18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

58. mál, Kreppulánasjóður

Gunnar Thoroddsen:

Við hv. 8. landsk. þm. flytjum hér á þskj. 521 þrjár brtt. við áfengislagafrv. Fyrsta brtt. er við 8. frvgr., um að í stað þess, að nú er ákveðið í frv., að ríkisstj. ákvæði álagningu á vín með tilliti til áfengisstyrkleika, þá verði tiltekið hámark fyrir því, hve mikið megi leggja á þau. Við leggjum til, að álagningin sé 20–l00%, miðað við verð vínanna, kominna í hús hér á landi, að meðtöldum tolli. Það er enginn efi á því, að ef verði vínanna er haldið allt of háu, eftir að bannið verður afnumið, þá heldur sú vínsmyglun og bruggun áfram, að meira eða minna leyti, sem mikil brögð hafa verið að undanfarið. Ef álagningin á vínin verður mjög há, þá geta menn fengið miklu ódýrari ólögleg vín, og freistast þá til að spara sér fé með því að kaupa þau. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að setja í áfengisl. ákvæði, er takmarki, hver álagningin megi vera hæst. Ég hygg, að álagningin yrði ekki of lág samkv. brtt. okkar, því að tollurinn er mjög hár. Þegar svo 100% álag bætist við, samkv. brtt., þá hygg ég, að verðið á vínunum verði nógu hátt til þess að ríkissjóður fái þær tekjur, sem æskilegt er.

Ennfremur vil ég benda á, að ég tel mjög vafasamt, hvort það brýtur ekki í bág við 35. gr. stjskr., að láta alveg ótiltekið í lögunum hve mikil álagningin megi vera. Þar stendur: „Engan skatt má á leggja, né breyta, né af taka, nema með lögum“ o. s. frv. Ef einkasala hefir ótakmarkaða heimild til að leggja á vöru, þá er með því farið í kringum 35. gr. stjskr., um að sérstakt lagaboð þurfi til þess að leggja megi á skatt. 1. m. k. er höggið nærri þessu ákvæði stjskr., ef heimildin um þetta er ótakmörkuð, því að þessi álagning er í rauninni ekkert annað en skattur á landslýðinn.

Í öðrum einkasölulögum eru dæmi þess, að slík hámarksálagning sé ákveðin. T. d. má benda á Tóbakseinkasöluna, þar sem ákveðið er, að álagningin skuli vera 10–75%, miðað við verð vörunnar að viðbættum tolli.

Önnur brtt. okkar er sú, að aftan við 2. mgr. 9. gr. bætist, að atkvgr. skuli fram fara, ef tíundi hluti þeirra, sem atkvæðisrétt eiga, óskar þess. Í 2. mgr. 9. gr. er svo ákveðið, að fjölga megi útsölustöðum, ef ráðh. ákveður og atkvgr. fellur svo sem í gr. getur. Í þetta ákvæði vantar alveg, hverjir geti krafizt þess, að atkvgr. fari fram. Ég held, að rétt sé að tiltaka það, og ekki fjarri lagi að ákveða, að 1/10 kjósenda geti heimtað atkvgr.

Þriðja brtt. okkar er við 11. gr. Í frv., eins og það var lagt fyrir þingið, var ákveðið, að dómsmrh. gæti veitt kaupstöðum og sveitum vínveitingaleyfi. En við 2. umr. málsins var þessu breytt þannig, að nú er heimildin bundin við eitt veitingahús hér í Reykjavík. Við leggjum til, að þessu ákvæði verði enn breytt, að það orðist svo, að bannað sé að veita áfenga drykki í veitingahúsum og öðrum opinberum stöðum, en að þó geti dómsmrh. veitt undanþágu frá þessu í kaupstöðum. M. ö. o., þetta er að efni til fært nokkuð í sama horf eins og það var ákveðið í frv. upphaflega. Við teljum ekki rétt að hlynna svo sérstaklega að einu veitingahúsi hér í Rvík, þegar fleiri slík hús geta komið til mála. Ennfremur sjáum við ekki ástæðu til þess, að í kaupstöðum utan Rvíkur sé lagt blátt bann við vínveitingum. — Ef þessar brtt. verða felldar, þá er vitanlega eitt spor stigið enn í þá átt að auka ólöglega vínsölu í landinu. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt., en vænti þess, að þær verði samþ.

Um aðrar brtt., sem fyrir liggja allmargar, skal ég ekki ræða á þessu stigi málsins. Þó eru fram komnar þær brtt. við áfengislagafrv., sem full ástæða væri til að vara hv. þingdeildarmenn við að samþ. En þar sem ekki er enn búið að tala fyrir þeim öllum, skal ég ekki að þessu sinni fara út í þær.