22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og nál. menntmn. á þskj. 518 ber með sér, þá er n. sammála um flest atriði þessa frv. Það er aðeins eitt atriði, sem nokkur ágreiningur hefir orðið um, þar sem ég og hv. þm. S.-Þ. leggjum það til, að frv. verði samþ. óbreytt, en þriðji nm., hv. 5. landsk., hefir skrifað undir nál. með fyrirvara að því er snertir kosningu Alþingis til útvarpsráðs.

Við 2 nm. lítum svo á hvað þetta snertir, að eðlilegt sé, að Alþ. eigi sína fulltrúa í útvarpsráðinu. Ég þykist vita, að það verði haft á móti þessu, að fulltrúar þeir, sem Alþ. kýs, muni verða fulltrúar stjórnmálaflokka og skoða sig sem slíka í útvarpsráðinu. Þetta er náttúrlega alveg rétt. Þeir verða kosnir af stjórnmálaflokkum og verða þeirra fulltrúar, en ég hygg, að hvernig sem að verður farið við skipun útvarpsráðs, þá verði ekki hjá því komizt, að í því sitji alltaf menn, sem hafa einhverjar ákveðnar pólitískar skoðanir. Það er svo með flesta Íslendinga, að þeir hafa ákveðnar pólitískar skoðanir og telja sig flestir til einhvers ákveðins stjórnmálaflokks. Ég sé þess vegna að þessu leyti ekki mikinn mun á því, hvort maðurinn er beint kosinn af Alþingi, og af pólitískum flokkum þar, eða hvort hann er kosinn af einhverjum öðrum. Þegar það verður þess vegna svo, a. m. k. að áliti okkar 2 nm., að í útvarpsráðinu verða að sjálfsögðu menn með ákveðnar pólitískar skoðanir, og þess vegna alltaf hætt við, að grunur falli á um pólitíska hlutdrægni, hvort sem ástæða er til þess eða ekki, þá álítum við þó a. m. k. bót að því, að þær pólitískar stefnur, sem til eru í landinu, njóti jafnréttis og eigi þarna fulltrúa í hlutfalli við það fylgi, sem þær hafa. Það eru sjálfsagt allir sammála um það, að ríkisútvarpið eigi ekki undir neinum kringumstæðum að vera pólitískt hlutdrægt, og ég hygg, að ein bezta vörnin gegn því, að útvarpið verði pólitískt hlutdrægt, sé einmitt sú, að allir þeir stjórnmálaflokkar, sem nokkurs mega sín, eigi fulltrúa í útvarpsráðinu, til þess að gæta þess, að ekki sé gengið á rétt neins einstaks flokks.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér sögu útvarpsins. En það hefir verið svo hingað til, að pólitík hefir ekki verið útilokuð þar að því leyti, að leyfðar hafa verið stjórnmálaumræður, og þá hefir, að því, er virzt hefir, fyllsta jafnréttis verið gætt. Jafnvel þeir flokkar, sem svo lítið fylgi hafa haft með þjóðinni, að þeir engan fulltrúa hafa átt á Alþ., hafa þar fengið að halda fram sinni skoðun eins og þingflokkarnir.

Hvað snertir skipun útvarpsráðs að því leyti, að útvarpsnotendur kjósi 3 menn í það, þá hefir n. orðið sammála um, að það sé heppilegt og sanngjarnt, því vitanlega varðar útvarpsnotendur það mestu, hvernig rekstri útvarpsins er hagað og hvaða dagskrárefni þar er haft. Við kosningu þessara manna býst ég við, að fleira geti komið til greina heldur en stjórnmál. Það er mjög líklegt, að menn, sem eiga einhver sameiginleg hugðarefni á öðrum sviðum, taki sig saman og beri fram lista, t. d., að kirkjulega sinnaðir menn beri fram sérstakan lista, o. s. frv.

Þetta er 2. umr. málsins og þar af leiðandi á ekki við að fara að ræða málið almennt, og þar sem engar brtt. liggja fyrir frá n., þá hefi ég ekki ástæðu til þess að tala frekar um einstök atriði frv. Það hefir ekki orðið ágreiningur um nema þetta eina atriði í n., og mælir hún með frv. óbreyttu að öðru leyti en því, sem áður er frá skýrt. Hinsvegar vil ég ekki staðhæfa, að það geti ekki verið einhver smáatriði í frv., sem betur mættu fara, en n. hyggur þó, að það sé a. m. k. ekki um nein stórvægileg atriði að ræða. N. athugaði málið rækilega og bar frv. saman við eldri l., og fann ekki neitt, sem brýn nauðsyn væri til að breyta, a. m. k. ekki svo mikil nauðsyn, að það borgaði sig að láta frv. fara að hrekjast á milli d. fyrir þær sakir.

Ég sé, að hér er komin brtt. við frv. frá hv. þm. Dal. og hv. 10. landsk. N. hefir ekki haft tækifæri til þess að athuga hana, þar sem henni mun hafa verið útbýtt hér á fundinum. Mun ég ekki heldur ræða um hana, a. m. k. ekki fyrr en hv. flm. hefir tekið til máls.