20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki löng aths., sem ég þarf að gera. Ég hefi fengið skýringu á sumum atriðum, sem ég spurði um, og skal ég ekki nefna þau.

Ég vil taka fram, út af því, sem hv. frsm. sagði um sjútvn., að ég sé ekki ástæðu til þess að taka þessi brottrekstrarmál úr höndum dómstólanna, því að þar er hlutlaus dómur um þau bezt tryggður. Ég er ekki í raun og veru að væna þennan hv. þm. um hlutdrægni, en komið gæti fyrir, að hann líti öðrum augum á málið heldur en rétt væri vegna aðstöðu sinnar til þess ráðh., sem framkvæmdi brottreksturinn.

Viðvíkjandi kaupdeilunum er það að segja, að það á engin lögregla að taka þátt í kaupdeilu. Lögregla á aldrei að gera annað en halda uppi lögum og reglu, svo þetta er ekkert sérstakt fyrir lögregluna á sjónum. Hv. frsm. sagði, að þetta ákvæði væri til þess að fyrirbyggja, að skipin lægju inni vegna kaupdeilna, og landhelgin þar af leiðandi yrði óvarin, og ennfremur til að fyrirbyggja, að menn færu af skipum eða segðu upp með mjög skömmum fyrirvara. Þessu er ég samþykkur og tel þá því náð í þessu efni, sem þarf. Þá eru laun skipherranna. Hv. frsm. viðurkenndi, að þeir hefðu verið beittir nokkurskonar misrétti 1928. Það er gott að fá játningu hans um þetta, en jafnframt vil ég minna hann á, að hann sjálfur var einn af þeim, sem frömdu þetta misrétti 1928, þótt honum væri þá rækilega á það bent. Þá vildi hann ekki viðurkenna það, en nú kemur hann með till. um að hækka þau eins mikið og hann lækkaði þau þá. Þetta kalla ég að snúast í hring. En það er ekki nema góðra gjalda vert, ef rangt hefir verið farið að í byrjun. En ég held ekki, að fært sé að selja launin eins há og hann vill. Ég geri ráð fyrir, að hann viti, að skipstjórar strandferðaskipanna hafa 11—12 þús. kr. á ári, og alls ekki minna en 10 þús. Þeir hafa svonefnt strandferðagjald, en föstu launin eru um 10 þús. kr., og þá þykir mér snúningurinn nokkuð skarpur síðan 1928, ef nú á að setja launin hærri en þá.

Ég get ekki stillt mig um að benda á hinn eftirtektarverða snúning hv. frsm., og sennilega beggja stjórnarflokkanna.