20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 6. þm. Reykv. hneykslaðist á því, að frv. þetta væri borið fram vegna sérstaks atviks, sem komið hefði fyrir. Mér sýnist þetta þó varla geta verið hneykslunarefni. Það er nú svo, að við löggjafarnir sjáum ekki fyrir hin einstöku atvik, sem fyrir koma í lífinu, svo að l., sem við setjum, ná ekki til þeirra flestra, heldur kenna okkur að breyta l., sem við höfum sett. Er þetta alþekkt. Sé ég því ekki, að ástæða sé til að mótmæla frv. á þessum grundvelli, nema síður sé, þar sem reynslan þannig hefir sýnt, að ákvæði vantar í lögin um þetta atriði, sem frv. fjallar um.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. minni hl. sagði, sé ég enn ekki betur en að hann misskilji alltaf ákvæði frv. Hv. frsm. tekur ekki gr. í samhengi, heldur slítur hana í sundur, því að ef fyrri hl. gr. er tekinn með, þar sem tilskilið er, að svo sé ástatt, að eigi hafi náðst meiri hl. bæjarstj. fyrir kosningu bæjarstjórans, verður það ótvírætt, að átt er við almenna andstöðu, að meiri hl. bæjarstj. sé í flokkslegri og málefnalegri andstöðu við bæjarstjórann, sem gerir það að verkum, að hann getur orðið algerlega óhæfur til að fara með starfið. Það er alveg það sama, sem á að gilda í bæjarstj. eins og í þingræðinu, að ríkisstj. þarf að hafa meiri hl. þings að baki sér, ef hún fær að sitja við völd. Ef svo fer, að stj. lendir í minni hl. í þinginu, og ekki er hægt að afla henni meiri hl., þá verða almennar kosningar að fara fram. Alveg hið sama á að gilda í bæjarstjórnum. Ef bæjarstjóri er ekki í samræmi við meiri hl. bæjarstj., þá verður efnt til nýrra kosninga, til þess að vita, hvort ekki er hægt að fá breyt. á bæjarstj., þannig að meiri hl. hennar geti komið sér saman um bæjarstjóra. Þetta er hið einfalda aðalatriði í málinu, og annað skiptir ekki neinu máli.