04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég sé, að sjútvn. hefir orðið sammála um að mæla með brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 627. Mætti því ætla, að ég, sem ekki er fagmaður í þessum efnum, mundi hlíta dómi n. En á hinn bóginn hefir tilsvarandi n. í Nd. litið allt öðruvísi á málið, að ég hygg óskipt. Hún tók þetta frv. eins og það lá fyrir frá flm. og færði takmarkið allmikið niður, eða í 250 ha. vélar; hún vildi ekki veita vélamönnum réttindi til þess að fara með aflmeiri vélar. Ég geri ráð fyrir, að talsverður ágreiningur hafi verið um málið milli þeirra, sem áttu nú sérstaklega að rannsaka það og búa í hendur þm. Og ég verð að fá að heyra gleggri rök en þau, sem hv. frsm. bar fram, ef ég á að geta fallizt á að slaka svo mjög til í kröfunum eins og n. fer fram á. Ég legg ekki mikið upp úr því, þótt fyrir liggi áskoranir frá þeim mönnum, sem eru að falast eftir að fá þessi réttindi. Það er á sinn hátt eins og fyrir lægi áskorun frá embættismönnum um að hækka embættislaunin. Það er eðlilegt, að þessir menn, sem réttindin vilja fá, safnist saman og skori á Alþ. að veita þetta. Það er meira undir því komið, hvað forsvarsmenn stéttarinnar — í þessu tilfelli t. d. Vélstjórafélag Íslands — segðu um þetta. Nú sé ég, að í nál. er sagt, að menn úr stjórn vélstjórafél. hafi mætt á fundi n. Sömuleiðis fulltrúar frá mótormönnum. N. hefir því komizt að þeirra niðurstöðu o. s. frv., en það er ekkert um það sagt, hverjar till. þessir menn hafi gert, sem á fund n. komu. Og mér er ekki grunlaust um, að stjórn Vélstjórafél. muni ekki líta sömu augum á þetta mál og hv. nm. Það hefir verið fastur ásetningur þessa félags að gera sem mestar kröfur til vélstjóra. Og í sambandi við orðastað okkar hv. 4. þm. Reykv. út af öðru máli hér, sem snerti öryggið á sjónum, þá er ég dálítið hissa á því, að hann skuli vera svo fljótur á sér að vilja auka réttindi þessara manna, sem með vélarnar fara, því að kunnátta í því starfi er meira skilyrði fyrir öryggi á sjónum en loftskeytatækin, og ég hygg, að á móti hverju einu tilfelli, sem slys verður af vöntun lofskeytatækja, komi a. m. k. 10 slys af völdum vankunnáttu vélamanna.

Ég mun því ekki fylgja þessari brtt. n. meðan ekki eru frekari rök færð fram fyrir málinu. Ég tel sjútvn. Nd. hafa tekið rétta stefnu í þessu máli, og mun ég hallast meir að henni en því, sem hér kemur nú fram.