25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

77. mál, áfengislög

Finnur Jónsson:

Það er nú orðið upplýst af ræðu hæstv. dómsmrh., að þetta frv. er föðurlaus aumingi, sem illu heilli hefir villzt hér inn á Alþingi. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa óánægju minni yfir útbúningi þessa frv. Atkvæðagreiðslan, sem fram fór í okt. 1933, var ekkert annað en skrípaleikur, skrípamynd af þjóðaratkvæði, þar sem ¼ hluti þjóðarinnar gr. atkv.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði þessa frv., en vildi aðeins benda á, þar sem hæstv. dómsmrh. talaði um skýlausan rétt bæjarfélaganna að ákveða um söluleyfi, að þetta er alls ekki rétt. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að leyfa útsölu sterkra drykkja alstaðar þar, sem útsala Spánarvína er nú. Ég veit ekki betur en Spánarvínaútsala sé í öllum kaupstöðum landsins, nema Neskaupstað. Sjálfsákvörðunarréttur bæjarfélaganna nær því í þessu tilfelli aðeins til 1 kaupstaðurins, þrátt fyrir það, að ýmsir hinna kaupstaðanna, t. d. sá kaupstaður, sem ég er hér þm. fyrir, Ísafjörður, hafi lýst sig ákveðið mótfallna sterkum drykkjum. Ég vænti þess, að taka megi orð hæstv. dómsmrh. trúanleg um, að hann muni fylgja hverri till., sem til bóta er flutt í þessu máli, og vænti því, að hann muni fylgja till., sem ég mun flytja um, að sjálfsákvörðunarréttur bæjarfél. fái að njóta sín einnig í þessu tilfelli.

Ég skil ákvæði frv. svo, að ráðh. megi veita veitingahúsum vínveitingaleyfi í þeim kaupstöðum, þar sem Spánarútsölur eru, en það er vitanlega líka brot á sjálfsákvörðunarrétti bæjarfélaganna, því þegar fyrst var farið að flytja Spánarvínin inn, var það vegna öflugra mótmæla bæjarstjórnanna, að veitingahúsin fengu ekki vinveitingaleyfi, nema í Rvík.

Ég hefi veitt því eftirtekt, að bílstjórar og flugmenn missa réttindi samkv. frv. þessu, ef þeir eru ölvaðir einu sinni, en skipstjórar mega vera ölvaðir við verk sitt allt að 3 sinnum án þess að missa réttindi. Ég horfði á það í sumar að bát hvoldi á Ísafjarðardjúpi með 8 eða 9 mönnum, en fyrir sérstaka heppni og af því stillilogn var, þá björguðust allir, nema ein gömul kona. Slysið vildi til, skilyrðislaust, vegna þess að skipstjórinn, eða sá, sem stýrði bátnum, var undir áhrifum víns. Samkv. þessu frv. er ekki hægt að svipta þennan stýrimann formannsréttindum. En ef það hefði verið bílstjóri, sem hefði sent gömlu konuna inn í annan heim, hefði hann misst ökuleyfi æfilangt. Í þessu er geysilegt ósamræmi, sem verður að breyta, ef nokkurt samræmi á að vera í hegningarákvæðum þessara laga.