22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

77. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er aðallega eitt atriði í þeim brtt., sem ég hefi flutt, er andmælum sætti hér. Það er ákvæðið um, að lögregluþjónar og löggæzlumenn hafi heimild til þess að framkvæma húsrannsókn upp á eigin ábyrgð. Ég átti tal um þetta í gær við núv. lögreglustjóra. Hann sagði mér, að þessu væri þannig hagað núna, að lögregluþjónar framkvæmdu húsrannsókn þar, sem þeir hefðu grun um, að ólöglegt áfengi væri haft um hönd, án þess að neinn úrskurður hefði verið felldur um þetta. Þessu hefir hæstv. forsrh. og fyrrv. lögreglustjóri mótmælt. Hann segir, að þetta hafi einnngis átt sér stað, þegar um var að ræða menn, sem áður höfðu gerzt brotlegir í þessu efni. Út af þessum ágreiningi, sem virðist vera milli hæstv. forsrh. og núv. lögreglustjóra, hefi ég aftur átt tal við lögreglustjórann um þetta mál. Hann staðfesti einungis það, sem hann hafði áður sagt um þetta.

Ég get ekki séð neinn raunverulegan mun á því, að lögregluþjónar og löggæzlumenn framkvæmi þessa húsrannsókn upp á eigin spýtur, eða þeir þurfi að sækja um leyfi til þess til yfirvaldanna, vegna þess að það eru þessir menn, sem framkvæma húsrannsóknina. Þeir leggja fyrir lögreglustjóra eða sýslumenn grun sinn um, að ólöglegt áfengi sé á þessum og þessum stað. Framkvæmd húsrannsóknarinnar er því byggð á áliti löggæzlumannsins, enda þótt sækja þurfi um leyfi til hlutaðeigandi yfirvalds til þess að fá að framkvæma rannsóknina.

Hitt er annað mál, að það er alkunnugt, að það er mikill munur á því, til þess að ná einhverjum árangri, hvort sú leið er farin, að leyfa löggæzlumönnum að framkvæma húsrannsóknina upp á eigin spýtur, eða að þeir verði að sækja um leyfi til sýslumanna og lögreglustjóra til framkvæmdarinnar, því að þótt sýslumaður sé ekki mótfallinn slíkum rannsóknum, getur samt liðið svo langur tími, unz leyfið er fengið, að tækifæri það, sem um var að ræða, sé liðið hjá. Hinsvegar er það líka kunnugt, að sýslumenn hafa reynzt mjög staðir í því að veita slík leyfi. Það atriði út af fyrir sig nægir eitt til þess að gera það að verkum, að mjög miklum örðugleikum getur verið bundið að framfylgja þessum lögum í þessu efni.

Þegar þetta allt er athugað, get ég ekki séð annað en að það sé fullkomlega forsvaranlegt, fyrst lögin heimila á annað borð húsrannsóknir, að þessum löggæzlumönnum sé falið að framkvæma þær. Það er engin ástæða til þess að væna þessa menn um, að þeir beri ekki ábyrgð gerða sinna í þessu efni, eins og fram kom hjá hv. þm. V.-Sk. Það kom fram hjá hv. þm., sem haldið hefir verið fram af andbanningum, að með því að gera þetta, þá væri úrýmt bruggi og smyglun til landsins. Ég er hræddur um, að fullyrðingar þessara manna rætist ekki í þessu efni, því að það er kunnugt, að í þeim löndum, sem ekkert bann hafa, en hinsvegar háa tolla á öllu áfengi, er sterk tilhneiging til þess að smygla víninu inn í landið og losna á þann hátt við greiðslu tollsins. Þessi vín verða nógu dýr til þess að sumir menn hafi hvöt til þess að reyna að komast undan tollgreiðslu við innflutning vína til landsins. Þess vegna er það ekki rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að nokkur veruleg breyt., verði í þessu efni, eftir að þessi nýja áfengislöggjöf fær staðfestingu hér á hv. Alþ. Nei, það er sama nauðsyn að útrýma bruggi og smyglun eftir sem áður, og er því ekki hægt að gera ráð fyrir beinni breyt. í þessu efni.

Að því leyti sem nauðsynlegt er að halda uppi löggæzlu viðvíkjandi ólöglegri meðferð áfengis, þá er sama nauðsyn eftir, og það slær engri rýrð á það, að nauðsynlegt sé að taka upp í þetta frv. þau ákvæði, sem ég hefi lagt til, að eftirlitið sé gert hæft til þess að koma upp lögbrotum, með því að leyfa löggæzlumönnum að ljósta upp lögbrotum þar, sem um þau er að ræða.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þetta mál. Ég vil að lokum minnast á það sérstaklega, sem kom fram hjá hv. þm. V.-Sk. þessu máli viðvíkjandi. Hann er því andvígur, að stórtemplar verði ráðunautur í áfengismálum. Hann segir, að hann sé ekki sjálfkjörinn embættismaður þess opinbera. Í minni till. er þetta þannig orðað, að hann sé ráðunautur stj. í þessum málum. Fái ríkisstj. ráðunaut í þessum málum, þá get ég ekki betur séð en að sá maður, sem bindindisfélögin í landinu hafa gert að forustumanni í sínum málum, sé manna sjálfsagðastur og hæfastur til þess að gegna því starfi. Það, sem hér er um að ræða, er vitanlega ekkert annað en það, að viðkomandi ráðh. eða stj. sé aðstoðuð í því að sporna á móti þeim háska, sem allir hljóta að viðurkenna að stafar af vínnautn og ofdrykkju í þessu landi. Fyrst þetta er viðurkennt, þá get ég ekki séð neina ástæðu gegn því, að þessi maður sé ráðunautur stj. í þessum efnum. Það verður því í áframhaldi af þessu og í samræmi við það, að skipa forystumenn þeirra nefnda, sem gert er ráð fyrir að settar verði á fót í hverjum hreppi á landinu, til þess að bein áhrif hans á starfsmenn þessarar nefndar í baráttunni við ofdrykkjuna geti notið sín sem bezt.

Af því, sem nú var sagt, tel ég tvímælalaust rétt, að hv. deild samþ. till. mína um það, að stórtemplar verði gerður að ráðunaut stj. um þessi mál.