07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

58. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Pétur Magnússon)[óyfirl.]:

Auðvitað þýddi ekki að mæla með þessari löggjöf, ef búizt væri við, að allt stæði við sama og áður. Ég geri einmitt ráð fyrir, að frv., ef að lögum yrði, myndi bera ávöxt, þótt hinn möguleikinn sé auðvitað til.

Annars er það misskilningur hjá hv. 4. landsk., að bankarnir séu búnir að gefa eftir mikið af skuldum bænda. Bankarnir hafa enn engar skuldir gefið upp, nema smáupphæð, þar sem veðlán hafa verið umfram fasteignamatsverð, en 9/10 af öllum skuldum bænda er ábyrgðarskuldir og þeim halda bankarnir öllum enn gagnvart ábyrgðarmönnunum. Það má víst öllu fremur benda á dæmi þess, að bankarnir hafi grætt á því, að veðskuldir bænda hafa verið greiddar upp í fasteignamatsverð. Ég held, að bankarnir hefðu oft og tíðum mátt sætta sig við minni greiðslur, ef þessar jarðir hefðu verið seldar á nauðungaruppboði.

Hv. þm. segir, að samkv. frv. sé ætlazt til þess, að bankarnir gefi upp 750 þús. kr., en þess er að gæta, að stórar upphæðir af þessum skuldum eru hjá sparisjóðum úti um land, og auk þess er gert ráð fyrir, að eitthvað komi frá ábyrgðarmönnunum, því að vitanlega eru þeir menn til, sem geta tekið á sig eitthvað af lánunum. Það er tilætlun frv., að Kreppulánasjóður taki á sig nokkurn hluta skuldarinnar, ábyrgðarmennirnir nokkurn eftir getu, og hitt gefi lánstofnanirnar eftir.

Hv. 4. landsk. var að tala um það, að hagur ríkissjóðs væri erfiður á þessum tímum, og skal ekki mælt á móti því, en hér er þess að gæta, að þetta framlag hans á að skiptast á 40 ár. Hér er því ekki um að ræða nema 12500 kr. á ári fyrir ríkissjóð. Það má auðvitað segja, að þetta sé há upphæð, en ekki held ég, að sagt verði, að það marki hag ríkissjóðs, þótt þetta verði gert, og víst er um það, að oft hefir ekki verið horft í slíkar fjárveitingar, þótt til óþarfari hluta væri.

Hv. þm. sagði, að ríkið ætti lánstofnanirnar. Þetta má til sanns vegar færa um bankana, en það er einmitt búizt við því, að samningar samkv. frv. geti orðið til sameiginlegra hagsmuna ábyrgðarmönnum og lánstofnunum. Það er með öllu vafasamt, að lánstofnanirnar fengju meira af skuldum sínum greitt á annan hátt en þennan.

Hv. 4. landsk. var að tala um, að einstakir menn væru eigendur sumra þessara ábyrgðarskulda. En mér er óhætt að fullyrða, að þær upphæðir nema örlitlu, — eru líklega ekki nema um 10 þús. kr. á öllu landinu.