22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það eru ekki mörg atriði í þessu frv., sem ég þarf að taka til athugunar við þessa umr. Ég býst við, að flestir viðurkenni þann hámarksaldur, sem þetta frv. hefir, og fallist á heimild til þess að láta embættismenn fara frá embættum 65 ára og skylda þá til þess 70 ára. Í þessu sambandi vil ég benda á, að hvað snertir hæstaréttardómara, er miðað við 65 ára aldur. Þess vegna er ekki rangt að miða við 65 ára aldur í þessu frv. Þetta sýnir, að þegar lögin viðvíkjandi hámarksþjónustualdri hæstaréttardómara voru samin, var álitið, að þessir menn væru ekki færir að gegna embættisstörfum eftir þennan aldur. Einnig má í þessu sambandi benda á reglur, sem settar hafa verið í Landsbankanum í þessu efni. Þar er þjónustutíminn einnig bundinn við 65 ára aldur, þannig að þeir, sem náð hafa þeim aldri, hafa fengið 1—2 ára framlengingu, en hafa svo orðið að fara frá störfum. Mér er kunnugt um tvö dæmi síðan þessar reglur gengu í gildi, þar sem menn, sem náð hafa áðurnefndum aldri, hafa fengið 1—2 ára frest, af því að þeir voru álitnir starfhæfir, og urðu síðan að leggja niður störf.

Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn sem beint hefir verið til mín um það, hvernig þetta verði framkvæmt, vil ég taka það fram, að ég geri ráð fyrir, að þetta verði þannig framkvæmt, að sá maður, sem telst vera ern og hæfur til þess að gegna embætti sínu fái framlengingu fram yfir 65 ára aldur, svipað því sem á sér stað í Landsbankanum, eins og ákvæði frv. gefa beinlínis í skyn, en annars ekki. Það er vitanlega mjög misjafnt, hversu ernir menn eru og hversu færir þeir eru til þess að starfrækja embætti sín eftir 65 ára aldur. Það fer eftir heilsu manna, og þessi mismunur virðist vera algengur. Þegar á að setja reglu um slíkt atriði sem þetta, verður að miða við þá meðalreglu, sem virðist gilda í þessu efni. Flestir hrörna, þegar þeir eru komnir yfir sextugsaldur, og þess vegna er eðlilegt, að löggjöf sé sett um þetta hér, eins og erlendis hefir tíðkazt, svo að um þetta atriði sé ákveðin reglugerð eins og viðvíkjandi Landsbankanum og hæstaréttardómurunum.

Vitanlega má segja, að það kosti ríkið talsvert fé að láta þessa menn fara frá störfum og greiða þeim eftirlaun. En þegar talað er um aukinn kostnað fyrir ríkissjóð vegna þessara eftirlauna, þá ættu menn að athuga það, að venjulega verður þetta ekki nema 1—2 árum fyrr en ella hefði verið. Svo er annað atriði, sem er fullt eins þýðingarmikið í þessu sambandi, og það er það, að ekki er gott að segja, hvað það kostar þjóðfélagið í heild sinni að hafa svo gamla menn í þjónustu sinni, að þeir geti ekki unnið störf sín á viðunandi hátt. Ef sá kostnaður hefði verið reiknaður út, væri gaman að bera hann saman við þann beina kostnað, sem af því mundi leiða að láta menn fara frá embættum eftir sextíu og fimm ára aldur og láta þá fá eftirlaun.

Án þess að ég vilji nefna nöfn, vil ég samt minna menn á það, að bæði á fyrra ári og þessu ári kom fyrir vanræksla, sem stafaði af því, að hlutaðeigandi embættismenn voru ófærir um að inna starf sitt af hendi, sökum elli. Þeir voru búnir að missa starfsþrekið til þess að gegna embættinu og sjá um fjársjóði þess. En slíkir menn eru komnir yfir lögaldur sakamanna. Þeir menn, sem álitnir hafa verið vandaðir og heiðarlegir menn alla sína æfi, eru ekki taldir fremja þær yfirsjónir, sem kunna að koma fyrir við embættisfærsluna á elliárunum, af ásetningi.

Að öðru leyti er ekki mikið um þetta mál að segja. Þeir, sem um það hafa talað, eru yfirleitt sammála mér um það, að nauðsynlegt sé að setja löggjöf um hámarksaldur embættismanna. Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta. Fyrst þegar andmæli hafa komið fram, er ástæða til þess að svara því, sem ég tel þurfa að svara.