjördæmi mínu, og þar flutti hann þetta erindi enn á öllum fundum, þar sem við vorum saman. Aðalefnið í þessu erindi hans, sem hann reyndi svo vel að breiða út, voru svæsnar árásir á dómsmálastjórn mína, og bar þar mest á hinu svonefnda Björns Gíslasonar máli. Björn var dæmdur í hæstarétti um mánaðamótin febr. og marz 1933, en með því að hann kom með læknisvottorð um, að hann þyldi ekki heilsunnar vegna að taka út refsingu, var framkvæmd refsingarinnar frestað. Það var nú þessi frestun, sem olli því, að hæstv. forsrh. gerði harða hríð að mér. Hann hélt því fram, að ég héldi hlífiskildi yfir hættulegum manni og sagði, að með slíkri meðferð væri lögreglustjórum landsins gert illmögulegt að halda uppi lögum í landinu, því að það væri stöðugt viðkvæði hjá lögbrjótunum, að það væri undarlegt að vera að ónáða sig, úr því að Björn Gíslason væri látinn vera laus. Hann setti málið þannig fram, að hér væri af minni hálfu viðhaft svonefnt „hvítbrystingaréttarfar“, þ. e. a. s., að ómögulegt væri að láta þá, sem eru einhvers megandi, taka út refsingu.

Ég tók það fram, að refsingu var í byrjun frestað vegna læknisvottorða, en eftir að talsverður tími var liðinn, var þess krafizt af hinum dæmda, að hann fengi ný vottorð um heilsu sína, til þess að hægt væri að ganga úr skugga um, hvort heilsa hans stæði enn í vegi fyrir úttekt refsingar. En þá brá svo við, að læknar hliðruðu sér hjá að gefa ákveðin vottorð um heilsu hans, því að þeir læknar, sem upprunalega gáfu vottorð um heilsu hans, höfðu verið skammaðir hinum blóðugustu skömmum í blöðum. Niðurstaðan varð því sú, að maður þessi gat ekki fengið sér læknisvottorð, sem væri nægilega ótvírætt til þess að enn væri frestað úttekt refsingarinnar. Hann varð því að fara að Litla-Hrauni til að taka út refsinguna í maí í vor, ef ég man rétt, en undir mánaðamótin júlí og ágúst í sumar flutti fangavörðurinn hann hingað og tilkynnti, að hann gæti ekki lengur haft hann sökum veikinda, og yrði að fresta úttekt refsingarinnar. Þannig stóð þetta mál þegar stjórnarskiptin urðu síðast í júlí í sumar.

Nú kom til kasta hæstv. forsrh., mannsins, sem mest hafði ráðizt á mig fyrir að fresta úttekt refsingarinnar sökum heilsuleysis hins dæmda. Og hvað gerir hann þá, þessi eftirmaður minn, þessi mikli vandlætari, þessi lögreglustjóri, sem svo hafði stórhneykslazt á mínum aðförum í málinu? Ja, — þar kemur rúsínan í pylsuendanum. Hann frestar úttekt refsingarinnar alveg eins og ég gerði. Og hann gerir meira. — Hann leyfir manni þessum að fara til útlanda, og veit ég ekki, hvenær hann kemur, en ókominn hygg ég að hann sé.

Mér hefir þótt gott að geta notað þetta tækifæri til þess að geta komið þessari skrítnu sögu um land allt á einu augnabliki. Það er ekki sjaldgæft í stjórnmálum að verða fyrir árásum, en það er sannarlega sjaldgæft að geta sýnt og sannað, að sá, sem árásina gerir, fari nákvæmlega eins að um nákvæmlega sama efni viðkomandi sama manni og sá, sem fyrir árásinni varð. Ef ráðh. sá, sem hér á hlut að máli, vildi hegða sér sæmilega, ætti hann að biðja opinberlega fyrirgefningar á hinu fruntalega frumhlaupi sínu og því að hafa flutt algerlega rangt mál til liðsauka sér og sínum flokki. En það tek ég skýrt fram, að ég býst alls ekki við slíku af þessum ráðherra. Til þess tel ég mig þekkja hann allt of vel. Ég get ekki búizt við þessu af manni, sem hefir lagzt lægra í pólitískum tilgangi í minn garð en nokkur annar, ef til vill að einum manni undanskildum.