27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Magnús Guðmundsson:

Ég óskaði eftir við 2. umr. að fá yfirlit yfir, hver útgjaldaauki yrði að því að samþ. frv. Þetta hafa hv. flm. ekki upplýst, en mér sýnist, að hann muni nema um 30 þús. kr. á öllum skipunum, ef ráða ætti í þau samkv. frv. Það kann að vera, að hv. stuðningsmönnum stj. sýnist þetta ekki muna miklu, en mér finnst það talsverð upphæð. Mér virðast laun þessara manna ekki heldur svo lág, að ástæða sé til þess að hækka sum þeirra eins mikið og frv. ráðgerir. 1. vélstjóri mun hafa um 6900 kr., en gæti samkv. frv. komizt í hærri laun en hæstaréttardómarar. Sama er að segja um skipstjóra. Þeir hafa nú 8600 kr., en mundu fá 10600 kr. eftir frv. og komast hærra en ráðh. Mér finnst lítið samræmi í því, ef stjórnarflokkarnir ætla að samþ. þetta, en fella jafnframt niður dýrtíðaruppbót af öllum launum, sem fara yfir 4000 kr., því mér skilst, að flestir starfsmenn skipanna verði fyrir ofan 4 þús. Ég ætla ekki að greiða atkv. um frv., en mun lofa stjfl. að hafa heiðurinn af því, hvað þeir gera við það. Ef til vill verður það svo athugað á eftir.

Brtt. þeirra hv. 4. þm. Reykv. og 4. landsk. á þskj. 212 er ekki til bóta. Ég benti á við 2. umr., að skipunarbréfin mundu vafalaust vera í fullu gildi sinn ákveðna tíma, og ætti að fella þau áður úr gildi, væri rétt að láta ganga dóm um það eftir launalögum. Í brtt. er ekki gert ráð fyrir, að það eigi að tryggja mönnum sama starf, þó breyt. yrði gerð, heldur aðeins eitthvert starf.

Ég hefði kunnað bezt við að láta fara um þetta eftir því, sem lög standa nú til, enda sé ég ekki ástæðu til annars.