27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég get ekki orða bundizt út af brtt. þeirri, sem hér hefir verið útbýtt á þskj. 212. Og þó er ég sammála flm. þessarar till., því að ég geri ráð fyrir, að þeir vilji með till. tryggja þeim mönnum, sem ráðnir hafa verið til starfa á varðskipunum, vinnu á skipunum til loka ráðningartímans, svo framarlega sem skipin verða notuð áfram til þeirrar starfsemi, sem þeim er ætlað. En orðalag þessarar till. er svo klaufalegt og álappalegt, að ég sé ekki, að fært sé að samþ. till. eins og hún liggur fyrir.

Fyrri hl. till. er svo orðaður, að ef hann er lesinn út af fyrir sig, verður ekki annað séð en að hann geti náð til allra þeirra, sem hafa skipunarbréf til einhvers starfa. Má að vísu segja, að sambandið við gr. geri það ljóst, við hvað er átt, og að þetta sé að því leyti útúrsnúningur, en ég fæ ekki séð annað en að ástæðulaust sé að hafa svo almennt orðalag á till.

Síðari hl. till. er mér algerlega óskiljanlegur, enda held ég, að það verði ekki kallað íslenzka, sem þar getur að lesa. Ég geri ráð fyrir því, að flm. eigi við það í síðari hl. till., að skip þau, sem ríkið á nú, verði notuð áfram til landhelgisgæzlu og björgunarstarfs, en ég efast um, að heimilt sé að skilja till. svo. Þar sem talað er um „landsins eigin skip“ í till., getur það nánast átt við öll skip, sem hér á landi eru skrásett, en það mun þó varla vaka fyrir hv. flm. Ég vil því leyfa mér að bera fram svo hljóðandi skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 212: „Tillgr. orðist þannig:

Þeim mönnum, sem ráðnir hafa verið til starfa á varðskipunum, skal þó tryggð vinna á þeim til loka ráðningartímans, enda noti ríkið skipin til landhelgisgæzlu eða björgunarstarfsemi“.