30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

71. mál, fiskimatsstjóri

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Rang. afgreiddi hv. 2. þm. Skagf. með þeim ummælum, að það væri rétt, sem hann sjálfur hefði sagt, að hann hefði ekkert vit á þessum málum. Ég leyfi mér að viðhafa sömu afgreiðslu um þennan hv. þm., og læt svo útrætt um hann. Ég efast ekki um það, að það sé kali til sjávarútvegsins, sem hefir valdið þessu frumhlaupi þessa virðulega öldungs.

Ég vildi þá segja það út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að mér finnst höfuðmunurinn á mínum till. og hans till. vera sá, að ég held, að það megi taka til athugunar að sameina starf fiskierindrekans og matsstjórans í eitt starf, en þó ómögulega á þann hátt, sem hann telur heppilegast, að maður þessi dvelji 10 mánuði erlendis og 2 mánuði árlega hérlendis. Ég hygg, að þá sé frekar sanni nær, að þessi maður hafist við hér á landi í 10 mánuði árlega, en erlendis í 2 mánuði. Ég skal þess vegna, ef hv. þm. óskar þess, taka til athugunar, hvort rétt sé að bera fram frv. um að fella niður starf erindrekans og halda svo matsstjóraembættinu eins og það er hugsað í frv. okkar þremenninganna. Ég veit, að þessi fróði og reyndi sjávarútvegsmaður mun samsinna því, að þetta starf er þess eðlis, að nauðsynleg er þekking á óskum neytendanna, og þá þekkingu öðlast þessi starfsmaður með sinni árlegu dvöl í neyzlulöndunum. En hitt er svo það, sem allt veltur á, að þessi þekking komi að haldi hér heima, og ég tel það ekki tryggt, nema þessi maður dvelji hér langvistum árlega, til þess að fræða yfir- og undirfiskimatsmenn og til þess að hafa eftirlit með því, að sú fræðsla sé færð út í lífið og komi að haldi í sjálfu matinu. Þetta held ég áreiðanlega, að sé rétt hjá mér.

Þá ætla ég að svara hv. þm. N.-Þ. nokkrum orðum. Hann var að tala um það, að mér hefði runnið í skap hér áðan. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. hefir getað fundizt það. Það er langt síðan mér hefir liðið eins vel hér í þingsölunum eins og þegar ég var að tugta hann til. Ég verð að biðja hv. þm. að virða mér það til vorkunnar, þó mér hafi þótt það gaman, því mér fannst aðstaða mín svo prýðileg. Og ef hv. þm. N.-Þ. heldur, að hann geti alið á einhverri þykkju milli mín og míns gamla og mæta vinar, hv. 1. þm. Rang., þá er hann auðsjáanlega að skyggnast um í þeim herbúðum, þar sem allt gengur á heift og úlfúð milli leiðandi manna. En slíkt á sér ekki stað í Sjálfstfl. Við höfum nú unnið saman um langan tíma, ég og hv. 1. þm. Rang., og ég hefi alltaf talið mér það vel hlýða og til gagns að nýta hans lífsreynslu á mörgum sviðum, þar sem hann hefir haft meiri reynslu heldur en ég, og á sviði sjávarútvegsins almennt talað hefir hann miklu meiri reynslu heldur en ég, en þar fyrir tel ég ekki, að honum geti aldrei missýnzt. — Og það er hlægilegt, ef hv. þm. N.-Þ. heldur, að það skerði okkar gömlu vináttu, þó hv. 1. þm. Rang. hafi einu sinni í máli, sem ég man nú ekki hvað var, greitt öðruvísi atkv. heldur en ég hafði óskað eftir, að flokkurinn léti falla. Það eru engin handjárn til í okkar flokki, og hv. 1. þm. Rang. er þess frjáls — enda veit hann það líka sjálfur — að greiða atkv. eins og honum sjálfum sýnist, hvað svo sem mér sýnist um það. Ég hefi aldrei ætlað mér þá dul að leggja á hann handjárn, enda er það hvorki mér né öðrum hent. Það vita allir, og hv. þm. N.-Þ. líka, svo það er ekki nema brosleg barnabrek að vera með slíkt stagl og málalengingar hér í d.

Um hitt, hvort ég hefði nokkra þekkingu á fiski, vil ég geta þess, að frá því ég var 23 ára gamall og fram á þennan dag hefi ég verið einn af þeim mönnum, sem veitt hafa forstöðu stærsta fiskframleiðslufyrirtæki landsins, sem um lauga hríð hefir haft stærstu fiskverzlun landsins, og að því er ég bezt veit stærstu útflutningsverzlun í heimi á þessu sviði. Ég hefi þess vegna sem útgerðarmaður og fiskútflytjandi haft aðstöðu og skyldu til þess að kynna mér þessi mál. Ég er alinn upp í sjávarþorpi, þar sem fiskverkun daglega fer fram, og hefi auk þess unnið talsvert á yngri árum í fiski.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að ég hefði borið honum á brýn, að kali í garð sjávarútvegsins kæmi fram í því, að hann vildi sýna viðleitni til sparnaðar. Nei, þessi kali kemur fram í því, að þessi eyðsluseggur finnur ekki hvöt til sparnaðar nema þegar þjóna þarf augljósri þörf sjávarútvegsins. Að af þessum ástæðum þurfi að vera bert, að hv. 1. þm. Rang. beri kala til sjávarútvegsins, er tóm vitleysa, því það, sem hann leggur til, er ekki annað en það, að annaðhvort sé matsstjóri skipaður eftir mínum till. eða að starfið sé sameinað öðru starfi, þar sem launin eru 30—40 þús. kr. En að því finnur hv. þm. ekki, — og vegna hvers? Vegna þess, að í því embætti situr maður, sem er hans flokksbróðir og þiggur 30—40 þús. kr. fyrir. Þarna sér maður nú einlægnina hjá hv. þm. í þessu máli eins og fleirum. — Ég hafði fært fram þau rök fyrir því, að þessar till. hv. þm. N.-Þ. og hv. 2. þm. Skagf. væru veigalitlar, að sjútvn. hefði ekki viljað við þeim taka, heldur afgr. þær frá sér með þeirri lítilsvirðingu, sem þær verðskulduðu. Hv. þm. N.-Þ. vildi halda því fram, að ef þetta ætti að vera sönnun þess, hversu veigalitlar hans till. væru, þá væri það að sama skapi sönnun þess, að till. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.Ísf. væru jafnveigalitlar. En svo er alls ekki, því annar þm. er utan flokka og er því enginn í n., sem hefði sérstaka tilhneigingu til þess að hengja sig á hans till. Hv. 1. þm. Rang. á 2 flokksbræður í n., en þeir eru báðir flm. þessa frv., og þess vegna er ekki eðlilegt, að þeir hafi viljað víkja frá sínum till., til þess að taka upp annara till. En hv. þm. N.-Þ. á bæði bræður og hálfbræður í n., sem hefðu reynt að taka að sér hans till., ef þeir hefðu ekki álitið, að þeim bæri að fyrirverða sig fyrir þær. En þeir gerðu það ekki, og þar með er þeirra dómur felldur, og sá dómur er réttur, en hann fellur ekki að sama skapi á till. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf. Það er alveg ljóst.

Þá vildi þessi hv. spekingur kenna mér lífsreglur og sýna mér fram á, að af því að ég væri þm. gæti ég sett l. á Alþingi, en þegar ég kæmi út úr þinginu, gæti ég ekki sett l., og af því leiddi svo aftur það, að matsstjóri, sem ætti að setja matsmönnum reglur, hefði ekki neitt vald. Þetta er það, sem kallað er hugsanagrautur, og þeir, sem svona hugsa, eru kallaðir moðhausar. Þetta er ágætt nafn, og það er bezt, að ritstjóri Tímamanna hljóti það frá mér, og skal ég rétta honum eitthvað í nafnfesti og hafa það í sneiðarformi áður en lýkur.

Ég vil segja hv. þm. það, að þó ég geti náttúrlega ekki sett l. utan þings, þá get bæði ég og hann sett l. á þingi, og þar með l. um það, að matsstjóri skuli setja reglur, sem á að hlýða, en ekki óhlýðnast. Þetta hlýtur hv. þm. að skilja, ef hann leggur hausinn í bleyti.

Þá hafði ég gaman af ummælum þessa hv. þm. út af því, sem ég var að taka hann til bæna í sambandi við undirmat og yfirmat. Ég sagði þessum hv. þm., að þetta tal hans bæri vott um, að hann héldi, að undirmat færi svo fram, að hver fiskur væri skoðaður og dæmdur, og svo væri þeim dómi áfrýjað til yfirmats. Þessu svaraði hv. þm. með því, að hann hefði séð fisk metinn einmitt á þennan hátt, að hver fiskur hefði verið skoðaður sérstaklega. Ég vil segja þessum hv. þm. það, að þetta er engin undantekning. Svona gengur þetta fyrir sig, undirmatsmaðurinn skoðar fiskinn og metur hann. En svo má þessi hv. þm. ekki láta það villa sig, að hér sé um að ræða undirfiskimatsmenn og yfirfiskimatsmenn, af því að þessir menn skoði hver um sig, þannig, að dómi undirfiskimatsmannsins sé áfrýjað til yfirfiskimatsmannsins. Nei, yfirfiskimatsmaðurinn hefir nafn sitt af því, að hann hefir yfirstjórn með undirfiskimatsmönnunnm, setur þeim reglur og hefir úrskurðarvald á því, sem þeir gera.

Mér þykir nú leiðinlegt að þurfa að fara með þessa barnafræðslu yfir hv. þm., en það er nauðsynlegt, úr því hann er að skipta sér af þessu máli, sem hann hefir ekkert vit á.

Mér þótti skinhelgin fullmikil hjá hv. þm. þegar hann fór að tala um það klökkum rómi, að hann hefði verið með mér á fundi í einum hreppi í mínu kjördæmi, og þar hefði það komið í ljós, að fátækir fiskimenn hefðu á öðru brýnni þörf en háum launum. Mætti ég, án þess að móðga nokkurn mann, minna á það í sambandi við þessa till. um að skammta manni, sem á að hafa með höndum mjög mikilsvert starf og sjaldgæfa þekkingu, 6 þús. kr., að hér er til maður í þessu landi, sem selur mönnum hálfódrekkandi áfengisgutl og þiggur 10—12 þús. kr. fyrir. Hvort halda menn nú, að sé þarfara að launa vel þann mann, sem á að vera öflugasta stoð sjávarútvegsins um þá nauðsyn, að fiskurinn sé vel og rétt metinn, eða hinn, sem á að hafa forsjá með því, að menn drekki meira og minna af misjafnlega góðum og hollum drykkjum? Og má ég minna á það, að til er hér maður, sem nefnist útvarpsstjóri, sem enginn veit til, að geri nokkurn skapaðan hlut og hefir þó 10—12 þús. kr. laun. Hvort ætli sé nú nauðsynlegra að hafa þarna liðónýtan og gagnslausan mann eða að skipa þessu nauðsynjamáli sjávarútvegsins almennilega forsjá? Þessir menn, sem ég hefi nú nefnt, og margir fleiri bera úr býtum úr ríkissjóði tvöfalda þá upphæð, sem hv. þm. N.-Þ. vill skammta þeim manni, sem á að sjá um eitt mesta vandamál sjávarútvegsins. En sparnað til lítt starfshæfra og gagnslausra embættismanna vill þessi hv. þm. ekki heyra nefndan, en vill merja 2 þús. kr. af launum þessa manns, sem á að veita forsjá þessu nauðsynjamáli. Og það þykist hv. þm. gera af einskonar kærleika til fátækra fiskimanna, sem hann sá suður í Garði. Önnur eins skinhelgi — drottinn minn dýri — er sem betur fer fátið hér í þingsölunum.

Ég held ég þurfi svo ekki að kenna þessum hv. þm. meira heldur en ég hefi þegar gert. Honum fannst sjálfum eins og mér ofmælt, þegar ég sagði, að ég treysti mér ekki til þess að Breyta honum í þorsk, en ég treysti mér til þess að breyta honum í aula, en svo eru kallaðir á máli sjómanna þorskar, sem eru sérlega stórir.