19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er komið frá Nd. og hlaut þar góðar undirtektir. Það miðar að því, að hafizt sé handa um stofnun nýrra iðngreina. Það er gert ráð fyrir því, að fyrsta iðnfyrirtækið í hverri nýrri iðngrein fái þau hlunnindi, að losna við greiðslu útsvara og tekju- og eignarskatts fyrstu 3 árin. Þó er það skilyrði sett, að fyrirtækið leggi arð sinn óskiptan í varasjóð fyrirtækisins, að frádregnum mest 4% af stofnfé. Iðnn. þessarar hv. d. hefir haft frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. Þó ber n. fram eina brtt. í þá átt, að þessara hlunninda geti einnig nýstofnuð iðnfyrirtæki notið. Frv. gerir ráð fyrir, að það verði aðeins þau fyrirtæki, sem stofnuð verða eftir að lögin ganga í gildi, en brtt. heimilar atvmrh. að lofa einnig iðnfyrirtækjum, sem áður voru stofnuð, að verða þessara hlunninda aðnjótandi, þó með þeim takmörkunum, að þessi fyrirtæki séu ung. Till. ætlast til þess, að þau hafi ekki áður greitt útsvar eða tekju- og eignarskatt. Það er sérstaklega með hliðsjón til eins fyrirtækis, sem n. flytur þessa brtt. Það er veiðarfæragerð Íslands. Hún hefir sótt um, að svona yrði gengið frá frv., og þar sem n. er kunnugt um, að þetta er gott og þarft fyrirtæki, vill hún stuðla að því, að þetta geti orðið, ef þessi fyrirtæki uppfylla önnur skilyrði, sem frv. gerir ráð fyrir. N. þótti rétt að miða þetta við það, að ekki hefði verið greitt útsvar eða tekju- og eignarskattur áður, því að þá þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess að greiða fyrir slíkum fyrirtækjum, og eins næst þá hitt, að ekki verður um að ræða endurgreiðslu útsvars eða tekju- og eignarskatts, sem áður er búið að greiða. — Ég þarf ekki að tala meira um þetta að sinni. Ég legg til f. h. iðnn., að frv. verði samþ. með þessari brtt. á þskj. 498.