03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, skal ég taka það fram, að ég mun síðar færa honum skýrslu yfir meðalverð síldarinnar á umræddu tímabili. Ég hefi ekki gögnin hér meðferðis, en ef mig hefir misminnt, þá er sjálfsagt að leiðrétta það.

Í sambandi við það, að hv. 1. þm. Reykv. álítur, að útgerðin sé alltaf að tapa, vil ég leggja fyrir hann eina spurningu. Hvers vegna er eins og komið sé við hjartað í útgerðarmönnum, ef talað er um, að bæjar- eða jafnvel samvinnufélög eigi að taka við rekstri útgerðarinnar? Það lítur svo út, þrátt fyrir þetta mikla „tap“, sem vinnst upp á öðrum tíma, að þessir menn vilji ekki missa af þessu. Þetta er ekki til þess að styðja eða sanna það, að reksturinn sé svo rýr, að ekki sé unnt að lifa af honum. Við vitum það allir, að það er almenn skoðun í landinu, að það opinbera eigi að grípa inn í, þegar einstaklingarnir gefast upp við atvinnureksturinn. En þetta má ekki eiga sér stað undir neinum kringumstæðum, að dómi hv. þm. og flokks hans.