08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, þá vil ég taka það fram, að ég athugaði einmitt áður en ég gerði mína brtt. fyrirsögn frv. á þskj. 49, og mér fannst, að það þyrfti að vísa til fleiri l.; en vegna þess að öll síðari l. eru breyt. á l. frá 1913, mætti láta fyrirsögnina halda sér með viðbætinum og breyt. á þeim l. Þá mundi það nást, sem fyrir hv. 4. landsk. vakir, og n. mun athuga þetta til 3. umr.

Ég held, að það sé réttast, að ég lesi upp kafla úr áliti landssímastjóra til svars því, sem komið hefir fram hjá hv. flm.

Það er þá fyrst út af þeirri brtt., sem hv. 2. þm. S.-M. flytur, um breyt. á línustæði að Dalatanga. Ég mun halda fast við það, að það sé á fullum rökum byggt, sem n. og landssímastjóri leggja til, að ekki verði breytt þessu línustæði. Hv. flm. segir, að það valdi engum erfiðleikum, þó farið sé í gegnum margar landssímastöðvar. En það er svo um stöðina í Mjóafirði, að hún verður að loka sig úti á þeim tíma, sem hún ekki á að vera inni til afnota, til þess að Suðurfirðirnir geti haft greiðan aðgang til Seyðisfjarðar, en þar er opið lengri tíma af deginum heldur en í Firði, og ef ættu að koma inn stöðvar eins og t. d. á Brekku, þá er ekkert ólíklegt, að þær loki skakkt fyrir eins og oft kemur fyrir með nýjar stöðvar. Hitt er hverjum manni auðsætt, að þegar Dalatangi er kominn í bæjarkerfið á Seyðisfirði, getur ekki verið um slíkt að ræða, að hægt sé að loka sig úti. Þar er gegnumgangandi samband og engin tæki til þess að loka úti neinn af þeim notendum, sem í bæjarkerfinu eru. Ég skil ekki, að það sé kappsmál fyrir hv. flm. að fá þessu línustæði breytt, nema til þess að koma 2—3 bæjum í betra talsímasamband, Rima, Hofi og Eldleysu. Af þessum bæjum á Eldleysa lengst í síma; það eru tæpir 6 km. þaðan inn að Brekku. En það bæri þá eitthvað nýrra við, ef farið væri að setja landssímastöð á bæi, sem ekki eiga lengra í síma en þessir bæir eiga að Brekku. Og þegar það er alveg víst og óhrekjanlegt, að Dalatangi fái öruggt samband með því að vera í talsímakerfi við Seyðisfjarðarkaupstað, þá tel ég alveg óforsvaranlegt að fara aðra leið. Landssímastjóri segir og, að betra væri að gefa þeim spottann út að Eldleysu og Hofi heldur en að taka upp breyt. á línustæðinu. Auk þess er nokkur munur á vegalengdinni, að leggja línu frá Seyðisfirði til Dalatanga, og m. a. mundi sparast mikill kostnaður við það, að það er þegar komin landssímalína mikið af þessari leið, alla leið út að Bæjarstæði, þar sem línan mundi liggja yfir til Dalatanga.

Um línuna frá Búðum til Hafnarness er fljótlegast að lesa upp álit landssímastjóra, sem n. byggir á:

„Frá Fáskrúðsfirði til Hafnarness hefir verið einkasímalína nú í tæp 20 ár. Á henni eru nú þessir 7 símar: Hafnarnesvík, Vík, Fagraeyri, Eyri (2 símar), Sævarendi og rafstöð Fáskrúðsfjarðar. Línan mun vera um 18 km. á lengd, hún liggur á stauraröð landssímans, sem liggur þessa sömu leið og eru aðeins örstuttar álmur heim á bæina. Eigendur línunnar hafa vanrækt viðhald hennar herfilega, og er hún nú orðin alveg úr sér gengin. Þörfin fyrir þessa línu virðist lítil og fara minnkandi, ef dæma má út frá notkun hennar, sem hefir farið hraðminnkandi, eins og sést á tölum þeim, sem hér fara á eftir:

Samtalatekjur milli Búða og bæjanna árið

1928 .................... kr. 267.75

1929 .................... — 160.70

1930 .................... — 66.70

1931 .................... — 112.l0

1932 .................... — 65.25

1933 .................... — 26.20

Samtalagjaldið er 33 aur. fyrir viðtalstímabilið, og fellur það til eigenda línunnar. Sést af þessu, að síðastl. ár hefir ekki verið nema 1 samtal 5. hvern dag. Til þess að fullnægja þeirri þörf getur landssíminn ekki lagt 18 km. línu, meðan ekki er fullnægt miklu meiri símaþörf víða annarsstaðar á landinu. Árið 1930 gerði landssíminn við Hafnarneslínuna fyrir 245 kr., eftir ósk eigendanna, sem var hlutafélag, en þessa upphæð hefir landssíminn ekki ennþá fengið greidda. Sumir notendur á línunni hafa ekki einu sinni greitt tengigjald sitt til landssímans hin síðari ár, en það er kr. 2.50 ársfjórðungslega. Verður því ekki betur séð en að eigendur hafi hirt þær litlu tekjur, sem orðið hafa á línunni, en vanrækt viðhald, greiðslur og gjöld.“

Hv. þm. Dal. og hv. 10. landsk. hafa fært þær ástæður, sem þeir hafa fram að færa fyrir sínum till. Hvað viðvíkur línunni frá Tjaldanesi að Hvammsdal, þá álít ég það varla ná nokkurri átt að leggja símalínu alla leið inn að Hvammsdal, því ef símastöð er á Staðarhóli mundu allir bæir á þessu svæði sækja síma þangað, nema Hvammsdalskot og Hvammsdalur. Og það, að leggja 5—6 km. línu fyrir aðeins 2—3 bæi, er allt of mikill kostnaður, þegar maður þykist ekki hafa ráð á því að leggja línu að fjölbyggðum þorpum á þessu landi. En hitt skal ég játa, að línan frá Bugðustöðum að Vífilsdal er miklu nauðsynlegri, sérstaklega vegna þess, að á þeirri leið er á, sem oft er ill yfirferðar og gerir það að verkum, að erfitt er að ná til Bugðustaða. En þó hygg ég, að varla komi til mála, að nokkurntíma verði lögð lína alla leið fram að Fremri-Vífilsdal, heldur látið nægja að hafa hana fram að Tungu, því þá er stutt að símstöð frá þessum tveimur bæjum fyrir framan. En við þetta mundi sparast þriðjungur línunnar.

Annars er það svo með símanot yfirleitt í sveitum, að þau eru svo lítil, að ég hygg varla, að menn vilji borga notagjald til landssímans, eins og aðrir gera í kaupstöðum og kauptúnum og víða í sveitum líka, til þess að fá símann heim til sín. En landssímastjóri telur, að þegar að því komi, að landssíminn taki að sér einkalínur, sem við skulum vona, að ekki verði mjög langt þangað til, þá verði fyrirkomulagið það, að þeir, sem eru á einkalínum, borgi afnotagjald. Það mætti náttúrlega setja það lægra heldur en í bæjum og kauptúnum, en þó varla svo lágt, að menn mundu ekki víða heldur vilja vera án síma.

Hvað viðvíkur till. um að hafa 2 stöðvar í Öngulsstaðahreppi, sem hv. 10. landsk. minntist á, þá skal ég ekki neita því, að það geti verið full þörf á 2 stöðum í þessum hreppi, sérstaklega þar sem hv. þm. upplýsir, að vegalengdin sé 20—30 km. En ég álít, að það eigi ekki að komast inn á símal. fleiri en ein stöð í hreppi, vegna þess, að það er svo víða, þar sem fleiri en ein símastöð er í hreppi, að landssíminn kostar eina, en hreppurinn eða þeir, sem fengið hafa stöð heim til sín, starfrækja hinar endurgjaldslaust. En með því að setja 2 stöðvar í Öngulstaðahreppi inn á símal., er því slegið föstu, að landssíminn skuli kosta starfrækslu beggja.