03.11.1934
Efri deild: 29. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þegar málið var afgr. í n., var einn nm. (PM) fjarstaddur sökum veikinda. Eins og stendur í nál., er ókunnugt um hans afstöðu. Það hefir engin brtt. komið frá honum, og mun hann gera grein fyrir sinni afstöðu hér í hv. d.

Meiri hl. n. lítur svo á, að eins og nú standa efni til, þá sé rétt að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Um tilefni þess skal ég ekki fjölyrða. Það er í raun og veru landskunnugt; en slík tilefni geta komið fyrir á fleiri en einum stað. Það er því nauðsynlegt, að einhver ákvæði séu í lögum, sem tryggja það, að hægt sé að skapa fullkomið lýðræði innan bæjarstj., þannig að hverjir sem eiga að stjórna málefnum bæja hafi að baki sér löglegan meiri hl. Bæjarstj., sem styðst við minnihlutavald, getur engum stefnumálum fram komið. Þess vegna er nauðsynlegt, að með löggjöf sé gert mögulegt, að á bak við bæjarstjóra standi meiri hl., er hann má treysta á. Það skal játað, að frv. tekur ekki út yfir öll hugsanleg atvik í þessu efni. Náist ekki flokkslegur meiri hl. við eina kosningu, þá kemur til athugunar, hvort kosið skuli aftur.

Sé um marga flokka að ræða, er fulltrúa hljóta við kosningu, og enginn einn flokkur hefir meiri hl., þá er ávallt til staðar sá möguleiki, að fleiri flokkar vinni saman og beri ábyrgð á stjórn bæjarfélagsins. En sé ekki sá möguleiki fyrir hendi, verður að viðhafa þá aðferð, sem frv. fer fram á. Þessi hugsun liggur á bak við frv. þetta, sem meiri hl. n. leggur til, að samþ. verði eins og það liggur fyrir.