04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Hannes Jónsson:

Ég verð að þakka hv. þm. V.-Ísf. fyrir þann kost, sem hann gaf á því að ná því takmarki, sem hér um ræðir. Það eru litlar líkur til þess, að þingflokkar, sem hafa sína menn í verksmiðjustj., fari að breyta til um menn, nema sérstök ástæða sé fyrir hendi, og það væri e. t. v. gott fyrir síldarverksmiðjurnar, ef svo óheppilega tækist til um val, að flokksmönnum þess manns, sem kjörinn væri, þætti óhjákvæmilegt að skipta um og gerðu það. Annars á þetta ekki að koma til mála. Á þessu sést, að hér er í rauninni verið að setja löggjöf um síldarverksmiðjur, án þess að raunverulega sé verið að stefna að öðru marki en því, að ná meiri hluta í stj. Það getur vel farið svo, að stj. sé ekki sama um, hver verður formaður síldarverksmiðjustj., og það er ekki víst, að hlutaðeigandi stj. eða ráðh. uni vel við þetta atriði, enda þótt hann eigi fulltrúa í n., sem er ekki eins valdamikil og formaður, því að vitanlega hefir formaður mest að segja í verksmiðjustj., sem eðlilegt er.

Annars vil ég taka það fram, að varla er hægt að segja með sanni, að atvmrh. hafi ekki fulltrúa í stj. Að vísu er hann ekki með reglulegu flokksmarki, en hann er náinn samstarfsmaður; a. m. k. trúa þessir tveir flokkar hvor öðrum og treysta hér á þingi.

Ég vil að lokum mælast til þess, ef hv. þm. V.-Ísf. vill vel gera í þessu máli og draga síldarverksmiðjurnar út úr „pólitískri“ togstreitu, að hann breyti till. sinni á þann hátt, að n. verði skipuð til 1 árs. Á þessu er engin hætta, því að flokkurinn styður vitanlega sinn mann áfram við kosningu á næsta þingi, og svo áfram á meðan hann þykir starfi sínu vaxinn og gerir engar skyssur.