03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það, sem greinir á milli meiri hl. og mín í minni hl., er, hvernig þessu fé, sem um ræðir í frv., verði heppilegast úthlutað. Ég held, að ekki geti verið ágreiningur um það, að þegar ríkissjóður leggur fram eða gefur eftir fé af tekjum sínum til hjálpar, þá sé rétt, að meiri hjálp falli í hlut þeirra, sem verr eru staddir, heldur en hinna, sem síður þurfa á hjálp að halda. En um þetta er deilt hér. Þó að ég hefði löngun til að rétta betur hlut þeirra, sem verst hafa orðið úti, hefi ég eigi séð mér fært að ganga lengra en brtt. mín fer fram á, en það er miðlunartill. í þá átt, að uppbótin miðist að hálfu við aflamagn og að hálfu við veiðitíma, og að þeir skipverjar, sem hafa fengið yfir 7 kr. jafnaðarverð fyrir hverja tunnu eða meira, fái ekki uppbót. Hæstv. atvmrh. minntist á, að fá yrði vitneskju um tekjur sjómannanna utan síldveiðitímans. En því er nú svo varið um norðlenzka sjómenn a. m. k., að aðaltekjur þeirra eru af síldveiðinni, og útkoman hjá þeim í ár hefir verið svo léleg, að nær því mun einsdæmi. Það er sýnilegt, þar sem þeir geta ekki notað vetrarvertíð, að aðaltekjur þeirra eru af síldarvertíðinni. En með því að miða uppbótina að hálfu leyti við aflamagnið og að hálfu leyti við veiðitímann er þó reynt að gera þeim nokkra úrlausn. Réttlæti og samræmi í þessari úthlutun verður vitanlega að standa á reikning þeirra, sem hér fara með völd. En ég vildi láta það koma sérstaklega fram, hve hlutur norðlenzkra sjómanna er fyrir borð borinn, þar sem þeir hafa aðaltekjur sínar af síldveiðunum. En treystist þingmenn Norðlendinga að ganga þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, er auðvitað ekki mikið um það að segja. En ég vænti, að þeir geri sér ljóst, að samkv. till. meiri hl. n. er ekki bætt úr lélegri afkomu norðlenzkra sjómanna á viðunandi hátt.