17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Jón Sigurðsson:

Ég á litla brtt. á þskj. 699, við brtt. á þskj. 670, um að á eftir orðunum „frá Silfrastöðum“ komi: með stöð á Egilsá. Egilsá verður skammt frá þessari línu, en bærinn er inniklemmdur af ám, Norðurá á aðra hönd, en Egilsá á hina. Er því á vissum tímum erfitt að komast þaðan til annara bæja. Er því ekki nema sanngjarnt, að þessi línustúfur verði lagður. Landssímastjóri hefir viðurkennt við mig, að þarna sé ekki um verulegt fjárhagsatriði að ræða, og það eina, sem hann hefir á móti línunni, er, að of margar stöðvar verði á þessari aðallínu. Þó ber þess að gæta, að hér er ekki um neina aðalstöð að ræða. En sími yrði mikið hagræði fyrir þennan bæ og annan, sem þar er skammt frá. Þessir bæir liggja að afrétti, og gæti því sími orðið til mikilla þæginda fyrir bæi niðri í sveitinni, er þyrftu að síma þangað, sérstaklega vor og haust. Vil ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En viðvíkjandi þeirri línu, sem tekin hefir verið upp, um Blönduhlíð og Viðvíkursveit, vil ég benda á, að viðkunnanlegra hefði verið að fella um leið niður línu þá, sem fyrir var í símal. Er ofraun að hafa tvær símalínur sömu bæjarleiðina, og jafnframt dálítið hlálegt.