08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skagf. viðurkennir, að hámarksaldur sé í raun og veru 70 ár. Menn sitji ekki á þingi eftir þann tíma, enda séu starfskraftar þrotnir. En þetta svigrúm milli 60—70 ára er einmitt haft til að koma í veg fyrir, að menn sitji í embættum, ef þeir verða þrotnir að kröftum nokkru fyrir þennan hámarksaldur, eins og eðlilega kemur mjög oft fyrir. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að mjög fáir yfir 70 ára sætu hér í embættum. Mér er kunnugt um, að þeir munu vera 12. og fæstir þeirra eru færir um að gegna störfum lengur.

Annars er það algengt fyrirbrigði ellinnar, að þegar menn eru orðnir mjög hrumir, hætta þeir að finna, að þeir eru hrumir, vegna þess, að þeir missa gagnrýni á sjálfa sig. Þetta er ein af sáraumbúðum ellinnar og hefir því sína kosti, en vitanlega verður ríkið að leggja annan mælikvarða á starfshæfni embættismanna sinna.

Ég þarf ekki að deila um það, hvorir séu betur fallnir til starfa ungir eða gamlir, það er of augljóst mál. Og hvað reglusemi viðvíkur, þá eru þess einmitt sorgleg dæmi, að menn, sem hafa rækt embætti sín vel á manndómsárum sínum, afrækja þau í ellinni og gerast sekir um stórfelld embættisafbrot. Þetta frv. á einmitt að hindra það að góðir menn lendi í því óláni að á þá verði lítið í ellinni sem menn, er ekki hafi gert skyldu sína.