22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

155. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir athugað þetta frv. og borið fram við það nokkrar brtt. á þskj. 546. Eru þær allar, að einni undantekinni, aðeins leiðréttingar. Það hefir viljað til með þetta frv. eins og stundum hefir komið fyrir áður, að þess hefir ekki verið gætt að vitna í rétt lög. Hygg ég, að það stafi af því að farið hafi verið eftir lögbókinni, en þess ekki gætt að athuga tilvitnanirnar neðanmáls. Þessi mistök eru leiðrétt með brtt n. Aðeins ein þeirra er efnisbreyt., 1. brtt. undir staflið b. N. þótti varhugavert að láta það standa undantekningarlaust í lögunum, að skilyrði fyrir ríkisborgararétti væri 15 ára dvöl í landinu. Það eru dæmi til þess, að útlendir menn hafi unnið hér mjög dyggilega í þjónustu ríkisins og orðið íslenzkir ríkisborgarar. Þótti n. rétt að opna möguleika til þess, að slíkir menn gætu öðlazt þessi réttindi eftir 5 ára dvöl í landinu. Það má náttúrlega deila um tímatakmarkið, en ég hygg, að þetta fari nærri lagi og ekki sé ástæða til að veita þessi hlunnindi fyrir skemmri tíma. Að því er snertir skilyrðið í frv. sjálfu um 15 ára landsvist, taldi n. ekki ástæðu til að breyta því. Þetta mun vera svo í flestum nágrannalöndum okkar, og ég hygg, að í flestum tilfellum sé rétt að hafa skilyrðin nokkuð ströng. Það má kannske segja, að þessi undantekning, sem hér er farið fram á, sé ekki fullnægjandi og að til greina gæti komið að veita annari tegund nýrra ríkisborgara linari skilyrði, en þar á ég við Íslendinga, sem misst hafa ríkisborgararétt sinn hér af því að þeir hafa öðlazt slíkan rétt í öðru ríki. N. hefir þó ekki flutt brtt. um þetta að þessu sinni, en það væri rétt að athuga þetta fyrir 3. umr.