17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

148. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að vera langorður um þetta frv. Það var rætt við 3 umr. hér í hv. d. og hv. frsm. meiri hl. fjhn., þm. V.-Ísf., færði þau rök, sem ég tel nægileg, fyrir því, að réttmætt sé að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Og sá hv. þm. tók, f. h. meiri hl. n., til athugunar þau andmæli, sem fram hafa komið, bæði frá hv. dm. og eins umsögn Landsbanka Íslands, sem mjög hefir verið vitnað til hér.

Ég ætla ekki að stofna til almennra umr. um málið við þessa einu umr. í þessari hv. d. Ég hefi litið svo á, að þegar frv. kemur til einnar umr. í þd., eigi að ræða atriði, sem hafa bætzt inn í frv. síðan það síðast var til meðferðar í þeirri deild. Þau atriði, sem bætzt hafa í frv. í hv. Ed., hygg ég, að ég og andstæðingar frv. séum sammála um, að séu til bóta, og þess vegna þurfi ekki að ræða þau.

Út af þeirri mótstöðu, sem hv. þm. G.-K. var að tala um að málið sætti af hálfu Sjálfstfl., vil ég taka það fram, að einu af þm. Sjálfstfl. í hv. Ed, hv. 2. þm. Rang., tjáði sig meðmæltan frv. og greiddi atkv. með því út úr d., og flokksmenn hv. þm. G.-K. þar í d. sögðust vera í grundvallaratriðum með frv. Mótstaða flokksmanna hv. þm. G.-K. var ekki harðari gegn þessu máli en ég hefi nú lýst.