28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

150. mál, fiskimálanefnd

Jóhann Jósefsson:

Ég skil ekki, hvers vegna má ekki vísa frv. til n. á þessu stigi málsins. Ef hæstv. stj. og flm. vilja ekki fresta umr. og vísa málinu til n. eftir að því hefir verið lýst yfir, að málið skuli þar tekið til meðferðar, sýnist mér það liggja eins beint við og að ljúka umr. nú. Mér sýnist vera nauðsynlegt, að þetta mál verði athugað gaumgæfilega og að fleiri aðilum en n. verði gefinn kostur á að láta uppi sína skoðun; tel ég ekki þýðingarlaust, að sjútvn. — og enda sjálfsagt — sendi frv. þetta til bankanna og fisksölusamlagsstj., svo að þeim gefist kostur á að segja sitt álit. Ég tók eftir því við útvarpsumr., að frsm., hv. þm. Ísaf., taldi víst, að stj. fisksölusamlagsins legði ekki móti frv.; ef svo er, þá er gott að fá það skjallega sannað. En hvort sem er sé ég enga hættu af því að vísa málinu til n. milli 2. og 3. umr. frekar en milli 1 og 2. umr. En ef ekki þykir viðeigandi, að frv. fari til n., og hæstv. stj. hugsar sér að keyra frv. í gegnum þingið án þess, þá er ekkert við því að segja, hún ræður því, en þá verður að haga sér í umr. og öðru eftir því.