27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Hv. þm. G.-K. komst í raun og veru að sömu niðurstöðu og ég um nauðsyn á að fylgjast með kröfum fiskineytenda. En nú höfum við fiskifulltrúa á Spáni, sem fylgist með í þessu efni. Hann hefir komið 3—4 sinnum heim og haldið fundi með fiskimatsmönnum til þess að láta þá njóta þekkingar sinnar á þessum málum. Og það hefir borið þann árangur, sem ég býst við, að hv. þm. G.-K. meini með 1. gr. frv., að þurfi að nást með skipun matsstjóra, og sem hv. þm. átti við er hann sagði, að matsstjóri mundi flytja þekkingu inn í landið, þ. e. þekkingu á kröfum neytenda um verkun fiskjar í landinu. Þarna finnst mér, að við höfum mann, sem ætti að geta gegnt þessu fræðslustarfi um fiskverkun.

Þá er þetta víðtæka verksvið, sem matsstjóri á að hafa hér heima, og valdið, sem á að gefa honum. Ef til vill verður eitthvert gagn að því að skipa matsstjóra með slíku verksviði og valdi, á þann hátt, að þessi maður færi að hugsa einbeittara um það, hvaða leiðir hægt sé að fara til að ráða bót á því ástandi, sem nú er í þessu efni. En það er alls ekki hann, sem getur ráðið bót á þessu. Þar þurfa aðrir að koma til, ef svo er komið sem hv. þm. Vestm. virtist halda fram, að fiskur okkar sé 3. flokks vara.

Við höfum að mörgu leyti vanrækt að skipa fyrir um veiðiskap, til þess að fá þetta lagað. Það er auðvitað fyrsta skilyrðið fyrir góðri fiskverkun, að við fiskveiðarnar sé allrar vandvirkni gætt um meðferð og verkun fiskjarins.

M. a. horfi ég í kostnaðinn við að stofna til þessa matsstjóraembættis. Við höfum nú fiskifulltrúann suður á Spáni, sem ég álít, að geti að öllu leyti gegnt starfi því, sem þessum matsstjóra er ætlað að gegna.

Ég álít því, að fiskifulltrúastarfið og matsstjórastarfið megi sameina í einni og sömu persónu. Hvort þessi eða hinn maðurinn ætti að gegna því, skiptir ekki máli í þessu sambandi, að því tilskildu, að það sé enginn hæfur maður til starfsins. En ef einn maður á að hafa svo mikið verksvið um leiðbeiningar í meðferð fiskjar víðsvegar á landinu, ásamt öðru því, sem honum er ætlað, þá getur það verk aldrei orðið annað en kák. Til þess hefir einn maður ekki nægilegan tíma eða þekkingu.