18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

58. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Ég skal fyrst svara hæstv. fjmrh. Hann spyr um, eins og eðlilegt er, hvort tryggt sé, að Kreppulánasjóður hafi nægilegt reiðufé til þess að standast útgjöld samkv. þessu frv. Þar til er því að svara, að ef lánbeiðnir til Kreppulánasjóðs aukast ekki mikið fram yfir það, sem nú er gert ráð fyrir og útlit bendir til, sem ég hygg varla að geti komið fyrir, nema því aðeins, að ný vandræði hljótist út af ábyrgðarkröfum, þá held ég, að það sé nokkurnveginn víst, að það verði þó nokkur afgangur af reiðufé sjóðsins, þannig að það þurfi ekki allt að ganga til þeirra lánveitinga, sem það var ætlað til. Nú er eins og kunnugt er svo, að þetta fé á að greiðast til sjóðsins á fimm árum, og er því fjarri því, að hann hafi nægilegt fé fyrirliggjandi sem stendur. Hann er nú í nokkurri skuld við Búnaðarbankann, sem útlit er fyrir, að fari vaxandi, og er ekki ólíklegt, að það komi að því, að lántökuheimild kreppusjóðslaganna verði notuð. Það hefir ekki verið leitazt fyrir um lántöku ennþá, en mér þykir sennilegt, að a. m. k. í þeim tilgangi, sem hér er um að ræða, væri hægt að fá nægilegt lánsfé.

Hæstv. ráðh. talaði um, að komið gæti til mála að setja ákvæði í frv. þess efnis, að framlög samkv. því kæmu aðeins til greina, þegar efnahagsástæður ábyrgðarmannanna gerðu það nauðsynlegt. Það má vera, að slíkt ákvæði gæti komið til greina, og ég mun hafa drepið á það þegar ég gerði grein fyrir frv. En sannleikurinn er sá, að langsamlega yfirgnæfandi meiri hl. ábyrgðarmannanna er svo settur, að þeim er um megn að taka á sig að greiða verulegan hluta ábyrgðarkrafnanna. Hitt getur komið til greina, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að samtímis og samningar eru gerðir við lánstofnanirnar sé samið við einstaka ábyrgðarmenn um einhver framlög til þess að losa þá við ábyrgðina, eftir því sem geta þeirra leyfir. Og ég sé ekki neitt í frv., sem útilokar, að sú leið sé farin. En ég geri ráð fyrir, að hvað bændur snerti geti þetta ekki orðið nema í mjög smáum stíl. Hv. þm. þekkir náttúrlega betur en ég, hvernig þetta er í hans héraði, en þar sem ég þekki til, gæti ekki orðið nema um óverulegar upphæðir að ræða, sem ábyrgðarmenn sjálfir legðu fram til þess að losna við frekari skuldbindingar. Hinsvegar álít ég æskilegt, að lánstofnanirnar sýni þann skilning og þá sanngirni, að þær spenni bogann ekki of hátt hvað snertir kröfur á ábyrgðarmenn. Mér finnst svo fráleitt að láta þessa kreppuhjálp leiða til þess, að jafnvel fleiri séu dregnir niður í skuldafenið heldur en þeir, sem lyft er upp úr Því. En sú gæti raunin á orðið, ef yfirleitt ætti að fara að ganga harkalega að ábyrgðarmönnunum.

Þá spurði hæstv. ráðh. um það, hvernig hagað væri í Kreppulánasjóði afgreiðslu ábyrgðarkrafna á lántakendur. Aðalreglan er sú, að ýmist er samið við hlutaðeigandi ábyrgðareigendur, að ábyrgðarkrafan falli niður án nokkurs endurgjalds, eða hluti af henni er færður sem skuld hjá viðkomandi lántakanda, sem sá, sem ábyrgðina á, fær svo greidda að sömu prósentutölu og aðrir skuldeigendur. Í nokkrum tilfellum hafa ábyrgðirnar verið látnar standa, en því aðeins, að stj. Kreppulánasjóðs hafi þótzt vera búin að ganga úr skugga um, að hlutaðeigandi lántakanda stafaði ekki hætta af þeim. Þegar lántakendur hafa verið vel stæðir menn, sem átt hafa meira en fyrir skuldum, hefir ekki þótt ástæða til að losa þá úr öllum ábyrgðum. Hinsvegar er ekki ósennilegt, að í ýmsum tilfellum losni þeir samt, því það er náttúrlega svo, að flestir, sem taka lán úr Kreppulánasjóði, veðsetja um leið allar eigur sínar, og má þá búast við, að lánstofnanirnar reyni að skipta um ábyrgðarmenn og fá aðra í staðinn. Sem sagt held ég, að af þeim hluta ábyrgðanna, sem lántakendur Kreppulánasjóðs hafa staðið í, stafi ekki mikil hætta. Að því er þær snertir mun þetta mál verða leyst með samkomulagi að óbreyttri löggjöf.

Ég hefi þá, að svo miklu leyti sem ég get, svarað fyrirspurnum hæstv. ráðh. Ég get ekki sagt um, hvað mikill afgangur verður af reiðufé Kreppulánasjóðs, en ég held mér sé óhætt að fullyrða, að það verði talsvert, og væntanlega meira heldur en sú upphæð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að lagt sé fram.

Þá skal ég loks drepa á það, sem hv. 1. þm. Eyf. minntist á og ég gleymdi að geta um þegar ég mælti fyrir frv., nfl. að sú upphæð, sem frv. gerir ráð fyrir, að lögð sé fram til þess að semja um ábyrgðarkröfur, muni verða of lítil. Ég skal játa, að það verður sennilega ómögulegt að leysa málið með ekki meiru fé heldur en tiltekið er í frv. Í grg. frv. er tekið fram, að upphæðin sé aðeins eftir ágizkun; þá var ekki farið að athuga, hvað miklar þessar kröfur myndu vera. Nú veit maður dálítið, hverju þetta kemur til með að nema, og ég hefi alltaf gengið út frá því, að þessi upphæð yrði að hækka til muna við meðferð málsins. Mér þótti skynsamlegra að tilnefna í frv. þá lægstu upphæð, sem ég gat hugsað mér, því að hægurinn er hjá að hækka framlagið. Ég vil ekki á þessu stigi málsins koma fram með neinar ráðagerðir um það, hver sé sú minnsta upphæð, sem nægði til þess að koma á samningum um þessar kröfur, en þó má gera ráð fyrir því, að hún verði allt að tvöföld sú upphæð, sem nefnd er í frv. Mér þykir það undarlegt, ef allur þorri lánstofnana getur ekki gert sig ánægðan með það að fá inn þetta 10—20% af þessum kröfum, því að það er alveg óvíst, hvort þær hefðu meira af þeim, þótt gengið væri að með mestu hörku. — Hv. 4. landsk. gat þess, að víðar væri um ábyrgðarkröfur að ræða en hjá bændum, og væri full þörf á því að hlaupa víðar undir bagga. Þetta má vel vera, en það er ekki tímabært að ræða það mál í sambandi við þetta frv. Um þessar ábyrgðarkröfur stendur alveg sérstaklega á. Þær eru orðnar til fyrir ráðstafanir hins opinbera. Og í mörgum tilfellum hafa ábyrgðarmennirnir ekki verið um það spurðir af ábyrgðareigendum, hvort þeir ætluðust til, að kröfurnar væru samþ. eða ekki. Og þó þeir séu um það spurðir, hafa þeir oft og tíðum enga aðstöðu til þess að dæma um það. Flestir þeirra búa í fjarlægð og geta því ekki myndað sér skoðanir á því, hvort betra sé fyrir þá, að samningarnir séu samþykktir. Þetta gerir það að verkum, að þeir eiga réttmæta kröfu á því, að hlutur þeirra sé ekki fyrir borð borinn og þeim ekki sýnd harka í því að ganga eftir þessum kröfum.

Hv. þm. gat þess, að framlagið kæmi þungt niður. Það fer auðvitað eftir því, hvað hátt það verður. En ég játa, að mér var óljúft að fara þessa leið, en taldi annað ekki fært en að leggja til, að þetta yrði greitt sem óafturkræft framlag úr Kreppulánasjóði. Ég vildi óska þess, að Kreppulánasjóður gæti sem allra mest staðið undir sínum skuldbindingum sjálfur. Og ef allt væri með felldu um þann atvinnuveg, sem honum er ætlað að styrkja, ætti ekki að vera vonlaust um, að hann færi langt með það. En sjóðurinn verður auðvitað fjær því marki, ef hann þarf að leggja þessa upphæð fram. Samt sá ég mér ekki fært að leggja til, að þetta fé yrði greitt beint úr ríkissjóði; þó að það komi á ríkissjóð á endanum, kemur það allt öðruvísi fyrir, að greiða þessa upphæð út alla í einu, í stað þess að mega endurborga hana á 40 árum. Það sér lítið á fjárl. hvers árs, þó að fertugasti hluti þessarar upphæðar verði færður þar til, en stærri framlög úr ríkissjóði treysti ég mér ekki til þess að fara fram á nú, eins og hag hans er komið. En ég áleit alveg óverjandi að gera ekkert í þessu núna á þinginu. Ef viðunanleg lausn fæst nú á þessu máli, er engin hætta á ferðum, því að fáar lánstofnanir munu vera farnar að innheimta þessar ábyrgðarkröfur. Hv. 4. landsk. gat þess, að ýmsar lánstofnanir hefðu fengið þó nokkrar búsifjar af því að verða að taka vaxtalánsbréf upp í kröfur sínar. Ég held, að lánstofnanirnar hafi enga ástæðu til að kvarta yfir þessu. Ég er sannfærður um það, að þær hafa haft betra af því að taka vaxtalánsbréf upp í kröfur sínar en að láta allt danka í sama feninu sem það var í. Mér er nær að halda, að skuldheimtumennirnir hafi yfirleitt bætt hag sinn vegna þessara ráðstafana hins opinbera, og hefi því enga sérstaka tilhneigingu til þess að hlífa þeim óþarflega mikið.