03.12.1934
Sameinað þing: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1935

1) Forsrh:

Út af brtt. við fjárl. frá 3 þm. um heimild handa ríkisstj. til þess að greiða úr ríkissjóði aukauppbót á útflutt kjöt af framleiðslu ársins 1934 vill ríkisstj. taka þetta fram til viðbótar þeim yfirlýsingum, sem hún hefir áður gefið um þetta mál:

Ennþá er ekki seldur nema nokkur hluti kjöts þess, sem seldur verður á erl. markaði af framleiðslu þessa árs, og því ekki vitað um úrslit kjötsölunnar fyrir þetta ár. Öruggt er heldur ekki, að heimild til greiðslu í verðjöfnunarsjóð komi að notum, nema ríkisstj. sé jafnhliða séð fyrir tekjum til að mæta greiðslunum. Tekjuöflunar er ekkert getið í sambandi við till. og ekki líklegt, að slík tekjuöflun geti gengið fram á þessu þingi, m. a. vegna þess, að enginn veit, hver upphæð kann að vera nauðsynleg í þessu skyni. Í byrjun næsta þings, sennilega í marz, verður komin frekari vitneskja um úrslit kjötsölunnar, og mun ríkisstj. þá, ef verðjöfnunargjaldið skapar ekki viðunandi verðjöfnun, beita sér fyrir nauðsynlegum aðgerðum og jafnframt bera fram till. til tekjuöflunar til að standast framlög þau til verðjöfnunarsjóðs, sem honum yrðu ætluð.