15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Emil Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths. — Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það fælist engin trygging fyrir því í frv., að smíðakunnáttu og annarar nauðsynlegrar þekkingar væri krafizt af þeim, sem vélstjóraréttindi eiga að fá samkv. því, vil ég benda á ummæli, er hæstv. atvmrh. viðhafði þegar frv. var til meðferðar í Ed. Hann lofaði, að áður en reglugerð yrði gefin út um þetta efni, skyldi verða leitað umsagnar Fiskifél. og Vélstjórafél. Með þessari yfirlýsingu finnst mér nægilega séð fyrir, að engra réttur verði fyrir borð borinn og allrar nauðsynlegrar varúðar gætt.