19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Hæstv. atvmrh. sagði, að Spánverjar hefðu farið fram á það, að settur væri expert til að dæma um fisksendingar þangað, sérstaklega þeirra, sem fara til Barcelona. Ég er hræddur um, að Spánverjar myndu líta svo á, að fiskifulltrúinn á Spáni væri sérstaklega skipaður til þess að vera dómari í þessum málum. Þeir myndu þá heimta, að hann væri alltaf niðri á Spáni, og viðstaddur þegar fiskfarmur kæmi, til þess að skera úr, hvort fiskurinn er skaðabótaskyldur eða ekki. Ég held, að aðalstarf fiskimatsstjóra ætti að vera að umbæta fiskverkunina hér heima. En það er víst, að henni hefir stórhrakað undanfarin ár. Ég hygg, að allir fiskútflytjendur geti játað, að meðferð fiskjarins hjá sjómönnunum hafi farið mikið aftur. Það mætti benda á mörg dæmi þessu til sönnunar. — Ég vil benda á eitt í fiskimatinu, sem ég tel skakkt. Það er að fara í lélegan fisk og vinza úr honum það bezta til þess að koma því í dýrari flokk. Það bezta úr lélegum fiski er lakara en nr. 2 úr góðu fiskpartíi. Í Barcelona hefir verið kvartað yfir því, að fiskpartíin séu ósamstæð. Ég hefi heyrt, að Norðmenn hafi sagt Barcelonamönnum síðastl. sumar, að allar umkvartanir skyldu bættar að fullu, og ef matið væri ekki rétt, þá skyldi það, sem skakkar, dregið frá söluverði fiskjarins. Með þessu eru þeir að reyna að koma sér inn á bezta markaðinn, og þurfum við sannarlega að gjalda varhuga við þessu. Án þess ég vilji fara út í það, sem gerzt hefir áður, þá hefir það gengið svo til, þangað til fyrir skömmu, að fiskurinn, sem veiddur er við Faxaflóa, hefir ekki verið talinn nógu góður fyrir Barcelonamarkaðinn. Árin 1907—1924 var langmest af því, sem flutt var á þennan markað, frá Vestfjörðum, en síðan tóku Austfirðingar við, en þeir höfðu breytt verkunaraðferðum og pækilsöltuðu, og þótti sú aðferð góð, en nú hefir verið gengið of langt í því að linþurrka fiskinn og jafnframt tekin fiskur til pækilsöltunar og verkunar fyrir Barcelonamarkað, sem í eðli sínu var óhæfur fyrir þann markað. Ég held, að ef fiskifulltrúinn á Spáni væri gerður að fiskimatsstjóra, þá myndu Spánverjar skoða hann sem nokkurskonar dómara í þessum efnum og heimta, að hann væri alltaf til staðar, þegar fiskfarmur kæmi til Spánar. Við þetta tapaðist það starf, sem er undirstaðan undir öllu öðru, en það er fiskaverkunin hér heima. Það þarf að hækka kröfurnar um matið, einkum á Barcelonafiski, svo að Spánverjar geti vel við unað.